Fara í efni

TIL HAMINGJU ÍSLAND

Ég heyrði eitt sinn af níræðum karli sem var spurður að því hvernig hann hefði það. Sá gamli svaraði og sagðist vera fínn í fótunum, klár í kollinum en aðeins farinn að klikka í miðjunni. Svo heyrði ég eitt sinn af því að níræður uppistandari í henni Ameríku lét eftir sér hafa að það að stunda kynlíf eftir áttrætt væri einsog að spila biljarð með bandspotta.

Það er viðeigandi að rifja þessar sögur upp þegar framsóknarmenn halda uppá níutíu ára afmæli flokks síns. En þótt það færi nú ekki hátt í fréttum, þetta afmælisbarn, þá er það nú engu að síður ljóslifandi staðreynd að flokkur framapotara, stóriðjudýrkenda, helmingaskipta og yfirleitt flokkur alls sem má missa sín er orðin aldurhniginn og væntanlega kominn með annan fótinn undir græna torfu.

Þessi flokkur, sem í eina tíð var flokkur samvinnu og sátta, er í dag flokkur spillingar og samtryggingar, flokkur helmingaskipta og valdabrölts í skjóli bitlinga og klíkustarfsemi af ýmsum toga. Enda er það engin tilviljun að ein frægasta setning sem höfð er eftir framsóknarmanni er einhvernveginn á þessa leið: ,,Mafía er hún og Mafía skal hún heita“. En það var Óli Jó, þáverandi forsætisráðherra, sem sagði þetta þegar verið var að rannsaka tengsl Framsóknarflokksins við Klúbbinn, sem þá var skemmtistaður hér í borg. Mörgum manninum þótti Óli tala af mikilli hreinskilni þegar hann talaði um Mafíuna og Framsóknarflokkinn í sömu andránni.

Framsóknarmenn héldu uppá afmælið af þeim höfðingsskap sem þeim einum má tileinka, þeir gáfu sér gjafir í formi bitlinga og sönnuðu enn og aftur að alltaf má toppa þá hræsni sem áður þótti keyra úr hófi fram. Þeir opnuðu sjálfir alla pakkana sem þeir tóku frá kjósendum. En einn af pökkunum innihélt fimm tímabundnar ráðningar í störf á vegum borgarinnar, störf sem ekki þarf að auglýsa og ráðningar sem ekki er hægt að kæra, jafnvel þótt þeir sem störf hlutu séu af lista flokksins. Auðvitað er þetta ekkert nýtt og menn ættu ekki að kippa sér upp við það að framsóknarmenn brenni sig sjálfa á báli spillingarinnar. Og það er ekki heldur nýtt að leiðtogar flokksins horfi bláköldu augnaráði í myndavélar sjónvarpsmanna og segja okkur að við hefðum svosem mátt búast við því að framsóknarmenn settust að kjötkötlum eftir kosningar. Ekki kom heldur á óvart að formaður flokksins skyldi af kokhreysti halda því fram að flokkurinn þyrfti engu að kvíða. Formaðurinn sagði flokkinn stóran og sterkan og sagði að eftir flokksþing myndu menn greina hið rétta andlit flokksins. Þetta sagði formaðurinn á meðan fylgi flokksins á Höfuðborgarsvæðinu er vart mælanlegt.

Auðvitað er þetta sá sterki Framsóknarflokkur sem ég vil hafa í landinu, hann er svo sterkur að hann má eiginlega hverfa. Ég vil að hann mælist ekki og ég vil að það verði opinberlega viðurkennt að hver sá sem fer í framboð fyrir þennan illræmda flokk hugsi fyrst og fremst um bitlingapólitík en ætli aldrei að lyfta litlafingri fyrir þjóðina.

Ég vil að það verði opinberlaga viðurkennt að það sem framsóknarmenn hafa stolið frá þjóðinni með eilífu ranglæti verði tekið frá þeim með aðferðum réttlætisins.

Í afmælishófi sem framsóknarmenn héldu hinum lúna og slóttuga öldungi var afhjúpað nýtt merki flokksins en það birtir mynd af andlitsfalli tveggja manna og minnir óneitanlega á þau orð sem sögð eru lýsa flokknum best nú á dögum: ,,Þar sem tveir framsóknarmenn koma saman – þar er spegill“.

Í tilefni af afmæli Framsóknarflokksins og vegna þess að fyrsta prentun bókar minnar, Aldrei kaus ég Framsókn, seldist upp fyrir jólin, hef ég í hyggju að gefa út sérstaka afmælisútgáfu núna í byrjun árs.

Með þá von í brjósti að ég geti staðið við haug Framsóknarflokksins eftir kosningarnar í vor birti ég hér síðustu vísu bókarinnar:

Framsókn að endingu farið nú hefur
til feðranna sinna á nábleiku skýi,
banamein flokksins var blekkingavefur,
bitlingasýki og inngróin lygi.

Kristján Hreinsson, skáld