Fara í efni

LISTIN AÐ KOMA EIGIN SKULDUM YFIR Á HERÐAR ANNARRA

Talsverð umfjöllun um einkahlutafélög hefur farið fram eftir að "íslenska efnahagsundrið" leið undir lok. Rannsóknarskýrsla Alþingis (RNA) hefur að geyma skýr dæmi um það hvernig "listin" að greiða ekki skuldir sínar hefur þróast á Íslandi. Eins og gefur að skilja hefur fólk náð mislangt í þessari "listsköpun". Mælikvarðinn á færni "listamannsins" liggur m.a. í fjölda einkahlutafélaga sem viðkomandi stendur á bakvið, lánsupphæðunum, tilfærslu skulda og afskriftum skulda. Þjóðþekktir framsóknarmenn hafa náð langt á þessri braut og nægir að nefna Finn Ingólfsson og lið honum tengt.

            Þriðja bindi RNA greinir frá því að Kristján Arason [sem þó hefur ekki verið kenndur við framsókn] hafi vorið 2008 [nánar tiltekið í febrúar sama ár] fært persónulegar skuldir sínar að upphæð 1.202 milljónir króna af eigin kennitölu og yfir á eignarhaldsfélag sitt 7hægri ehf. [RNA, 3. bindi, bls. 84]. Ekki verður annað séð en að þetta sé skólabókardæmi um sýndargernig. Dæmi um það þegar menn ákveða að taka ekki lengur ábyrgð á skuldum sínum heldur koma neikvæðum áhrifum af braski yfir á lögaðila sem í raun ber enga ábyrgð. Þegar hagnaður "myndast" eru sömu aðilar yfirleitt tilbúnir að taka hann út en skilja skuldir sínar eftir í eignalausum einkahlutafélögum.

            Fróðlegt væri að fá fram álit eiginkonu "listamannsins" á þessum gerningi hans, en hún situr sem kunnugt er á Alþingi og tekur þátt í málþófi skoðanabræðra sinna þar. Fjölmiðlar hafa almennt ekki staðið sig nægjanlega vel í því að fá fram álit tilfærslufólks og maka þess. Því leyfist að svara á þá leið að það tjái sig ekki um skuldamál sín eða maka sinna og annað álíka. Manneskja sem ekki er tilbúin til þess gera hreint fyrir sínum dyrum á að sjálfsögðu að sjá sóma sinn [ef eitthvað er eftir af honum] í því að hverfa af þingi, enda varða svona gerningar samfélagið allt, eru alls ekkert einkamál tilfærslufólks.

            Hversu margir hafa þetta í huga í næstu kosningum til Alþingis verður tíminn að leiða í ljós. Kjósendur bera ríka ábyrgð í þessum efnum. Hins vegar er þeim nokkur vorkunn ef svo fer að tilfærslufólk, og stuðningsmenn þess, verður áfram í framlínu stjórnmála. En hlutverk kjósenda er ekki hvað síst að halda slíku fólki utan við völd og áhrif í samfélaginu. Til þess að svo megi verða þurfa öflugir valkostir að vera til staðar. Lýðskrumarar eru oft lagnir að nýta sér grandvaraleysi almennings, nýta sér tómarúm, og snúa staðreyndum á haus. Eina svarið við því er hlutlaus upplýsing. Kjósendur ættu t.a.m. að lesa sem allra mest í nefndri Rannsóknarskýrslu Alþingis (helst alla). Forðast hins vegar pólitísk málgögn sérhagsmunaafla sem t.a.m. styðja siðlaust, ranglátt og glæpsamlegt kvótakerfi í sjávarútvegi og glórulausa einkavæðingu náttúruauðlinda [sbr. vatn og jarðhita], í hendur fjárglæframanna.

Lagaleg staða einkahlutafélaga

            Enda þótt ljóst megi vera að margs konar tilfærslur og sjónhverfingar í tengslum við einkahlutafélög séu oftast siðlaust athæfi þá jafngildir það ekki ævinlega ólögmætu athæfi. Þar koma og til sögunnar tvær andstæðar stefnur í réttarheimspeki: náttúruréttur og vildarhyggja. Náttúruréttur felur í sér að lög skulu endurspegla algildar reglur siðferðis, trúarbragða og réttlætis. Vildarhyggja (pósitífismi) gengur hins vegar út frá því að ekkert samband sé nauðsynlega á milli laga og siðferðis. Lög þurfa þannig ekki að endurspegla siðferðileg gildi. Þetta felur í sér að gerningur í anda vildarréttar getur í raun verið löglegur þótt hann sé siðlaus. Lög sumra ríkja um einkahlutafélög einkenna einmitt áherslur af þessu tagi.

            Að reka félag með "takmarkaðri ábyrgð" (Limited Liability Company - LLC) merkir oft að persónuleg ábyrgð stjórnenda er ekki einungis takmörkuð heldur engin. Því er stundum haldið fram að þetta sé alveg bráðnauðsynlegt fyrirkomulag svo stjórnendur geti tekið "áhættu í viðskiptum", lausir við þá áþján að þurfa að axla perónulega ábyrgð þegar illa gengur. Vert er að hafa í huga að félög með takmarkaðri ábyrgð (LLC) eru ekki gamalt rekstrarform. Wyoming varð árið 1977 fyrsta fylki Bandaríkjanna til þess að setja löggjöf um slíka starfsemi.

(http://legal-dictionary.thefreedictionary.com/Limited+liability+corporation).

            Í apríl 2011 kom út 12. útgáfa af kennslubók í fjárglæframennsku af þessu tagi en bókin nefnist "Legal Guide for Starting & Running a Small Business". Höfundurinn er lögmaður, Fred S. Steingold að nafni [http://www.lawannarbor.com/attorney-profiles/fred-steingold]. Í bókinni má finna samanburðartöflu yfir mismunandi rekstrarform fyrirtækja. Þar segir um meginkosti félaga með takmarkaðri ábyrgð. "Eigendur bera takmarkaða persónulega ábyrgð á skuldum fyrirtækis, jafnvel þótt þeir taki þátt í stjórnun. Hagnaði og tapi er hægt að ráðstafa öðruvísi en eignarhaldi." (Steingold bls. 5). Með öðrum orðum, skilið er á milli ábyrgðar á hagnaði og tapi annars vegar og ábyrgðar vegna eignarhalds hins vegar. Slíkt form býður augljóslega uppá ýmsar "skapandi leiðir" til þess að taka mikla áhættu en bera sjaldnast neina ábyrgð.

            Steingold segir einn meginkostinn við fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð felast í persónulegu ábyrgðarleysi þess sem skrifaður er fyrir rekstrinum. Dómar sem kunna að falla gegn fyriræki leiða þá í versta falli til þess að rekstraraðilinn tapar þeim fjármunum sem farið hafa í fjárfestingar. Almennt má segja að þetta feli í sér að svo lengi sem viðkomandi rekstraraðili starfar í umboði fyrirtækisins, sem starfsmaður, stjórnandi eða framkvæmdastjóri, og án sviksamlegs ásetnings gagnvart lánveitendum, þá geta lánveitendur (creditors) ekki krafist fjárnáms í heimilum, bankareikningum eða öðrum verðmætum eignum rekstraraðila enda þótt dómur hafi fallið gegn fyrirtækinu sjálfu. (Steingold bls. 13).

            Af þessu má ljóst vera að ekki er einvörðungu við einstaklinga með glæpahneigð að sakast, íslenska eða erlenda, heldur liggur rót vandans að talsverðu leyti í lögum sem gilda um félög með takmarkaðri ábyrgð. Fyrirbærið "löglegt ábyrgðarleysi" er þannig ekki einskorðað við Ísland heldur þekkist vel erlendis.

            Á Internetinu má líka finna síður þar sem "góð ráð" eru gefin til þeirra sem hyggja á frama í fjárglæframennsku með aðstoð einkahlutafélaga. Ein slík síða er "The LLC Expert" (http://thellcexpert.com/). Þar má sjá brennandi spurningu: "Get ég flutt núvernadi persónulegar skuldir yfir í félag mitt með takmarkaðri ábyrgð?" Svör eru misvísandi.

            Almennt er spurningin tvíþætt. Í fyrsta lagi hvernig tæki sem keypt hafa verið, eða skuldir sem stofnað hefur verið til, eru færð yfir í félög með takmarkaðri ábyrgð, þegar slík félög eru stofnuð eftirá. Í öðru lagi, hvort mögulegt er að komast hjá persónulegri ábyrgð á skuldum eftir að þær hafa verið fluttar yfir í félög með takmarkaðri ábyrgð [tilvik Kristjáns Arasonar].

  • 1) Já, hægt er að flytja hvaða eign eða skuld yfir í slíkt félag. Tilfærsla eigna fer fram með skjali sem nefnist "sölusamningur" (Bill of Sale) og tilfærsla skulda einnig með samningi. Félagið þarf að samþykkja að taka á sig skuldirnar [sem ætti að vera auðsótt mál þegar aðili semur við sjálfan sig]. Slíkt samþykki skal vera skriflegt.
  • 2) Nei, þegar viðkomandi hefur á annað borð samþykkt að taka á sig skyldu, þá er ekki hægt að losna undan þeirri persónulegu skyldu með því að flytja hana yfir í félag með takmarkaðri ábyrgð. Viðkomandi verður áfram ábyrgur. Eina leiðin til þess að breyta þessu er að fá samþykki gagnaðilans (lánveitanda eða seljanda) svo aflétta megi ábyrgð skuldarans. Í flestum tilvikum mun gagnaðilinn ekki samþykkja slíka ráðstöfun, enda ekkert vit í slíku út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.

(http://thellcexpert.com/llcanswers/can-i-transfer-an-existing-personal-debt-to-my-limited-liability-company/)

            Á Íslandi eru í gildi lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Lögin miða að samræmingu við evrópska efnahagssvæðið [EES-rétt]. Þar segir í 1. mgr. 1. gr. "Einkahlutafélag merkir félag samkvæmt lögum þessum þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins." Þetta ábyrgðarleysi hafa ýmsir nýtt sér ótæpilega á undanförnum árum og komist upp með furðulegustu gerninga í því sambandi og of langt mál væri að telja. Þá hafa fjölmiðlar undanfarin misseri greint frá aðilum sem greitt hafa sjálfum sér arð út úr félögum þótt hagnaður væri enginn. Slíkt kann oft að orka tvímælis í ljósi XII. kafla laganna. Í 74. gr. segir: "Einungis er heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefur verið frá tap sem ekki hefur verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skal lagt í varasjóð eða til annarra þarfa...."

Ályktunarorð

            Mál sem komið hafa upp á Íslandi í tengslum við einkahlutafélög styrkja þá skoðun að rekstrarformið, og lögin sem um það gilda, hvetji aðila, sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæði siðferðilega [skortir siðferðisþrek] til þess að feta sig út á glæpabrautina, stundum með löglegum aðferðum. Löglegt ábyrgðarleysi er augljóslega innbyggt í rekstrarformið sem slíkt, til þess gert að fjárglæframenn hafi sem frjálsastar hendur til þess að "gambla" með fé annara án ábyrgðar (auk þess að njóta skattalegs hagræðis). Þetta er mjög skýrt í íslensku lögunum "...þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins." Hljómar beinlínis eins og áskorun fyrir siðlausa og ábyrgðarlausa einstaklinga sem kunna þá "list" að koma eigin skuldum [og skuldbindingum] yfir á herðar annara.

Nokkrar slóðir fyrir áhugasama:

http://www.inc.com/encyclopedia/limited-liability-company.html

http://www.mydocsolutions.com/LLC.html

http://www.auditnet.org/fast2011.htm

http://www.fbi.gov/newhaven/press-releases/2012/westport-man-sentenced-to-30-months-in-federal-prison-for-bankruptcy-fraud

http://www.hg.org/article.asp?id=18285

http://www.companiesinc.com/llc/wisconsin.asp

http://apps.americanbar.org/buslaw/newsletter/0006/materials/llcllp.pdf