Fara í efni

Hvernig geta Íslendingar losnað úr klóm innri orkumarkaðar Evrópusambandsins? - Smásaga -

            Það ber nýrra við þegar Ríkisútvarpið lætur áhrif og afleiðingar orkupakka Evrópusambandsins til sín taka, á gagnrýninn hátt, í fréttaflutningi. Það gerðist þó í gær, þann 1. september. Þar flutti Gísli Kristjánsson, fréttaritari í Noregi, áhugaverðan pistil um ástand orkumálanna þar í landi og gríðarlegar hækkanir á rafmagni.[i] Gísli nefndi réttilega að áður hefðu menn „bara stungið í samband“ og ekki velt því sérstaklega fyrir sér. En nú væri verðið á sturtunni [70 krónur norskar] orðið eitthvað sem þarf virkilega að hafa í huga. Margir hafa ekki lengur efni á að fara í bað.

            En hvað breyttist? Það sem þarna ræður mestu er markaðsvæðing raforkunnar. Sumum er tamt að skýra þetta einvörðungu út frá lögmálum hagfræðinnar um framboð og eftirspurn. Málið er þó flóknara en svo. Það er hápólitísk spurning hvort þau lögmál skuli yfirleitt ráða verðlagningu á vöru og þjónustu og í hvaða tilvikum. Þá vaknar sú spurning hvernig skuli verðleggja vöru, hvað eigi að ráða verði hlutanna? Það er hægt að ákvarða verð út frá hagsmunum notenda – á grundvelli samfélagslegra sjónarmiða [stefna Landsvirkjunar 1965] eða jafnvel með tilskipunum að ofan.

            Hin megin aðferðin er sú að ákvarða verð á markaði, uppboðsmarkaði. Þegar mikil eftirspurn er eftir vöru verða áhrifin þau að skrúfa upp verðið. Að lögmál „frjálsra markaða“ eigi að ráða um verðlagningu á innviðaþjónustu eins og rafmagn er, á þeim forsendum að rafmagn er skilgreint sem „vara“ innan Evrópusambandsins, er brjáluð hugmynd. Rafmagn á ekki að verðleggja eins og um „lúxusvöru“ sé að ræða. Það er fráleitt.

            Það að markaðsvæða rafmagn [sem víða er skortur á] leiðir að sjálfsögðu til mikilla verðhækkana. Orkupakkar Evrópusambandsins [sérstaklega 3. og 4. pakkinn] ganga beinlínis út á markaðsvæðingu (og síðan einkaránsvæðingu). Það eru því sterkir „hvatar“ [svo notað sér það útþvælda hugtak „frjáls markaðar“] í orkupökkunum til verðhækkana.

            Til viðbótar þessu er margskonar annar kostnaður sem leiðir beint af ákvæðum orkupakkanna. Þar má nefna meiri og dýrari yfirbyggingu (t.d. vegna skiptingar framleiðslu og dreifingar), uppsetningu snjallmæla, fyrir milljarða, eftirlit og fleira. Þessum kostnaði öllum er síðan velt yfir á neytendur sem borga brúsann. Hver greiðir síðan að lokum fyrir lagningu sæstrengja annar en kaupandi rafmagnsins? Í þessu ljósi má segja að orkupakkar Evrópusambandsins hafi samfélagslega mjög skaðleg áhrif og auki á misskiptingu [orkufátækt]. Næst verður „hjólað“ í vatnið, kalda og heita vatnið og verð á því margfaldað. Með sama áframhaldi gæti kostað 1000 krónur að fá sér vatn í glas úr kalda krananum, enda nóg eftirspurn eftir vatni, um allan heim, ef menn kjósa að láta markaðslögmálin stýra verðinu. Eftirspurnin er auk þess mjög vaxandi.

            Víða má sjá „gamma“, íslenska og erlenda, hnita hringi yfir álitlegum stöðum fyrir vindrafstöðvar, vindorkuver. Allt passar það vel við orkupakkana. En hver er lausnin fyrir Íslendinga, til að forða því mikla tjóni sem er fyrirsjáanlegt fyrir almenning?

            Sjaldan er það svo að einhver ein lausn leysi allan vanda. En nærtæk leið nú um stundir væri sú að leita eftir samvinnu Norðmanna og jafnvel fleiri ríkja, t.d. á vegum Orkunnar okkar, safna undirskriftum, og færa ráðamönnum í Noregi og á Íslandi, gegn orkupakka þrjú og ekki síður orkupakka fjögur. Sem sagt kröfu um að losa almenning undan því mikla oki sem markaðsvæðingin leggur á fólk. Sam-norrænt samstarf sem þetta þarf að skila að minnsta kosti 200-400.000 undirskriftum. Ekki er eftir neinu að bíða. Þetta má setja í gang sem allra fyrst.

            Enda þótt sett væri upp Facebook-síða þarf helst að hanna sérstaka heimasíðu líka, þar sem fólk getur gert athugasemdir við færslur. Ástæða þess er einkum sú að miklir ritskoðunartilburðir eru áberandi hjá Facebook og fleiri veitum. Slíkt er með öllu óþolandi. Facebook á hvorki að stýra málfrelsi Íslendinga né annara. Góðar stundir!

[i]      RUV. Spegillinn. 1. september 2022. https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/25249/7gpd7d