Fara í efni

SKIPULAGS-TILLÖGUR UM VATNSMÝRI

 Rétt fyrir helgina voru kynntar skipulagstillögur um byggð í Vatnsmýrinni. Það er svosem saklaust þótt stórfé sé eytt í svona skipulagsvinnu því alltaf koma fram einhverjar hugmyndir sem eru nýtilegar í öðru samhengi. Hins vegar eru ekki miklar líkur á að þetta skipulag komist nokkurn tíma til framkvæmda því ástæðulaust er að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Skal aðeins minnt á hve nauðsynlegur flugvöllurinn er fyrir tengingu höfuðborgarinnar við landsbyggðina því um 1200-1500 manns fara um völlinn á hverjum degi í innanlandaflugi, en þar að auki kemur margs konar millilandaflug. Að beina innanlandsflugi til Keflavíkur, sem er eini annar raunhæfi kosturinn, jafngildir því að leggja innanlandsflug að mestu niður. Sú hugmynd að leggja hraðlest frá Reykjavík til Keflavíkur er allrar athygli verð, því hún yrði væntanlega knúin rafmagni. Hins vegar yrði það afar dýr framkvæmd, nema látið væri nægja að leggja hana til Hafnarfjarðar - það yrði hvort sem er gert í fyrsta áfanga - og þarf að reikna þann kostnað inn í heildardæmið.

 Við snögga athugun á verðlaunatillögunni kemur í ljós að megin "byggingarmagnið" er á svæðinu frá Landspítalanum, á Valssvæðinu, upp í Öskjuhlíð og suður í Nauthólsvík, þ.e. að mestu leyti utan við núverandi flugvallarsvæði. Þarna virðist gert ráð fyrir 6-8 hæða blokkarbyggð - hæðin sést ekki vel á uppdrættinum - enda átti maður svo sem ekki von á öðru. Einnig er gert ráð fyrir að einkabíllinn sé í öndvegi, því þarna virðst ekki gert ráð fyrir hverfaverslunum heldur stórri verslunarmiðstöð sem torvelt verður að sækja gangandi.

Hins vegar kemur þægilega á óvart að gert er ráð fyrir að friðland fugla í Vatnsmýri haldi sér, en í rauninni er vel fyrir friðlandinu séð með núverandi skipulagi, þ.e. með því að hafa flugvöllinn. Má segja að þetta sé helsti hugmyndafræðilegi kostur umræddrar verðlaunatillögu, því í málflutningi lóðabraskaranna er jafnan reiknað með hámarksnýtingu en hvorki slíku friðlandi né opnum svæðum að neinu marki.

Það er svo sem endalaust hægt að teikna hverfi út og suður á flugvallarsvæðinu og reikna sér stjarnfræðilegan hagnað af lóðarsölu með því að gefa sér hinar og þessar forsendur. Það er bara svo lítið að marka slíka útreikninga og til frádráttar kemur tap landsbyggðarfólks af  því að hafa ekki flugvöllinn og tap Reykvíkinga af því að nýta ekki þá möguleika sem hann gefur til atvinnusköpunar.

Mestu vonbrigðin með verðlaunatillöguna, og raunar aðrar tillögur sem helst virtist vit í, er að umferðarmálin eru algerlega óleyst. Snorrabraut er framlengd út í Nauthólsvík, þar sem henni er beint út í sjó, en á þó væntanlega að fara inn í mitt íbúðahverfi á Kársnesi sem varla er raunhæfur möguleiki. Samkvæmt tillögunni virðist því helst gert ráð fyrir að öll umferðin inn á svæðið eigi að fara um Miklubrautina sem er nánast óhugsandi. Líklega verður þrautalendingin sú að taka aftur upp hugmyndina um Fossvogsbraut, þ.e. leggja veg úr Nauthólsvík neðan við kirkjugarðinn og svo upp Fossvog. Útivistarsvæðunum í Fossvogsdalnum yrði sum sé fórnað á altari einkabílismans og uppbyggingarinnar í Vatnsmýri.

 Ábyrgðarmenn þessarar samkeppni tala að vísu fjálglega um að efla almenningssamgöngur eins og það leysi allan vanda. En framkvæmdirnar undanfarið eru við núllið, eða jafnvel neðan við það. Þannig var leiðakerfið grisjað um nær 30% fyrir nokkrum árum og eitt af síðustu verkum R-listans sáluga var að hækka fargjöldin frá 15-20% og suma gjaldflokka jafnvel meira. Fljótlega eftir síðustu kosningar var ein strætisvagnsleið lögð niður, þ.e. leið 5 upp í Árbæ. Mörg nýju úthverfin eru þannig hönnuð að nánast er ómögulegt annað en að eiga bíl ef menn ætla að búa þar. Eina vonin í umferðarmálum er að fella niður öll fargjöld í strætisvögnum, fjölga akstursleiðum og ferðum, og finna síðan leiðir til að þrengja að einkabílnum. En meðan ekki hefur verið sýnt hvernig leysa á umferðarmál vegna hugsanlegrar "þéttingar" byggðar á flugvallarsvæðinu þá eru skipulagstillögurnar, hvað snotrar og áferðarfallegar sem þær virðast, einungis draumórar.