Fara í efni

HÖNDIN ER BÓLGIN OG BLÁ

Allt frá þeim degi er Jón Ásgeir Jóhannesson neitaði að greiða tíund í sjóði Sjálfstæðisflokksins, hefur fyrirtækið Baugur verið í sóttkví Davíðs Oddssonar. Smithættan var talin svo mikil að öllu var fórnað til að koma í veg fyrir þann faraldur sem út gat brotist.
Baugur rann af fingri blárrar handar, sjúklegur farsi var farinn af stað og eitthvað varð til bragðs að taka.
Forsöguna þarf að rekja alltaf annað slagið svo þjóðin sofni ekki á verði. En aðalatriðin eru örfá, um leið og þau eru öll afar mikils virði. Davíð Oddsson, eða hvað hann nú heitir sá ónefndi maður, vissi um ráðabrugg Jóns Geralds, þegar upp kom hið sérkennilega mútumál, sem sýndi mér að Davíð virtist ekki ganga heill til skógar.
Davíð, formaður Sjálfstæðisflokksins, vissi semsagt allt um málið, þegar vinir hans og samstarfsmenn, Jón Steinar Gunnlaugsson, Styrmir Gunnarsson og Kjartan Gunnarsson, héldu fund og ákváðu að ýta málefnum Baugs í ferli sem leitt gæti til ákæru.
Hér er um það að ræða, að vinir formanns Sjálfstæðisflokksins, lögmaður, ritstjóri málgagns Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, halda fund til að ákveða hvaða leið málið gat farið. Og á sama tíma ákváðu þeir að fingraför flokksins máttu hvergi sjást á einu eða neinu sem málatilbúnaðinn snerti.
Þessi núningur manna í millum hlýtur að teljast eitt af alvarlegu slysunum í málinu öllu. Og nú er stór hluti þjóðarinnar tilbúinn að setja plástur á báttið, því fylgið við klíkuna hefur sjaldan verið meira.
Svo er það náttúrulega ekkert annað en hrein og klár tilviljun að yfirmaður rannsóknarinnar, sem síðan fór af stað, skuli vera sonur fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. En Morgunblaðið er, einsog við vitum öll sem kunnum að lesa, ekkert annað en flokksblað hins ágæta Sjálfstæðisflokks.
Það er svo auðvitað samsæriskenning fársjúkra manna sem segir okkur að í þessu máli hafi Sjálfstæðismenn ekki einvörðungu séð um að halda sóttkví sinni hreinni, heldur hafi þeir á sama tíma stundað leynilegan sýklahernað.
Og núna síðustu vikurnar, þegar menn eru að upplifa það að Baugsmálið er ekkert annað en einföld truflun á geðsveiflum ónefnds manns, þá er það svo merkilegt að alltaf þegar menn eru fengnir til að ræða um ákæruatriðin, með og á móti, þá eru það undantekningalaust talsmenn Sjálfstæðisflokksins sem reyna að bera í bætifláka fyrir afglöp þeirra sem rannsökuðu málatilbúnaðinn.
Og það er ábyggilega ekkert annað en tilviljun að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skuli halda því fram að yfirvöld dómsmála hafi ekki sagt sitt síðasta í Baugsmálinu. Ef einhver maður er alvarlega innvígður í Sjálfstæðisflokkinn, þá er það Björn Bjarnason og hann veit eflaust hvað er hægt að gera í stöðunni.
Ef einhver á að vera innmúraður í sóttkví þá er best að byrja á fársjúkum valdafíklum í forysta Sjálfstæðisflokksins, klíkunni sem þykist hræðast stelsýki einsog pestina sjálfa.
Ef þjóðin áttar sig á því að smitberarnir eru sjálfstæðismenn, þá verður kannski hægt að breyta þessum sjúklega farsa í broslegan gleðileik.

Hver ritaði farsann með hatri og heift,
með hroka og fágætri öfund?
Hve lengi mun forystu flokksins það leyft
að fela þann ónefnda höfund?

 Kristján Hreinsson, skáld