Fara í efni

UPPRUNAÁBYRGÐIR - BLEKKINGAR OG SKATTSVIK

            Á þessu vefsvæði er réttilega bent á fáránleikann sem fylgir svokölluðum upprunaábyrgðum raforku. Þær eru hluti af blekkingastarfsemi og braski með rafmagn, þar sem „orkusóðar“ geta keypt sér syndakvittanir af hinum sem sóða minna (eða lítið). Með þessu móti er kaupandinn, neytandinn, látinn halda að hann kaupi „hreina raforku“ (græna). Neytandinn er með öðrum orðum blekktur.

            Eins og lesendur vita gekk Bretland endanlega úr Evrópusambandinu nú um áramótin. Á heimasíðu bresku lögfræðistofunnar Pinsent Masons er fjallað um skattahliðina á þessu svindl-fyrirkomulagi, í grein frá 29. maí 2019. Fyrirkomulagið felur nefnilega ekki einungis í sér blekkingar gagnvart neytendum heldur felast einnig í því aukin tækifæri til skattsvika. Á heimasíðu Pinsent Masons segir m.a.:

            „Fyrirtæki sem kaupa upprunaábyrgðir þurfa að gera öfluga áreiðanleikakönnun til þess að forðast að lenda í virðisaukaskattssvindli og verða fyrir verulegu fjárhagstapi. Það er nauðsynlegt að fyrirtæki grípi til aðgerða til þess að bregðast við þessari áhættu.“ Þá segir: „Rafveitur í Bretlandi verða að upplýsa viðskiptavini og hugsanlega viðskiptavini árlega um samsetningu eldsneytis sem notað er til rafmagnsframleiðslu. Það verður að styðja með sönnunargögnum á formi upprunaábyrgða frá ESB, kallað upprunaábyrgð á endurnýjanlegri orku, eða „REGOs“, í Bretlandi. Hægt er að versla með upprunaábyrgðir óháð rafmagninu sem þær tengjast.“

            Þetta vita þeir sem fylgst hafa með braskinu á Íslandi og sölu upprunaábyrgða til Evrópuríkja. Mafíubraskið á Íslandi teygir sig um allt samfélagið; fjármálakerfið eins og það leggur sig, útgerðina, og síðan er mafíuvæðing orkumálanna og ferðaþjónustunnar komin á fulla ferð [sbr. kvótakerfi[i] í ferðaþjónustu sem sumir eru spenntir fyrir]. Í orkumálunum háttar svo til að hægt er að mafíuvæða í nafni loftslagsmála. Þannig er kominn „réttlæting“ fyrir braski og svindi.

            Upprunaábyrgðir sem keyptar eru frá öðru ESB-ríki bera ekki virðisaukaskatt. En þær bera virðisaukaskatt þegar þær eru seldar í Bretlandi. Hægt er að svíkja undan virðisaukaskatti í viðskiptum með upprunaábyrgðir þegar svindlarar kaupa ábyrgðirnar án virðisauka frá öðru ESB-ríki og selja áfram til breskra kaupenda, með virðisauka, en skila honum ekki [skilasvik] til hins opinbera [missing trader intra-community - MTIC) VAT fraud].[ii]

            Draga þarf til ábyrgðar þá íslensku stjórnmálamenn sem staðið hafa að sölu upprunaábyrgða og þar með stutt við brask og svindl. Ábyrgð stjórnmálamanna minnkar ekkert við það að benda á „meint góðverk“ þeirra á öðrum sviðum. Mafíuvæðingin er botnlaus spilling og stjórnmálamenn sem henni tengjast eiga að segja af sér umsvifalaust. Í raun réttri eru þetta sakamál og eiga að meðhöndlast sem slík. Hitt er þó rétt að hafa í huga að það er sama fólkið og stundar löggjafarstarf sem er flækt í spillinguna. Þar kemur margnefnd samtrygging til sögunnar. „Sá veldur miklu sem upphafinu veldur“. Sömu stjórnmálamenn þurfa að svara því hvaða nauðsyn hafi knúð til sölu upprunaábyrgða frá Íslandi og innleiðingar orkupakka þrjú. Því hefur enn ekki verið svarað af neinu viti.

[i]      Kvótakerfi er í eðli sínu úthlutunarkerfi, skömmtunarkerfi. Slíkum kerfum fylgir oft mikil spilling, ekki síst þegar „framsal“ er síðan innbyggt í annars lokað kerfi. Það merkir á mannamáli að braskararnir kaupa og selja þjóðareignir sín á milli (þjófsvæðing).

[ii]    Renewable energy: risk of VAT fraud relating to Guarantees of Origin. OUT-LAW NEWS | 29 May 2019 | Pinsent Masons. https://www.pinsentmasons.com/out-law/news/renewable-energy-risk-of-vat-fraud-relating-to-guarantees-of-origin