ORKUPAKKAR ESB OG MARKAÐSVÆÐING ORKUMÁLA Í FRAKKLANDI
- Samruni orkufyrirtækja -
Í nýlegum skrifum var rætt um áhrif markaðsvæðingar orkumálanna í Bretlandi. Í stuttu máli má segja að reynslan sé hreint ekki góð fyrir almenning þar í landi. Eins og fyrri daginn eru þessi mál lítið rædd í íslenska ríkisfjölmiðlinum sem sýnir fullkomna meðvirkni með valdinu og dregur taum þess í hvívetna. „Lagadeildardósentar“ og „steypuprófessorar“ fara með fleipur og gefa þau „álit“ sem stjórnvöld vilja sjá [auk þess að botna ekkert í samhengi hlutanna en það er ekki ný saga]. Íslenskir lögfræðingar sem hafa sett sig af alvöru inn í málin mega sæta því að álit þeirra séu rangtúlkuð og snúið út úr þeim. Það afhjúpaðist skýrlega í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú.
Í þessari grein verður rætt um markaðsvæðingu (og einkavæðingu) orkumálanna í Frakklandi. Frakkland var meðal stofnríkja Evrópusambandsins þann 1. janúar árið 1958. Upphafið má rekja til sáttmálans um Kola- og stálbandalagið frá árinu 1951 [The Treaty establishing the European Coal and Steel Community – ECSC] eða Parísarsáttmálans sem undirritaður var 18. apríl sama ár.
Staða orkumála í Frakklandi
Franska orkufyrirtækið Électricité de France (EDF[i]) er nú talsvert til umræðu í Frakklandi. Franska ríkisstjórnin og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa átt í viðræðum, í næstum tvö ár, um „endurskipulagningu“ EDF. Sem stendur á franska ríkið 84% hlut í EDF en fyrirtækinu var breytt í hlutafélag [Société anonyme, S.A.] árið 2004 og skráð á hlutabréfamarkað ári síðar [hefðbundin einkaránsaðferð].
Áform stjórnvalda, sem ganga undir nafninu „Hercules“, eru þau að skipta fyrirtækinu upp í þrjá hluta [Íslendingar verða að vera vel á verði þegar æfingarnar byrja með Landsvirkjun!!] og skrá einn þeirra á verðbréfamarkað. Þessar áætlanir gera ráð fyrir því að fyrsti hlutinn taki til kjarnorku og jarðhita[ii] (EDF bleu). Annar hluti taki til sérleyfa í vatnsafli (EDF Azur) og þriðji hlutinn (EDF vert) verði á sviði „grænna orkugjafa“ og sameini það sem eftir er, sérstaklega sólar- og vindorku ásamt stjórnun; innviði sem þarf til þess að koma orku til notenda.
Það er þriðji hlutinn [„græni hlutinn“] sem ætlunin er að skrá á verðbréfamarkað en halda hinum tveimur í opinberi eigu, að minnsta kosti til að byrja með [minnir mjög á íslensku glæpamennskuna].[iii] Kona að nafni Marie-Claire CAILLETAUD[iv], sem er yfirmaður hjá samtökum launþega, Confédération générale du travail (CGT), er gagnrýnin á þessi áform. Hún segir „Hercules“ tákna endalok EDF. Áform um einkavæðingu kjarnorkunnar eru svo stórt mál að ekki er víst að þau nái fram að ganga, vegna mikils kostnaðar.
Ætlunin er hins vegar að einkavæða allt annað, þar með talið sjálft dreifikerfið („netið“). Í huga verkfræðings er einkavæðing dreifikerfa virkilega snúið mál, segir Cailletaud. „Sem stendur njóta allir rafmagns, enginn greiðir eftir búsetu“. En þar kann að verða breyting á. Cailletaud bendir á svokölluð „hvít svæði“ í fjarskiptum í þessu tilliti en það merkir að vera „utan þjónustusvæðis“.[v] Það er alvarleg staða þegar um rafmagn er að ræða.
Við þetta má bæta að ýmsir hlutar á íslensku landsbyggðinni voru lengi vel „utan þjónustusvæðis“ í raforkumálum og fólk keyrði „diesel-rafstöðvar“ [t.d. frá Lister[vi]] í staðinn. Úr því var smám saman bætt. Ekki verður farið nánar út í þá sálma að sinni. Því verður þó ætíð að halda til haga að þegar opinber fyrirtæki eru einkaránsvædd eru eignir almennings í raun færðar bröskurum og fjárglæframönnum á silfurfati. Síðan er búið til orðskrúð í kringum það sem kallað er „einkavæðing“. Það er einn liðurinn í blekkingarstarfsemi stjórnvalda á hverjum tíma [með aðstoð „almannatengla“].
Cailletaud vísar einnig til reynslunnar í Bretlandi, eftir einkavæðingu raforkumálanna þar. Meira sé lagt upp úr gróða en viðhaldi kerfanna. Ávöxtunarkrafa einkaaðila sé mjög há, samanborið við hið opinbera sem aftur leiði til mun hærri kostnaðar við raforkuframleiðslu. Anne Debrégeas, verkfræðingur, segir ónógar fjárfestingar í raforkukerfum vera sérstaklega óskynsamlegar vilji menn auka hlut endurnýjanlegrar orku, enda sé sú raforkuframleiðsla ekki eins stöðug og krefjist því öflugra samtenginga.[vii]
Þetta brölt í Frakklandi stendur í beinu sambandi við orkupakka ESB og orkustefnu Evrópusambandsins. Það hefur einnig verið raunin t.d. á Ítalíu: „Ferli frjálsræðis, einkavæðingar og afnáms hafta á orkumörkuðum eru beinlínis afleiðingar ýmissa evrópskra tilskipana sem hafa átt sér stað í tímans rás.“[viii] Það er einmitt í þessu ljósi sem uppskipti opinberra orkufyrirtækja verða. Allt gengur út á markaðs- og einkavæðingu. „Frelsi“ þykir göfugt og jafnvel fallegt. En það skipir öllu máli að skilgreina þá um leið frelsi hverra og til hvers. Þarna er um ræða frelsi braskara og fjárglæframanna [og oft mikil skörun þar á milli] til þess að ræna almenning og til þess að okra á almenningi. Það er ekki frelsi almennings hvað þá „neytendavernd“ eins og sumir íslenskir stjórnmálamenn létu sér sæma að halda fram í umræðum um orkupakka þrjú.
Gera verður þá kröfu til „lagadeildardósenta“ og „steypuprófessora“ að hafa heildarsamhengi hlutanna á hreinu áður en fullyrt er að ekkert breytist með orkupökkum ESB.
Sömu kröfu verður að gera til margra íslenskra stjórnmálamanna, að ekki sé talað um ýmsa fjölmiðla! Breytingarnar eru þeim mun meiri og víðtækari eftir því sem pökkunum fjölgar. Þeir sem gleðjast mest eru braskararnir og fjárglæframennirnir enda breytingarnar [sbr. EDF[ix]] gerðar til þess að greiða götu þeirra. Almenningur situr eftir með sárt ennið, enda verið rændur og má sæta okri og margskonar rugli í kjölfarið.
Hver er árangurinn?
Hercules-verkefnið í Frakklandi er nýr áfangi í því að „losa um orkumarkaðinn“ en það ferli hófst upp úr síðustu aldamótum. Árangurinn af því er að stærstum hluta neikvæður. Í fyrsta lagi, þvert á spár þeirra sem boða frjálsræði, hefur aukin samkeppni ekki skilað sér í lægra raforkuverði. Öðru nær! Verðið hefur hækkað um 37% á tíu árum, eða fjórfalt umfram verðbólgu. Aðeins hluti þeirrar hækkunar verður rakinn til kostnaðar við fjárfestingar í framleiðslu og dreifingu.
Í öðru lagi munu breytingar á EDF leiða til þess að regluleg og stöðug verð hverfa [miklar verðsveiflur]. Félagsleg markmið verða aukaatriði. Viðskiptavinir verða neyddir inn í frumskóg rafveitna með ógagnsæ verð.
Bent er á tvær aðrar stórar ógnir sem fylgja Hercules-verkefninu. Í fyrsta lagi ógnun við franskt fullveldi í orkumálum. Með einkavæðingu „græna hlutans“ (EDF vert) verður stjórnun dreifikerfa raforku falin einkaaðilum, frönskum jafnt sem erlendum aðilum. Kína hefur t.a.m. þegar lýst yfir áhuga sínum á kaupum á evrópskum dreifikerfum.
Sveitarfélög sem standa frammi fyrir þessari hættu, að missa stjórn á dreifikerfum, hafa lýst sig andvíg einkavæðingu þeirra. Önnur ógn snertir getu í Frakklandi til þess að ljúka orkuskiptum með góðum árangri. Einkavæðing endurnýjanlegrar orku jafngildir í raun því að gefa eftir fyrirbyggjandi opinbera stefnu í orkumálum þar sem Frakkland hefur verið eftirbátur annara ríkja.
Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í vergri endanlegri orkunotkun var 16,6% árið 2018 en meðaltalið 18,9% innan Evrópusambandsins. Hlutfallið var 54,6% í Svíþjóð og 33,4% í Austurríki. Að fela einkaaðilum stjórn á vatnsafli mun verða „banvænt högg“ á samhæfingu sem nauðsynleg er vegna hlés í framleiðslu með sól- og vindorku [framleiðslan er í eðli sínu óstöðug]. Hercules-verkefnið byggir á efnahagslegri og pólitískri hugmyndafræði sem er ósamrímanleg við félagsleg, vistfræðileg og lýðræðisleg markmið umbreytinganna.[x] Þarna er í raun verið að lýsa áhrifum orkupakka ESB en innri orkumarkaður Evrópusambandsins er það sem málið snýst um og hvernig áhrif hans birtast í ýmsum ríkjum.
Á heimasíðu Evrópusamtaka stéttarfélaga opinberra starfsmanna (EPSU[xi]) er m.a. að finna afar áhugaverða skýrslu frá 2019 um orkumálin. Skýrslan nefnist á ensku: „Going Public: A decarbonized, Affordable and Democratic Energy System for Europe. The Failure of energy liberalization.“ Í skýrslunni er fjallað um helstu þætti orkumálanna, s.s. „opnun orkumarkaða“ innan ESB, heildsölumarkaði, smásölu, dreifikerfi, eignarhald og verð.
Bent er á ólíkt eðli rafmagns og gass, miðað við verslunarvörur almennt: „Rafmagn er mjög frábrugðið öðrum verslunarvörum þar sem ekki er hægt að geyma það auðveldlega og því verður að framleiða það eftir þörfum. Þetta merkir að framboð raforku verður að vera í nákvæmu jafnvægi [sbr. undersupply vs. oversupply] við eftirspurn eftir rafmagni hverju sinni, annars hrynur raforkukerfið með alvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum. Þetta gerir rafmagn erfiðara í viðskiptum en olíu, kol og í minna mæli gas.“[xii]
Vísað er til rannsókna sem gerðar hafa verið á uppskiptingu (unbundling) dreifikerfa raforku og áhrifum hennar. Þar kemur m.a. fram að uppskipting leiðir til verðhækkunar þegar til lengri tíma er litið. [Rannsóknir Bolle og Breitmoser 2006]. Þetta er mikilvægt að hafa í huga t.d. þegar rætt er um „breytt eignarhald“ á Landsneti.
Um eignarhaldið segir m.a. í skýrslunni að þótt frelsi í orkumálum hafi átt að auka samkeppni og leiða til þess að fyrirtæki misstu stöðu sína sem markaðsráðandi vegna nýrra fyrirtækja, hafi það haft þveröfug áhrif. Það auðveldaði bylgju sameiningar raforku- og gasfyrirtækja víðsvegar í Evrópusambandinu og stofnun fjölþjóðlegra fyrirtækja.
Upp úr síðustu aldamótum voru margir smærri raforkuframleiðendur (og rafveitur) teknir yfir af stórum samevrópskum fyrirtækjum.[xiii] Árið 2003 voru sjö stór fyrirtæki þátttakendur í alþjóðlegri starfsemi. Þau höfðu sívaxandi markaðshlutdeild; þrjú stór fyrirtæki, EDF, E.ON og RWE auk fjögurra minni fyrirtækja, ENEL, Suez, Endesa og Vattenfall.
Árið 2009 voru einungis fimm stór orkufyrirtæki, af sambærilegri stærð, ráðandi á markaðnum: EDF, RWE og E.ON en ENEL hafði þá yfirtekið Endesa og Suez sameinast Gaz de France sem úr varð GDF-Suez og síðar ENGIE. Vattenfall er mun minna en hin þessara fimm fyrirtækja og virðist einbeita sér í auknum mæli eingöngu að samþættum norrænum markaði.[xiv]
Tafla 1
Taflan sýnir 5 stærstu fjölþjóða orkufyrirtækin í Evrópu. Tölur frá 2018. Velta í milljörðum dollara.
Fyrirtæki |
Velta ($) |
Hreinar tekjur |
Fjöldi starfsmanna |
EDF |
87 |
1.35 |
162.208 |
RWE |
56.4 |
384* |
58.441 |
E.ON |
35.5 |
3.69 |
43.302 |
ENGIE |
75.1 |
1.18 |
160.301 |
ENEL |
86.2 |
5.48 |
69.900 |
* Milljónir dollara.
Að lokum
Það er athyglisvert að á heimasíðu stjórnarráðsins er fréttatilkynning um skipan nýs „orkumálastjóra“.[xv] Þetta orðalag er enn ein blekkingin. Fyrir tíma þriðja orkupakkans hefði hins vegar ekkert verið athugavert við þessa framsetningu. En eftir innleiðinguna varð grundvallarbreyting á embættinu.
Eftir orkupakka þrjú er þetta núna embætti LANDSREGLARA ESB! „Íslenski“ Landsreglarinn er landstjóri ESB í orkumálum og á sem slíkur aðild að evrópskum samtökum þar að lútandi [ACER[xvi] og CEER[xvii]]. Það er mikilvægt að kalla hlutina réttum nöfnum og láta ekki eins og ekkert hafi breyst. Gagnrýnislausir fjölmiðlar[xviii] apa síðan beint eftir þetta orðalag og kalla „orkumálastjóra“. Svona væri fyrirsögnin rétt: Halla Hrund nýr Landsreglari ESB á Íslandi.
Þessi sami Landsreglari starfar í umboði ESB og tekur ekki við neinum fyrirmælum frá íslenskum stjórnvöldum, eins og skýrt kemur fram í tilskipunum orkupakka þrjú og fjögur. Á því fyrirkomulagi öllu er mikill lýðræðishalli.
Samrunar/yfirtökur orkufyrirtækja í Evrópu [og raunar víðar] ættu að valda mörgum áhyggjum hvað snertir íslensk orkufyrirtæki. Sama fólkið og sá ekkert athugavert við innleiðingu orkupakka þrjú mun einskis svífast við einkavæðingu og niðurrif Landsvirkjunar og Landsnets. Þar bíða ýmsir úlfar í sauðagæru, að ekki sé talað um „hýenur“.
Vonandi verða dómsmál í Noregi til þess að „skera íslenska þjóð úr snörunni“ sem stjórnvöld hafa komið henni í. Það væri óskandi. Nauðsynlegt er segja skilið við evrópska orkusamstarfið, þannig að ekki sé hægt að skáka í því skjólinu þegar atlaga íslenskra stjórnmálamanna hefst fyrir alvöru gegn Landsvirkun og Landsneti. Hættan væri þó ekki þar með úr sögunni en framhaldið hins vegar frekar á valdi íslenskra kjósenda (sem það er ekki undir evrópskum reglugerðum og tilskipunum). Þar er stór munur á. Þessi mál á að muna vel fyrir næstu kosningar og gleyma engu! Góðar stundir.
[i] EDF. https://www.edf.fr/en/the-edf-group
[ii] Sjá einnig: Richter, A. (8 Dec 2020). Geothermal energy in France – what is needed for tapping its potential? ThinkGeoEnergy. https://www.thinkgeoenergy.com/geothermal-energy-in-france-what-is-needed-for-tapping-its-potential/
[iii] Weiler, N. (25 février 2021). En démantelant EDF, le gouvernement abandonne toute idée de stratégie industrielle en matière d’énergie renouvelable. Basta! https://www.bastamag.net/EDF-demantelement-projet-Hercule-privatisation-desindustrialisation-energies-renouvelables
[iv] Sjá: Conseil Économique Social et Environnemental. https://www.lecese.fr/membre/marie-claire-cailletaud
[v] Weiler, op. cit.
[vi] https://www.listerpetter.com/
[vii] Weiler, op. cit.
[viii] Lovino, F. and Tsitsianis, N. (2020). Changes in European Energy Markets: What the Evidence Tells Us. Emerald Publishing Limited, p. 111.
[ix] Sjá enn fremur: Bessot, N., van Haasteren, A., & Ciszewski, M. (2010). Competition Policy Newsletter. https://ec.europa.eu/competition/publications/cpn/2010_2_3.pdf
[x] Plihon, D. Le projet Hercule : une privatisation d’EDF - Un projet incompatible avec les objectifs sociaux et écologiques de la transition. https://www.politis.fr/articles/2021/01/le-projet-hercule-une-privatisation-dedf-42762/
[xi] EPSU. https://www.epsu.org/
[xii] Weghmann, V. (2019). (rep.). Going Public: A decarbonized, Affordable and Democratic Energy System for Europe. The Failure of energy liberalization. PSIRU, University of Greenwich. Retrieved from https://www.epsu.org/sites/default/files/article/files/Going%20Public_EPSU-PSIRU%20Report%202019%20-%20EN.pdf
[xiii] Sjá einnig: SCHÜLKE, C. (2010). The EU’s Major Electricity and Gas Utilities since Market Liberalization. IFRI. https://inis.iaea.org/collection/NCLCollectionStore/_Public/42/052/42052642.pdf
[xiv] Weghmann, op. cit.
[xv] https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/04/19/Halla-Hrund-nyr-orkumalastjori/
[xvi] Ísland er ekki með atkvæðisrétt í ACER. Sjá: https://acer.europa.eu/en/The_agency/Organisation/Board_of_Regulators/Pages/BoR-Members.aspx
[xvii] Sjá: https://www.ceer.eu/eer_about/members
[xviii] Árnason, E. Þ. (2021, April 19). Halla Hrund skipuð orkumálastjóri til næstu fimm ára. Fréttablaðið. https://www.visir.is/g/20212099002d/halla-hrund-skipud-orku-mala-stjori-til-naestu-fimm-ara