Fara í efni

UPPBYGGING VIÐ LAUGAVEG

Ýmsir hafa mjög býsnast yfir því verði sem greitt var fyrir húsin neðst á Laugavegi sunnanverðum, þ.e. nr. 2, 4 og 6 og fyrrverandi borgarstjóri reynt að nota það sér til framdráttar. Í sambandi við þennan kostnað, sem fyrrverandi borgarstjóri og sálufélagar hans hneykslast svo mjög yfir skal fyrst rifjað upp að þeir eru nú engir sérstakir sparnaðarpostular. Þeir hafa lagt til að kosta um 10 milljörðum til dýrari leiðar yfir Elliðaárvog, þ.e. Sundabraut, en Vegagerðin reiknar með, burtséð frá því hvort það muni vænlegri kostur umferðarlega séð en hin leiðin.
Þá hefur borgarstjórn samþykkt að veita um 10-15 milljörðum í tónlistar- og ráðstefnuhús við höfnina, framlag eða gjöf til húss sem verður í einkaeign, en annað eins framlag kemur úr ríkissjóði. Annars er mjög erfitt að fá uppgefnar tölur um þessar fjárveitingar á vef Reykjavíkurborgar. Til viðbótar þessum kostnaði þarf borgin að greiða marga milljarða fyrir bílageymslur og til gatnagerðar, hvort sem Mýrargata verður höfð á upphækkaðri skábraut framhjá húsinu eða sökkt í göng undir höfnina sem verður víst ennþá dýrara. Kostnaður við þessar gatnagerðarframkvæmdir er óljós, en eitt er öruggt, Reykvíkingar þurfa að greiða milljarð á milljarð ofan vegna þessa ævintýris. Miðað við aðeins þessi tvö tilteknu mál þá er kostnaður Reykjavíkurborgar við að stuðla að varðveislu merkra menningarminja í borginni smávægilegur.
Þá er mikilvægt að hafa í huga að það, sem borgin er í raun og veru að kaupa með húsunum við Laugaveg 2-6, er ekki húsin sjálf heldur fyrst og fremst byggingarrétturinn á því svæði. R-listinn sálugi samþykkti stóraukið byggingarmagn, sem svo er kallað, þar sem umrædd hús standa, og raunar upp með öllum Laugavegi. Ef ekki verður spyrnt við fótum mun Laugavegurinn á næstu örfáum árum breytast í andlausa eyðimörk. Á spottanum fyrir ofan Barónsstíg og upp að Hlemmi myndar hver steinkumbaldinn við hliðina á öðrum einkar óaðlaðandi skuggagjá og er ömurleikinn smám saman að breiðast niður alla götuna. Auðvitað stukku séðir fjárgróðamenn til og keyptu upp hús á uppsprengdu verði til að nýta þetta viðbótar byggingarmagn í hagnaðarskyni. Oft hafa þeir farið fram á enn aukið "byggingarmagn" sem yfirleitt fékkst með góðfúslegu samþykki borgaryfirvalda. Þessi eftirlátssemi borgarstjórnar átti stærstan þátt í að hækka verðið á húsunum við Laugaveg og stefnir jafnframt fjölbreyttri og líflegri götumyndinni í voða. Kostnaðurinn við umrædd húsakaup eru því í rauninni gjald fyrir skipulagsmistök R-listans.
Það er óútreiknanlegt hvað kostar að ryðja burt þeirri sögu Reykjavíkur sem felst í gömlu og friðuðu húsunum við Laugaveg. Þau birta í samhengi byggingarsögu bæjarins frá miðri 19. öld til dagsins í dag í öllum sínum fjölbreytileik. Það er búið að ganga svo hart að húsunum í Kvosinni undanfarna áratugi að þar er ekki lengur nein samfella, aðeins fáein merk hús á stangli, sem líklega fá náðarsamlegast að standa. Það má því segja að neðanverður Laugavegur, þ.e. neðan Barónsstígs, sé mikilvægasta samfellda svæðið sem Reykvíkingar eiga eftir í menningar- og byggingarsögulegu tilliti.
Á undanförnum árum hefur verið fylgt hugmyndafræði um svokallaða "uppbyggingu" í borginni, oft á kostnað þess að eyða menningarverðmætum og fækka grænum svæðum. Nú þegar afleiðingarnar eru að koma í ljós fara að renna tvær grímur á marga. Mistökin blasa við nær hvert sem litið er. Íbúar í Vesturbænum hafa kvartað yfir því að húsin á Slyppreitnum séu allt of há, turnarnir í Skuggahverfinu eru skelfilega ljótir og umhverfið allt ómanneskjulegt enda dæmigert einkabílahverfi. Upp með Sæbrautinni hafa verið byggðar stórar skrifstofuskemmur umkringdar bílastæðum og sama þróun er í neðanverðum Túnunum umhverfis Höfða. Nú er að verða búið að girða norðursíðu borgarinnar múr úr stórum steypukössum, svo útsýni yfir sundin og til Esjunnar er farið.
 Þetta eru aðeins fáein dæmi en af nógu er að taka. Æ fleirum er að verða ljóst að þessi niðurrifsstefna R-listans og Sjálfstæðisflokksins er úrelt og leiðir til ófarnaðar þegar til lengri tíma er litið. Það er fagnaðarefni að atburðir síðustu daga, hvaða skoðanir sem menn hafa á þeim að öðru leyti, gefa góðar vonir um að í borgarstjórn Reykjavíkur náist meirihluti fyrir því að hverfa frá niðurrifinu en farið verði að sinna betur um byggingarsögulegan menningararf landsmanna.