Fara í efni

SAMRÆMD EIGNAUPPTAKA Í EVRÓPU? - ORKUSTEFNA ESB - FRAMHALDSSAGA

            Þegar innleiðing orkupakka þrjú var til umræðu töldu sumir að málið snérist um „samræmingu“ reglna á Íslandi við reglur sem gilda á innri orkumarkaði Evrópu. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að þessi rök halda ekki. Ríki sem ekki hefur tengingu við orkumarkaðinn hefur enga ástæðu til þess að taka upp orkustefnu ESB, það segir sig sjálft.

            Ætla má að skýringuna sé helst að finna í þeirri staðreynd að áform um sæstreng hafa lengi verið til umræðu: að innleiðingunni sé ætlað að tryggja lagaumhverfi sæstrengslagningar. Oft hefur verið á það bent hvernig krafa ESB um markaðsvæðingu virkjunarleyfa leiðir til þess að almenningur missir yfirráð og eignarhald á auðlindum sínum. Það er með öðrum orðum krafan um uppskiptingu (unbundling) á milli framleiðslu og dreifingar og krafa um að virkjunarleyfi í almannaeigu verði viðfang braskara (og jafnvel fjárglæframanna) á markaði. Þarna birtist eignaupptakan, ríkjum og almenningi er gert að afhenda bröskurum eignir sínar. Er vitglóra er í slíku fyrirkomulagi?

            Braskararnir, og áhangendur þeirra, voru fljótir að grípa fegins hendi kröfu orkupakkanna um markaðsvæðingu raforkunnar. Afleiðinguna má þegar sjá  t.d. í fjölgun smávirkjana og magnuppkaupum vatnsréttinda. Allt í nafni „grænna lausna“. Margar smávirkjanir eru mjög umhverfisvænar. Það dugar hins vegar skammt ef arðurinn hverfur inn í „svarthol“.

            Ef sveitarfélag eða bæjarfélag reisir umhverfisvæna og hagkvæma smávirkjun, tryggir að eignarhaldið og þar með arðurinn haldist á staðnum, er strax ákveðin réttlæting fengin. Ef hins vegar braskarar kaupa upp vatnsréttindi, af landeigendum, til þess að komast þannig í auðlindir almennings, jafnvel í stórum stíl sem víðast, gegnir allt öðru máli.

            Eins og mál hafa þróast er ekkert því til fyrirstöðu að braskarar kaupi upp vatnsréttindi, reisi virkjanir, en selji að lokum erlendum glæpasjóði reksturinn og virkjanirnar. Það mál snýst ekki á nokkurn máta um „hræðslu við útlendinga“, eins og sumir lýðskrumarar t.d. í Samfylkingunni kynnu að halda, heldur hitt að eignarhaldi fylgja yfirráð og arður. Lengi hefur verð gagnrýnt hvernig nýlenduveldin arðrændu Afríkuríki. Er það fyrirkomulag sem menn vilja sjá í orkumálum Íslendinga?

Hvað skýrir orkustefnuna?

            ESB er ekki bandalag almannahagsmuna heldur „stórkapitals“ þ.e.a.s. auðræðisins. Það er beinlínis pólitísk stefna sambandsins að færa eignir frá almenningi og til þeirra sem ráða yfir auðmagni (oft stolnu fé eins og margar skýrslur sýna vel, tengist m.a. peningaþvætti). Á yfirborðinu er látið eins og sambandið berjist gegn glæpum og spillingu en er á sama tíma virkur þátttakandi í öllu saman. Sumir kunna að efast en þá er best að skoða gögn sem einmitt staðfesta spillinguna: „Stofnanir ESB eru heldur ekki ónæmar fyrir spillingu. Flest nýlegri tilvikin fela í sér misnotkun fjármuna ESB (þar með talin frávik þegar peningum hefur ekki verið varið samkvæmt reglum stofnana).“[i]

            Stefna Evrópusambandsins í orkumálum og fleiri málum skýrist fyrst og fremst af hagsmunagæslu fyrir auðmagnið. Hagsmunagæslan er síðan vandlega lögfest í sáttmálum, tilskipunum og reglugerðum. Ekki þarf heldur að skoða lengi stofnanauppbyggingu ESB til þess að sjá að lýðræði á þar ekki upp á pallborðið. Hver kaus t.a.m. Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins? Höfðu almennir kjósendur í aðildarríkjunum eitthvað um það að segja? Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ESB er andlýðræðislegt samband sem þjónar auðmagninu.

[Konan sem enginn kaus]

Alveg er við lýðinn laus,

leiðir fjármagnsklíkur.

Enginn þessa konu kaus,

kreppuvaldur slíkur.

            Óábyrgir „lagadeildardósentar“ töluðu þannig í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú að innleiðingin hefði engar afleiðingar. Það var auðvitað pöntuð niðurstaða stjórnmálamanna og hagsmunaðila sem vildu troða málinu í gegnum Alþingi. Afleiðingarnar eru hins vegar gríðarlegar og eiga eftir að koma betur í ljós [„landsreglari“, snjallmælar og hringlandi í gjaldskrám sem þeim fylgir, magnuppkaup á vatnsréttindum, og eignaupptaka á orkuinnviðum almennings]. Gengið var svo langt að fá fyrrum dómara við EFTA-dómstólinn til þess að hræða þjóðina til hlýðni við ESB-valdið. Sá reyndist auðvitað mjög hallur undir valdið og komst að þeirri „óvæntu niðurstöðu“ að allt færi í háaloft ef menn hlýddu ekki.[ii]

Opinbert eignarhald

            Í greinargerð með frumvarpi um stofnun Landsvirkjunar, árið 1965, segir m.a. „Megintilgangur þess að stofna til landsvirkjunar er sá, að skapa skilyrði til aflmikilla virkjana í stórám landsins, tryggja með því í senn næga raforku í landinu og lágan vinnslukostnað orkunnar.“[iii] Ekki verður annað sagt en að þessi markmið hafi gengið vel eftir. Raforkuverð á Íslandi hefur lengi verið mjög hagstætt og mun hagstæðara en í flestum ríkjum Evrópu.[iv]

            Með innleiðingu orkupakka þrjú ákváðu Alþingi og stjórnvöld að taka afstöðu með auðmagninu og ESB, gegn íslenskum almenningi og í raun gegn íslenskum iðnaði líka. Það er ekkert nýtt á Íslandi en eins gott að fólk geri sér það ljóst. Það verður ekki séð [sjá þó „þriðju leiðina“ hér á eftir], eftir langa skoðun, að yfirvofandi hættu orkustefnunnar verði afstýrt nema annað hvort með því að segja upp þeim þætti EES-samningsins sem snýr að orkumálum EÐA, ef það sýnist ekki ætla að takast, að segja upp EES-samningunum í heild sinni og semja upp á nýtt. Þar þarf að halda opnum öðrum möguleikum samhliða. Leggja áherslu á tvíhliða samninga við ESB en ekki síður við önnur ríki. Það verða að vera samningar á jafnréttisgrundvelli, án fullveldisafsals og framsals ríkisvalds.

            Þegar svo er komið að ríki eru þvinguð til þess að afsala sér fullum og óskoruðum rétti yfir orkumálum sínum hljóta menn að sjá að það er eitthvað verulega mikið að. Þessu má líkja við „efnahagsþvinganir“ sem ríkin fá yfir sig með innleiðingu ESB-gerða. Almenningi er sent langt nef, hann er ekki spurður álits, enda í takti við ólýðræðislegt fyrirkomulag innan ESB. Fólk sem enginn kaus er þar talið bærara og hæfara til þess að ráða framtíð þjóðfélaga en þegnar þeirra. Það er ekki einungis málfrelsið sem á í vök að verjast heldur og lýðræðið, þetta tvennt tengist náið. „Upplýstir“ einvaldar ESB hafa tekið við af lýðræðislega kjörnum fulltrúum.

            Á Íslandi hafa ágætir menn reifað þær hugmyndir að koma ákveðnum hluta raforkuframleiðslu í „skjól“ ef svo má segja [„þriðja leiðin“], þannig að almenningur verði ekki ofurseldur bröskurum sem víða vaða uppi [nægir að nefna stöðu leigjenda!]. Það verði gert með stofnun félaga í almannaeigu sem aftur annist framleiðslu og sölu rafmagns (á sem næst kostnaðarverði). Þann möguleika þarf að skoða mjög vandlega. Slíkur rekstur væri mjög í anda upphaflegra hugmynda að baki stofnunar Landsvirkjunar.

            Vitaskuld á íslenskur almenningur að gera þá gagnkröfu að verði hann rændur, með lagaboði frá Brussel, áskilji sami almenningur sér þann rétt (verandi eigandi t.d. Landsvirkjunar) að áður verði tekið frá ákveðið hlutfall raforkuframleiðslu sem ekki lúti braski (með okurverðum í kjölfarið). Best væri þó að bakka út úr þessu feni sem sameiginlegur orkumarkaður Evrópu er [virkjast endanlega með sæstreng], ekki síst fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar, að þjóðin haldi óskertri eign sinni og stjórn á henni áfram.

            En fæstir íslenskir stjórnmálamenn skynja sinn vitjunartíma eða horfa lengra en eitt ár inn í framtíðina. Þess vegna er staðan eins og raun ber vitni í dag. Óheillaþróunin hófst vegna ákvarðana sem stjórnmálamenn tóku. Sá stjórnmálamaður sem lengst getur brosað í myndavélar er sagður „langvinsælastur“ af sumum fjölmiðlum og almannatenglum [sem hafa það hlutverk að búa til „veruleika“]. En jafnvel þótt eitthvað væri til í meintum „vinsældum“ [sem má stórefast um] þá hrökkva þær skammt þegar ákvarðanir sama fólks ganga gegn þjóðarhagsmunum. Eða hvort skyldi skipta þjóðina meira máli; „vinsældir“ stjórnmálamanna eða réttar ákvarðanir?

            Það er auðvitað ömurlegt að þurfa að ræða málin á þessum nótum, hafandi í huga þá staðreynd að þjóðin sjálf byggði upp allar stærstu virkjanir og fleira sem þeim tengist. Er þá aftur komið að eignaupptökunni, þar sem almenningur er rændur í nafni „samkeppni“.

Einkavæðing innviðanna

            Krafa ESB um uppboð virkjunarleyfa er í raun krafa um einkavæðingu. Beinn og óbeinn þrýstingur kemur þannig víða fram í gegnum lagakerfi Evrópusambandsins. Nægir að nefna samkeppnisreglur og reglur sem snerta frjálst flæði á vörum (free movement of goods). Þarna felst stórhætta í tilviki orkupakkanna sem mæla fyrir um uppskiptingu framleiðslu og dreifingar rafmagns og „samkeppni“ á raforkumarkaði. Samkeppnisreglurnar, og almennar reglur innri markaðarins, skapa ekki stórhættu, einar og sér, hvað snertir raforkuframleiðslu, jafnvel ekki þótt rafmagn sé skilgreint sem „vara“ [enda „varan“ þá í almannaeigu]. En þegar raforkan er sett í sérstakt regluverk (orkupakkana) til viðbótar áðurnefndum reglum, verður úr „baneitraður kokteill“ [fyrir neytendur, en að sama skapi sætur fyrir braskara]. Það er stór munur á því hvort stjórnvöld í ákveðnum ríkjum ákveða að „einkavæða“ [einkaránsvæða] ákveðna starfsemi eða hvort um það kemur „lína“ frá Evrópusambandinu.

            Eitt er að segja; ef starfsemi er einkavædd þá skulu samkeppnisreglur um einkaaðila á markaði gilda, annað að segja; viðkomandi starfsemi ber að koma á markað. Almenningur á Íslandi getur kosið innlenda stjórnmálamenn og ber þá pólitíska ábyrgð á valinu [með fyrirvara um óheilindi frambjóðenda og fleira] en almenningur hefur ekki kosið Ursulu von der Leyen eða neitt af því fólki sem stjórnar för innan ESB. Hér dugar heldur ekki „klisjan“ um að ef Ísland væri í ESB gæti fólk kosið. Evrópusambandið er einfaldlega ekki lýðræðislegt fyrirbæri sem slíkt. Að geta kosið til Evrópuþingsins breytir litlu sem engu um það. Mesta ákvarðanavaldið liggur annars staðar.

            En einkavæðingu innviðanna fylgja einnig aðrar hættur. Þar liggja tækifæri til peningaþvættis. Um það segir m.a. í bandarískri grein frá árinu 2001: „Peningaþvætti ógnar viðleitni margra ríkja til að koma á umbótum í hagkerfum sínum með einkavæðingu. Glæpasamtök hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að yfirbjóða lögmæta kaupendur að ríkisfyrirtækjum.[v] Ennfremur, á meðan einkavæðing er oft efnahagslega hagkvæm, getur hún einnig nýst sem verkfæri til að þvo fjármuni. Í fortíðinni hafa glæpamenn keypt smábátahafnir, ferðamannastaði, spilavíti og banka,[vi] til fela ólöglegan ávinning og efla glæpastarfsemi sína.“[vii]

            Næst þegar stuðningsmenn markaðsvæðingar raforkuframleiðslu mæla stefnunni bót ættu þeir líka að láta fylgja með greiningu á áhættu sem þarna er nefnd. Ef svo skelfilega færi að Landsvirkjun yrði bútuð í sundur, eftir línu frá ESB, hvaða glæpamenn væru þá líklegir kaupendur? Vill einhver setja fram tilgátu?

            Á heimasíðu Evrópuþingsins, er að finna skriflega fyrirspurn þingmanna, frá janúar 2021. Spurt var um einkavæðingu vatnsaflsvirkjana í Frakklandi, að kröfu ESB. En verkefnið nefnist Hercules. Um þetta segir: „Hercules verkefnið, sem franska ríkisstjórnin hyggst hrinda í framkvæmd undir þrýstingi frá framkvæmdastjórninni, mun leiða til þess að orkufyrirtækið EDF[viii] og allt sem eftir er af opinberri orkuþjónustu Frakklands verði leyst upp, einkum með því að stofna 100% einkarekið dótturfyrirtæki fyrir raforkuframleiðslu með vatnsafli.

            Öll gögn sýna hins vegar fáránleika slíkrar ákvörðunar. Í henni er engin vitglóra með tilliti til öryggis notenda og afhendingaröryggis,[ix] þar sem markmið einkaframtaksins er að hámarka framlegð sína, á kostnað meginsjónarmiða öryggis.

            Það er heldur engin vitglóra í ákvörðuninni hvað snertir stjórnun raforkunetsins,[x] þar sem vatnsaflshlutinn yrði þá algjörlega aðskilinn raforkuframleiðandi, bæði óháður og í samkeppni við EDF, sem mun valda mörgum vandamálum varðandi stöðugleika raforkunetsins.

            Að lokum er engin vitglóra í ákvörðuninni efnahagslega, þar sem opnun fyrir samkeppni myndi svipta franska ríkið stórum tekjustofni og leiða til hækkunar á raforkuverði til neytenda.[xi] Nánast allir kjörnir fulltrúar, lands og sveitarfélaga, eru andvígir því að sérleyfi vatnsafls verði opnuð fyrir samkeppni.“

            Í framhaldi af þessu er sett fram eftirfarandi spurning: Myndi framkvæmdastjórnin fallast á að virkjunarleyfi vatnsaflsvirkjana yrðu undanþegin samkeppnisáætlunum, samkvæmt Hercules-verkefninu, og að þau yrðu í staðinn sett undir hálfopinbera stjórn [quasi-state control]? En eins og kemur fram á sömu heimasíðu er Hercules-verkefnið beintengt við einkavæðingu sömu virkjana [Privatisation of hydroelectricity generation in France as a result of Project Hercules].

            Margrethe Vestager,[xii] varaforseti í framkvæmdastjórn ESB [Executive Vice-President (2019-2024)], svarar spurningunni og er svarið skráð þann 25. maí 2021. Það er eftirfarandi:

            „Framkvæmdastjórnin hefur stöðug samskipti við frönsk yfirvöld um fyrirhugaðar umbætur á stýringu aðgangs að kjarnorku og virkjunarleyfum fyrir vatnsorku. Útfærsla ráðstafana er undir frönskum yfirvöldum komin, að því tilskildu að þær séu í samræmi við Evrópurétt. Frá sjónarhóli Evrópuréttar, um opinber innkaup sérstaklega, er ákvörðunin um að stofna „innanhúss“ einingar („quasi-régie“) val innlendra yfirvalda.

            Hlutverk framkvæmdastjórnarinnar er að tryggja að farið sé að lögum sem samþykkt eru á vettvangi Evrópusambandsins. Þau fela í sér reglur um opinbera þjónustuskyldu, öflugar ráðstafanir til verndar neytendum, einkum þá sem búa við orkufátækt og þá sem eru í viðkvæmri stöðu, og kerfi og fjármögnunarleiðir til að virkja alla markaðsaðila, í sanngjörnum og réttlátum umskiptum sem ná fram loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins.“

            Eins og lesendur átta sig strax á er þetta heldur loðið svar. Það er ekki mjög bitastætt og í raun margt við það að athuga, s.s. um „neytendavernd“ og orkufátækt. „Neytendaverndarinnar“ er fyrst og fremst þörf þarna þegar búið er að sleppa markaðsöflunum lausum á neytendur. Þannig að það er ekki hvað síst framkvæmdastjórnin sjálf sem býr til vandamál sem síðan á að leysa með „neytendavernd“.

            Ekki mjög trúverðugur málflutningur. Sama gildir um stóran hluta þess fólks sem glímir við orkufátækt [fer með meira en 10% af launum sínum til að greiða orkureikninga]. Sýnt hefur verið fram á, m.a. í Bretlandi, að orkufátækt jókst einmitt vegna orkupakkanna. Það er skiljanlegt, sökum þess að þeir leiða til hærra orkuverðs, en ekki lægra eins og sumir virðast halda.

            Eftir stendur, af lestri svarsins, að Frakkland hefur ákveðið svigrúm við breytingarnar (einkavæðinguna) en verður þó að halda sig innan ramma Evrópuréttarins. Krafan stendur því í raun óhögguð, um að opna fyrir bröskurum aðgang að raforkuframleiðslunni. Látið er að því liggja að það sé mjög hagstætt fyrir neytendur, sem er að sjálfsögðu rangt. Hér er svo rétt að benda á hið augljósa, að Evrópudómstóllinn hefur síðasta orðið um túlkun Evrópuréttar og eftirfylgni aðildarríkja við hann. Þá lenda ríkin oft í afar þröngri stöðu.

            Það er veruleg hætta yfirvofandi að álíka kröfur komi fram gagnvart orkuframleiðslu [Landsvirkjun] á Íslandi, fyrr eða síðar. Blessuð börnin í Pírötum, Samfylkingu og Vg sérstaklega, „láta reka“ í málinu, botna hvorki upp né niður. Sumir píratar bentu jafnvel á að enn væru til opinber orkufyrirtæki í Evrópu sem aftur sýndi að orkupakkarnir leiddu ekki til einkavæðingar! Sama fólk virtist halda að umbreytingin yrði öll á einni nóttu.

Höfðu framsóknarmennirnir þá rétt fyrir sér?

            Árið 2014 kom út athyglisverð skýrsla á vegum ClientEarth í London. Hún nefnist „Community Power: Model legal frameworks for citizen-owned renewable energy“ og fjallar m.a. um eignarhald á raforkuframleiðslu. Í skýrslunni er hreyft við grundvallaratriðum og tengjast beint orkupökkum ESB. Mikilvæg spurning er þessi: hvaða fyrirkomulag tryggir sem best að arðurinn verði eftir í heimabyggð?

            Nú þegar Bretar eru óðum að endurheimta fullveldi sitt, eftir Brexit, er m.a. horft til aðferða til þess að draga úr orkufátækt. Þar er t.d. horft til sameignarforms [samvinnufélaga] og þess hvernig arður eigi þá að dreifast. Um þetta segir m.a. í skýrslunni: „Samvinnufélög verða æ algengari í Bretlandi sem góð leið til að stuðla að þörfum samfélagsins, svo sem til að takast á við orkufátækt, en fá hóflega ávöxtun. Þetta samvinnufyrirkomulag hefur verið notað í Lambeth-hverfinu í London, [Borough of Lambeth] sérstaklega til að stuðla að umhverfis- og orkuvitund, varðveislu og orkunýtingu fyrir íbúa samfélagsins og þá sem stunda viðskipti.“[xiii]

            Repowering London[xiv] nefnist sjálfseignarstofnun í London. Hún starfrækir þrjú sjálfstæð verkefni í Brixton-hverfinu og hefur þar sett upp sólarpanela[xv] [solar photovoltaic] á þök mismunandi húsnæðis [skóla og íbúðarhúsnæðis] í félagslegri eigu. Gerður var samningur um leigu á þökum húsanna til þessara nota. Hvert verkefni er stofnað sem sérstakt samvinnufélag þannig að meðlimir hvers verkefnis öðlist rétt til viðeigandi skattaívilnana.[xvi]

            Við þetta má bæta að samanlagt, afl sólarsella á Nordwood-skólanum var 83 kílóvött [þ.e. hámarksafl, kWp] árið 2019 og 62 kílóvött á Elmgreen-skólanum árið 2020.[xvii] Þar sem um jafnstraum [DC] er að ræða þarf að umbreyta rafmagni frá sólarsellum yfir á riðstraum [AC] með „inverter[xviii] til þess að geta tengt margskonar tæki, s.s. heimilistæki.

            Það skyldi þó aldrei vera að stefna framsóknarmanna fyrri tíma[xix] (alvöru framsóknarmanna) um samvinnu gangi í endurnýjun lífdaga? Samvinnuhugsjónin er merkileg og mætti halda meira á lofti. En á Íslandi tók mjög að halla á hugsjónina þegar græðgin tók öll völd og sú „hugmyndafræði“ varð ríkjandi að „markaðurinn“ skyldi ráða í einu og öllu. Þeirri þróun mætti gjarnan snúa við og hefja á ný til vegs og virðingar samvinnu og samkennd, í stað græðgi og síngirni.             Samvinna í þessum skilningi merkir þó alls ekki að ganga verði í Evrópusambandið, enda hálfgert öfugmæli að kenna sambandið við samvinnu. Þar gildir frekar aflsmunur og vægi efnahagslega öflugri ríkja, á kostnað hinna sem veikari eru. Málaferli framkvæmdastjórnarinnar á hendur einstökum aðildarríkjum eru til vitnis um það sem og dómar Evrópudómstólsins.

Lokaorð

            Orkumálin og fullveldið tengjast náið. Sumir telja eðlilegt að þjóð sem háði langa og harða baráttu fyrir fullveldi sínu afsali sér stórum hluta þess til Evrópusambandsins, enda sé það „gamaldags“ að vera fullvalda. Aðrir snúa út úr fullveldishugtakinu og segja það skiptanlegt, deilanlegt. Samt er ekkert t.a.m. í stjórnarskránni sem styður þá túlkun. Sama fólk virðist þó skilja fullveldi í þröngum skilningi, þ.e. þegar um einstaklinga er að ræða en ekki ríki. Þá er rætt um að „ráða eigin líkama“. En sé þeim einstaklingum öllum, sem „ráða eigin líkama“, raðað saman [„hliðtengdum“ eða „raðtengdum“] verður úr stærri eining, nefnilega þjóð. Sú sama þjóð hlýtur þá að sama skapi að kjósa fullveldi fram yfir afsal fullveldis? Eða gilda ekki álíka lögmál hvað þetta snertir um einstaklinga og þjóðir (ríki)? Ráði einstaklingur sér ekki sjálfur, eða ríki sér ekki sjálft, gefur auga leið að einhverjir aðrir ráða þá í staðinn. Kemur ekki viljinn á undan verkinu?

            Einstaklingur sem hefur verið sviptur sjálfræði [„fullveldi“] er á ábyrgð annara á meðan ástandið varir. Slíkt er alvörumál. Það er ekki minna alvörumál fyrir þjóð að afsala sér fullveldi, að stórum hluta, og fela stofnunum ríkjasambands vald yfir eigin málum. Það verður sýnilegra ef skoðaðir eru sérstaklega þeir málaflokkar þar sem Evrópusambandið hefur óskiptar valdheimildir (exclusive competence) en einnig þar sem um ræðir sameiginlegar valdheimildir (shared competence) enda færir sambandið sig sífellt lengra.

            Íslenskum stjórnmálamönnum á ekki að líðast að eyðileggja þann grunn sam lagður var með stofnun Landsvirkjunar og uppbyggingar á innlendum forsendum. Rafmagn streymdi fyrst um lagnir á Íslandi löngu áður en Evrópusambandið var stofnað, eða um og eftir aldamótin 1900. Oft er miðað við virkjun lækjarins í Hafnarfirði, árið 1904. Margir hafa átt leið um rafstöðina í Elliðaárdal og kynnt sér sögu hennar. Sú virkjun kom einnig til löngu fyrir stofnun Evrópusambandsins, eða árið 1921. Þannig má áfram telja. Hvaða álíta stuðningsmenn innri orkumarkaðar Evrópu að Íslendingar eigi að sækja þangað? Væri ekki rétt að fá skýr svör við því áður en lengra er haldið? Góðar stundir!

[i]      Sjá einnig: Mortera-Martinez, C. How to fight corruption and uphold the rule of law. Centre for European Reform. 27 April 2022. Available at: https://www.cer.eu/sites/default/files/pbrief_corruption_27.4.21.pdf. [Accessed 18 Jun. 2022].

[ii]    Sjá álitsgerð dómarans. https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5447.pdf

[iii]   Landsvirkjun við Búrfell. Tíminn, þriðjudagur 4. maí 1965. https://timarit.is/page/1284808?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/landsvirkjun%201965

[iv]    Sjá: Electricity price statistics. Data extracted in April 2022. Eurostat. https://ec.europa.eu/eurostat/statistics-explained/index.php?title=Electricity_price_statistics

[v]     Undirstrikun mín.

[vi]    Svartletrun mín.

[vii]  McDowell, J. and Novis, G. (2001). THE CONSEQUENCES OF MONEY LAUNDERING AND FINANCIAL CRIME. An Electronic Journal of the U.S. Department of State, [online] 6, pp. 6-8. Available at: https://www.hsdl.org/?view&did=3549. [Accessed 17 Jun. 2022].

[viii] Svartletrun mín.

[ix]    Svartletrun og undirstrikun mín.

[x]     Svartletrun og undirstrikun mín.

[xi]    Svartletrun og undirstrikun mín.

[xii]  Sjá heimasíðu: https://ec.europa.eu/commission/commissioners/2019-2024/vestager_en

[xiii] Roberts, J, Bodman, F and Rybski, R (2014). Community Power: Model Legal Frameworks for Citizen-owned Renewable Energy. (ClientEarth: London). Available at: https://www.rescoop.eu/uploads/rescoop/downloads/CommunityPower.pdf. [Accessed 19 Jun. 2022].

[xiv]  Sjá: https://www.repowering.org.uk/lambeth-community-solar/

[xv]   Sjá einnig: https://www.repowering.org.uk/wp-content/uploads/2019/09/LCS_Share-Offer-Document_19-09-2019_online.pdf

[xvi]  Roberts, J, op.cit.

[xvii] Roberts, J, op.cit.

[xviii]       Sjá t.d.: https://www.inverter.com/

[xix]  Sjá enn fremur: Páll H. Jónsson. Samvinnuhreyfing og stjórnmálaflokkar. Samvinnan, 12. tölub. 1. desember 1965. https://timarit.is/page/4291000?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/samvinnuhreyfingin%20Englandi