Fara í efni

VERÐTRYGGING LÁNA ER TÍMASKEKKJA

Einhver bankinn tilkynnti okkur um daginn að einn milljarður á viku væri sú upphæð sem flokkast þar á bæ undir hagnað. Auðvitað er eitthvað af þeim smámunum sótt til útlanda, en stór hluti er sóttur til okkar hér á skerinu í formi vaxta, verðtryggingar og þjónustugjalda af ýmsum toga.

Ekki hafði ég neitt á móti því á sínum tíma að Landsbankinn færi úr eigu ríkisins, mér þótti hann að vísu fara fyrir heldur lítið, en það er nú önnur saga. Og þegar það er skoðað að bankabáknið fór allt á sömu kjörum, er það kannski engin tilviljun að slíkar stofnanir hafi þann eiginleika að fara fyrst verulega að skila hagnaði þegar þær fara í faðm hins óhefta frelsis.

Helmingaskiptaveldið er ekkert að fela andlit sitt þegar kemur að því að bjóða bitlinga. Allavega var svo komið, þegar bankarnir voru seldir, að þjóðin gat ekki lengur þolað það sukk sem hafði alltof lengi viðgengist með alslags helmingaskiptafyrirkomulagi við val í bankaráð og með víkjandi lánum út og suður; austur og vestur. Menn lánuðu vinum og vandamönnum og leyfðu tilbúinni verðbólgu að éta lánin upp, þannig að útvaldir greiddu aldrei nema hluta lánanna til baka – nokkrir græddu, fjöldinn greiddi.

Og í dag sitjum við uppi með það sem þótti skyndilega réttlætanleg ráðstöfun, þegar þeir spenakálfar sem nú eru að verða ellihrumir höfðu blóðmjólkað kerfið; hin einkennilega verðtrygging lána var tekin upp – þetta fyrirbæri sem menn kölluðu einnig vísitölubindingu hér í eina tíð. En þetta varð til þess að snúa dæminu endanlega alþýðunni í óhag. Nú varð skyndilega hægt að lána öllum, ekki bara nokkrum útvöldum, því nú gerðist það að fólk borgaði alltaf til baka það sem það fékk að láni og rúmlega það.

En það sem gerðist var það að lán og laun hættu að fara í sömu átt. Á meðan bankarnir sukkuðu með eigur almennings, hurfu laun í báli verðhækkana og eins var það að lán rýrnuðu af sömu sökum, þannig að laun og lán héldust í hendur. Svo kom vísitölubindingin og bjargaði því að lánin héldu verðgildi sínu, en á sama tíma var alltaf einhver verðbólga sem sá um að rýra gildi launa.

Þetta er ósköp einfalt og þessu má einfaldlega kippa í lið með því að banna það að lán hækki meðan laun lækka. Staðreyndin er nefnilega sú að stjórnmálamenn hafa haldið hlífiskildi yfir þessari spillingu og ekki bent á þá staðreynd að ef verðbólga er t.d. 4%, þá lækka laun sem því nemur og lán hækka um þessi sömu fjögur prósent, sem segir þeim sem kunna eitthvað í reikningi að í raun hækki lánin um 8%, því verðgildi peninganna sem greitt er með hefur rýrnað – Það kostar fleiri svitadropa að klófesta hverja krónu.

Vinstri-grænir ættu að ráðast í það að rannsaka þetta mál í kjölinn og gefa kjósendum það loforð að þessu hróplega óréttlæti verið fargað.

Mergurinn málsins er sá að það sem kallast verðtrygging lána, er í raun og veru ekkert annað en lögverndaður þjófnaður.

Maður veltir því ósjálfrátt fyrir sér, hvort það séu samantekin ráð allra stjórnmálaflokka í landinu að þegja í heil þá staðreynd að lánin hækka í raun alltaf um tvöfalda hækkun verðbólgunnar.

Það eitt veit ég að hér er verið að þjóna fjármangseigendum einum. Ekki kemur þetta alþýðunni til góða.

Hvort Vinstri-grænir sjá sér hag í því að berjast gegn þessum glæp, er náttúrulega undir forystu flokksins komið. Ég sjálfur get aðeins vonað að þar fari ekki í fylkingarbrjósti sá tvískinnungur sem flokkurinn sýnir í því ástar/haturs-sambandi sem hann sýnir framsóknarmönnum, með því að styðja þá í borgarstjórn en níða þá í ríkisstjórn. Því ef sá flokkur er ekki mesti máttarstólpi samtryggingarinnar og helmingaskiptanna, þá veit ég svei mér ekki hvert hægt er að benda í þeim skelfilega skollaleik.

Ögmundur, þér er treystandi fyrir því verðuga verkefni að eyða þessari tímaskekkju í eitt skipti fyrir öll. 
Kristján Hreinsson, skáld