Fara í efni

HREINAR LÍNUR SKILA ÁRANGRI

Vinstrihreyfingin – grænt framboð getur verið stolt af árangri sínum í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Skýrar áherslur flokksins í umhverfismálum, félagsmálum og skólamálum vöktu athygli en yfirskrift baráttunnar var „Hreinar línur“ — sem kjósendur virtust kunna að meta.

Ljóst er að umhverfismál komust á dagskrá í kosningunum ekki síst fyrir tilstilli VG og gott fylgi flokksins víða um land bendir til þess að margir hafi kosið um umhverfismálin. Á sama tíma hrapaði fylgi Framsóknarflokksins og er vart hægt að túlka úrslitin öðruvísi en svo að kjósendur séu að refsa flokknum fyrir frammistöðu hans í ríkisstjórn og þá einkum stóriðjustefnuna.
Sjálfstæðisflokkurinn sigldi hins vegar nokkuð lygnt í gegnum kosningarnar — hann dansar í sólinni eins og varaformaður Framsóknarflokksins hefur orðað það. Sjálfstæðismenn náðu að bæta stöðu sína lítillega þó að árangur flokksins hafi orðið minni en skoðanakannanir bentu til. Í Reykjavík hlaut flokkurinn næstminnsta fylgi sitt frá upphafi og sjö borgarfulltrúa kjörna sem eru í sjálfu sér stórtíðindi: Þrátt fyrir slit Reykjavíkurlistans og mjög erfitt kjörtímabil fyrir meirihlutann náði Sjálfstæðisflokkurinn ekki hreinum meirihluta. Margt bendir til að staða hans innan borgarstjórnar Reykjavíkur hafi veikst varanlega og er það auðvitað fagnaðarefni.
Árangur VG er glæsilegur víða um land. Mest hefur auðvitað borið á framboðinu í Reykjavík en þar fær flokkurinn tvo borgarfulltrúa og vakti athygli fyrir líflega og jákvæða kosningabaráttu. Í næststærsta bæjarfélagi landsins, Kópavogi, fær VG mann inn og sama má segja um Árborg.
Í Dalabyggð vann flokkurinn stórsigur og fékk 29,2% atkvæða. Í Dalvíkurbyggð fékk VG 18% og er þar stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Á Akranesi tvöfaldaði flokkurinn fylgi sitt, fór úr ríflega 6% í 14,3%. Á Akureyri tvöfaldaðist fylgið næstum, fór úr 8,7 til 15,9%. .Í álbæjunum Hafnarfirði og Húsavík er árangur VG eftirtektarverður. Í Hafnarfirði fer fylgi flokksins úr 2,9% í 12,1% og á Húsavík fær flokkurinn 12-14% fylgi í fyrsta sinn sem boðið er fram. Og rétt er að nefna Mosfellsbæ þar sem VG fær mann inn og meirihluti Sjálfstæðisflokksins fellur.
Auðvitað eru það vonbrigði að VG tapaði fylgi í Skagafirði en þar hefur flokkurinn verið í erfiðu meirihlutasamstarfi og á ýmsu gengið. Ekki síst er það ötulu starfi okkar fólks þar að þakka að ekki hefur verið ráðist í virkjun jökulfljótanna í Skagafirði og aðrar leiðir farnar í atvinnumálum en álleið ríkisstjórnarinnar, meðal annars hátæknisetur og öflug ferðaþjónusta. En þar spýtum við í lófana og eigum vafalaust eftir að sækja í okkur veðrið að nýju.
Að lokum má nefna tvo staði þar sem Vinstri græn náðu ekki inn manni en stóðu sig eigi að síður glæsilega. Það eru Reykjanesbær þar sem VG náði 5,3% þó að undirbúningur hafi verið allskyndilegur en ákveðið var að bjóða fram nokkrum dögum áður en framboðsfrestur rann út. Í Hveragerði var ungt og öflugt fólk í efstu sætum og náði glæsilegum árangri, tæpum 10%, þó að ekki næðist að landa manni enda bæjarfulltrúar aðeins sjö. Það er ekki nokkur vafi á því að flokkurinn hefur fest sig í sessi á þessum stöðum og bæjarfulltrúum verður landað í næstu kosningum.

Flokkurinn fékk 14 sveitarstjórnarmenn kosna af hreinum VG-listum en seinast voru þeir fjórir. Enn fremur var hann áberandi víða í sameiginlegum listum sem gekk sæmilega, t.d. á Álftanesi, Grundarfirði, Ísafirði og Siglufirði/Ólafsfirði. Eftirtekt vekur að Vinstrihreyfingin – grænt framboð fékk að meðaltali um 13% fylgi þar sem hún bauð fram en Framsóknarflokkurinn 12%. Vinstri græn eru því þriðja stærsta stjórnmálaafl landsins sem hlýtur að vera einn mikilvægasti árangur kosninganna.

Það hljómar kannski ekki svo mikið að flokkur vaxi úr 9% fylgi í 13% en hafa verður í huga að Íslendingar eru íhaldssamir og kosningasveiflur um meira en þrjú prósentustig eru stórtíðindi. Enn fremur hafa sumir andstæðingar VG kallað flokkinn „10% flokk“, eins og fylgi hans í nokkrum kosningum sé orðið náttúrulögmál. Það náttúrulögmál hefur þá afsannast nú og mikilvægast af öllu er að það stafar af vaxandi innri styrk flokksins og hugarfarsbreytingu í umhverfismálum.

Það er mín trú að þessi fjögurra prósentustiga fylgisaukning VG muni hafa varanleg áhrif í íslenskum stjórnmálum, ekki síst ef á eftir fylgir fylgisaukning í alþingiskosningum að ári. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er til alls líkleg að ári og vegna skýrrar málefnastöðu flokksins er hægt að líta á þá fylgisaukningu sem nú hefur orðið sem vísbendingu um breytt hugarfar þjóðarinnar.
Katrín Jakobsdóttir