Fara í efni

FIMMTI ORKUPAKKI ESB KOMINN Á FÆRIBANDIÐ

- EES-samningurinn er „opinn víxill“ -

            Íslendingar hafa nú fengið nasasjón af áhrifum innleiðingar á orkupakka þrjú. Áhrifin birtast m.a. í nýju embætti „landsreglara“ ESB á Íslandi sem Alþingi felldi inn í Orkustofnun, vafalaust í þeim tilgangi að blekkja og afvegaleiða almenning á Íslandi. „Orkustofnun“ er notuð sem „hlíf“ fyrir evrópska „landsreglarann“. En margt bendir þó til þess að íslenskur almenningur sjái í gegnum þennan vef og láti ekki blekkjast. Áhrifin af innleiðingunni birtast einnig í „snjallmælavæðingu“, sem stendur í beinum tengslum við orkupakka þrjú, sem og í auglýsingum orkufyrirtækja [gervisamkeppni] sem keppast við að bjóða „þjónustu“ sína.

            Um innihald orkupakka fjögur („vetrarpakkann“), og nú er í biðstöðu innan EFTA, hefur þegar verið fjallað talsvert á þessum vettvangi þótt vert væri að gera honum frekari skil. Með hverjum pakka herðist kverkatak ESB á einstökum aðildarríkjum á sviði orkumálanna. Kvaðirnar og skyldurnar verða sífellt meira íþyngjandi og oft í engu samræmi við tilefnið. Hvað Ísland snertir má spyrja: hvert er raunverulegt gildissvið EES-samningsins?

„Opnir víxlar“

            Þegar samningar eru gerðir (almennt talað) eru þar að jafnaði sérstök ákvæði um gildissvið, þ.e.a.s. um hvað samningurinn snýst og hversu langt hann nær. EES-samningurinn er stundum kallaður „lifandi samningur“ en í því felst að hann tekur breytingum, nýjar gerðir bætast við, kvaðir og skyldur breytast.

            Undir 24. gr. EES-samningsins er vísað til viðauka IV sem fjallar um orkumál. En hversu margir gerðu ráð fyrir því í upphafi, þegar samningurinn var lögtekinn á Íslandi, að orkumálin yrðu síðar hluti af honum, með jafn yfirgripsmiklum hætti og raunin er? Að þessu leyti líkist EES-samningurinn opnum víxli. Enginn veit hvað við hann kann að bætast síðar. Út frá „fyrirsjáanleika“ er þetta mjög bagalegt. Ef t.a.m. kæmi fram reglugerð sem hefði þau réttaráhrif að skerða stórlega vald Íslendinga yfir efnahagslögsögunni [sem reyndar gerist sjálfkrafa með inngöngu í ESB] hver yrðu þá líkleg viðbrögð Alþingis og stjórnvalda?

            Líklegt er að einhverjir alþingismenn myndu stynja því upp [og það réttilega] að um þetta hefði ekki verið samið upphaflega og þarna væri komið aftan að þjóðinni. Samfylking, Viðreisn, Píratar og að minnsta kosti hluti Vinstri-grænna [ESB flokkarnir] sæu vafalaust ekkert athugavert við þetta, enda hefði „hið heilaga Samband“ talað – myndu trúlega fagna þessu skrefi í átt að inngöngu í ESB. Á sama hátt er borðleggjandi að margir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn tækju slíkri reglugerð ekki þegjandi.

            Hvenær má svo búast við tilskipun um herskyldu í Evrópuhernum, þegar hann verður orðinn að veruleika, sem nær til EFTA-ríkjanna líka? Ísland myndi auðvitað ekki „skorast undan“ eða hvað? Fer ekki EES-samningurinn í uppnám ef Alþingi innleiðir ekki slíka tilskipun, athugasemdalaust? Íslenskir aðdáendur ESB munu segja að þetta sé nánast formsatriði enda hafi Íslendingar tekið þátt í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna og hlotið herþjálfun í Noregi. Herskyldan sé því einungis merki um „nánara samstarf“ í varnarmálum „vinaríkja“ á viðsjárverðum tímum.

            Hér er rétt að nefna að með Lissabon-sáttmálanum [TEU] kom inn ákvæði undir 7. mgr. 42. gr. Þar er kveðið á um það að verði ESB-ríki fyrir vopnaðri árás á sínu yfirráðasvæði ber hinum ESB-ríkjunum að koma til hjálpar, í samræmi við 51. gr. Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta ákvæði er samhljóða V. grein Norður-Atlantshafssáttmálans.[i]

            Þegar fréttamenn spyrja hvort ekki sé um grundvallarbreytingu að ræða á sviði varnarmála munu margir íslenskir þingmenn svara því til að svo sé ekki. Íslandi sé jú eitt af stofnríkjum NATO og herskyldan skipti engu máli, og breyti engu um stöðu Íslands, en endurspegli þá stefnu stjórnvalda að Íslendingar taki virkari þátt í hernaðarsamstarfi NATO. Gagnrýnir fréttamenn munu spyrja hvort hægt sé að bæta bókstaflega hverju sem er við EES-samninginn sem Alþingi verði þá að samþykkja.

            Aðrir munu spyrja hvort ekki þurfi að ræða þetta sérstaklega á Íslandi en ráðamenn þá svara því til að það sé algerlega óþarft enda sé búið að ræða málið innan ESB og engu við það að bæta. Svona fléttur eru mjög fyrirsjáanlegar og í anda íslenskra stjórnmála. Fólki er aldrei sagt satt en beitt langsóttum flækjum og fáránleika. Lygin er stofnanavædd og borin á borð eins og um sannleika væri að ræða. Embættismenn sem ljúga fá stöðuhækkun að launum.

            Þegar allt kemur til alls, er þetta spurning um fullveldi og fullveldisrétt; hvort þjóðríkið Ísland á að stýra sínum málum sjálft eða hvor einhverjir aðrir eiga að gera það. En eins og oft hefur komið fram áður er ekki hægt að framselja hluta fullveldis (lítinn eða stóran eftir atvikum) með innleiðingu gerða, en halda jafnframt óskertu valdi innanlands á sama sviði. Sönnunarbyrði þess að það sé hægt hvílir á þeim sem því halda fram. Ákvæði tilskipana og reglugerða (Evrópuréttar) standa ofar ákvæðum innlendra laga verði árekstur þar á milli [primacy of eu law].

Fimmti orkupakkinn

            Einhverjum kann að þykja nokkuð snemmt að ræða orkupakka fimm áður en Alþingi „kokgleypir“ orkupakka fjögur. En ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Fullveldi tapast ekki á einni nóttu. Það er sorfið smám saman þangað til ekkert er eftir af því. Innlendir stjórnmálamenn gefast upp í nafni „samstöðu“ og „alþjóðasamvinnu“ [nafngiftir skortir aldrei] og mylja undan þjóðinni rétt sem fenginn var með svita og tárum.

            Fjarlægð frá veruleikanum fylgir firring. Það er gerólíkt að hafa sjálfur staðið í sjálfstæðisbaráttu eða lesa einungis um hana í bókum. Margir atvinnustjórnmálamenn nútímans hafa engan skilning á sjálfstæðisbaráttu eða þýðingu sjálfstæðis yfirleitt [tala þó sumir um mikilvægi þess að „ráða eigin líkama“!]

[Fimmti orkupakkinn]

Þarna braskið þjóðin sér,

þjófar ólmast hraðir.

Fimmti pakkinn færir þér,

feiknamiklar kvaðir.

            Þann 14. júlí 2021 var fimmta orkupakka ESB „hleypt af stokkunum“. Yfirlýst markmið pakkans er græn orka fyrir Evrópu (Delivering the European Green Deal) þannig að samrímist loftslagsmarkmiðum næstu áratuga. Þar skuldbinda öll 27 aðildarríki ESB sig til þess að ná „kolefnishlutleysi“ fyrir árið 2050. Stefnt skal að 55% minnkun kolefnis fyrir árið 2030, samanborið við 1990.[ii]

            Regluverk fimmta orkupakkans tekur til fjöldamargra atriða á sviði: landnotkunar, orkunýtingar, losunarheimilda í flugi, „sjálfbærs“ eldsneytis í flugi, eldsneytis til siglinga, skattamála og viðskiptakerfis vegna gróðurhúsalofttegunda, svo fátt eitt sé nefnt.[iii] Braskararnir geta brosað enda markaðsvæðingin allsráðandi s.s. í viðskiptakerfi með gróðurhúsalofttegundir. Íslenskir þingmenn geta byrjað að kynna sér lesefni pakkans sem útheimtir bæði yfirlegu og skilning.

            Í bálki XX, gr. 191 til 193 í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins [Lissabon-sáttmálinn - TFEU] eru skilgreindar valdheimildir ESB á sviði loftslagsmála.[iv] Þennan lagagrundvöll þarf ætíð að skoða í samhengi við innihald fimmta orkupakkans og loftslagsmálin.[v] Umhverfismál falla undir sameiginlegar valdheimildir skv. e-lið 2. mgr. 4. gr. Lissabon-sáttmálans [TFEU]. Málaflokkurinn er því bæði á forræði ESB og aðildarríkjanna.

Lokaorð

            Sumir stjórnmálamenn eru þrjóskir með afbrigðum og ófúsir að játa mistök. Það sýndi sig í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú. Greinarhöfund býður þó í grun að sumir hafi áttað sig síðar. Þeir virðast hafa trúað misvísandi og beinlínis röngum „álitum“ „lagadeildardósenta“, en ekki síður embættismanna, um að þarna væri engin hætta á ferðum.

            Auðvitað hefðu sömu stjórnmálamenn átt að rannsaka málið sjálfir, með aðstoð fagfólks eftir þörfum, en tíminn í þinginu er takmarkaður, eins og annars staðar. Þá er sú hætta fyrir hendi að menn freistist til þess að „stytta sér leið“ og stóli einvörðungu á „eigin sérfræðinga“. Þeir eru ekki alltaf góðir leiðarvísar þegar miklir fjárhagslegir hagsmunir liggja undir.

            Hinu skal þó vel til haga haldið að viðvaranir til stjórnmálamanna komu úr ýmsum áttum þegar orkupakki þrjú var til umræðu. Þar höfðu uppi varnaðarorð m.a. prýðilega færir verkfræðingar, s.s. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur, sem og lögmenn sem létu sig málið varða. Það er því ljóst að upplýsingar skorti ekki. Flest bendir til þess að þingmenn sem studdu innleiðinguna hafi einfaldlega ekki hlustað. Það er líkleg skýring, þegar allt kemur til alls.

            Afleiðingin er sú að þjóðin er bundin á klafa evrópsks regluverks, í fullkominni andstöðu við íslenska hagsmuni (þ.e. almannahagsmuni og hagsmuni íslenskra fyrirtækja) þar sem bröskurum er gefinn laus taumurinn. Ef hægt er að klína „grænni slikju“ á málaflokka helgast meðalið. Þá virðist margt leyfilegt sem annars kæmi aldrei til greina.

            Í Morgunblaðinu þann 1. júní er fyrirsögn: „EFTA ógildir ákvörðun ESA í máli Sýnar“.[vi] Málið snýst um ógildingu EFTA-dómstólsins á ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og sæstreng (gagnastreng) Farice ehf.[vii] og lögmæti ríkisaðstoðar samkvæmt EES-samningnum (Evrópurétti). Málið er illur fyrirboði um það sem koma skal og snertir raforkukerfið. Þarna sjá menn svart á hvítu hvernig Evrópurétturinn virkar gagnvart innlendum rétti og innlendum ákvörðunum.

            Það er ekki vel séð í Evrópurétti að opinber fyrirtæki/almannafyrirtæki séu „að þvælast fyrir“ einkaframtakinu. En um ríkisaðstoð (State Aid) er fjallað í EES-samningnum, kafla 2, gr. 61-64, og í 107. gr. Lissabon-sáttmálans [TFEU]. Þetta ættu menn að skoða rækilega í tengslum við Landsvirkjun og mögulega lagningu sæstrengs (aflstrengs) frá Íslandi. Hver halda menn að réttarstaða íslenska ríkisins (almennings) verði þá, þegar fram koma einkaaðilar sem vilja leggja sæstreng? Sumir telja að dregið hafi úr líkum á því. En þá er vert að minna á Evrópu-Asíu strenginn,[viii] þar sem mjög reynir á færni til að leysa verkfræðileg vandamál. Góðar stundir!

[i]      The North Atlantic Treaty. Washington D.C. - 4 April 1949. https://www.nato.int/cps/en/natolive/official_texts_17120.htm

[ii]    European Commission. Delivering the European Green Deal. https://ec.europa.eu/info/strategy/priorities-2019-2024/european-green-deal/delivering-european-green-deal_en

[iii]   Ibid.

[iv]    Sjá einnig: European Parliament. Environment policy: general principles and basic framework. https://www.europarl.europa.eu/factsheets/en/sheet/71/environment-policy-general-principles-and-basic-framework

[v]     Sjá einnig: European Committee of the Regions (CoR). Subsidiarity monitoring in the area of environment. https://portal.cor.europa.eu/subsidiarity/policyareas/Pages/Environment.aspx

[vi]    EFTA ógildir ákvörðun ESA í máli Sýnar. Morgunblaðið, 1. júní 2022. https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2022/06/01/efta_ogildir_akvordun_esa_i_mali_synar/

[vii]  Sjá heimasíðu Farice: https://farice.is/is/um-farice/saga-fyrirtaekisins/

[viii] Sjá: EuroAsia interconnector. https://euroasia-interconnector.com/