Fara í efni

MINNISMERKIÐ VIÐ HÖFNINA

Eftir hrunadans kapítalismans á Íslandi er spurning hvað á að gera við rústirnar hér á Reykjavíkursvæðinu þar sem snúningurinn um gullkálfinn var hvað hraðastur. Víða standa hálfbyggðar íbúðablokkir og smám saman hlýtur nú að takast að ljúka við þær. Líklega er verra með margs konar skrifstofuhallir, sem lítil verkefni verða fyrir í nánustu framtíð. Þeim ætti þó að vera hægt að breyta fyrir einhvers konar léttan iðnað eða jafnvel í íbúðir.

En eitt er það hús sem mjög er óljóst hvað hægt er að gera við, svokallað ráðstefnu- og tónlistarhús við Austurhöfnina. Til þess var stofnað af sjálfumgleði og ofmetnaði hins nýríka. Valinn var líklega aldýrasti grunnur sem hægt er að hugsa sér þar sem óravegur er niður á fast, einnig við vatnsvandamál að fást og staðarvalið einstaklega óhentugt varðandi aðkomu og umferð. Burtséð frá þessu er fróðlegt að skoða tölur um ætlaðan kostnað við bygginguna. Í fyrstu drögum var gert ráð fyrir að byggingin mundi kosta kringum sex milljarða króna. Ári síðar hækkaði upphæðin í átta milljarða. Ekki þótti það nóg því í næstu útfærslunni var talan komin upp í 12 milljarða enda hafði verið bætt ríflega í með flottræfilsháttinn. Þannig átti glerhjúpurinn, sem slá átti um húsið, að kosta eitthvað um 2 milljarða, nákvæmari tölur fengust ekki. Áætlanir í vor, áður en verðbólgan fór að skrúfast upp að marki, var upp á eitthvað 14-15 milljarða, sjálfsagt orðið eitthvað meira nú. Þetta var aðeins kostnaður við húsið sjálft sem átti að fjármagna í svokallaðri „einkaframkvæmd" í samvinnu Landsbankans og Nýsis.

Bílageymslurnar, sem borgin þarf að standa straum af að mestu leyti, kosta eitthvað 3-4 milljarða. Kostnaðurinn við að leggja Mýragötuna í stokk neðanjarðar hleypur á ævintýralegum upphæðum, 8-10 milljörðum. Lítið sem ekkert var sagt frá þessum kostnaði útsvarsgreiðenda í Reykjavík við undirbúning hússins. Hinn möguleikinn, að láta veginn liggja eins og hann gerir nú, kostar aðeins brot af þeirri tölu. En þá verður til breiðstræti sem aðgreinir húsbáknið frá miðbænum, og þýðir að það yrði í engum tengslum við mannlífið í Kvosinni.

Ekki er þó allt upp talið því gert er ráð fyrir að ríki og borg styðji reksturinn næstu 35 ár með fjárframlögum. Samningur þar um var undirritaður í mars árið 2006 og þá gert ráð fyrir 608 milljónum árlega, helmingur frá ríki og helmingur frá borginni. Þess utan átti Sinfóníuhljómsveitin að inna af hendi árlega 75 milljónir á ári í húsaleigu. Þessi upphæð er háð verðbótum og er núna komin í meira en einn milljarð króna. Það þýðir um 35-40 milljarða króna skatt á landsmenn fram yfir 2040, sem leggst með tvöföldum þunga á skattgreiðendur í Reykjavík.

Það var frá upphafi ljóst að halli yrði rekstri hússins, m.a. þess vegna kom til þessi opinberi styrkur, en það er sjálfgefið í því árferði sem nú er að ómögulegt verður að reka húsið, nema til komi enn meiri framlög skattgreiðenda. Hér er því við mikinn vanda að etja. Svo er komið að aðilarnir að Portus, sem á að eiga bygginguna, þ.e. Nýsir og Landsbankinn, eru komnir í þrot og hafa ekki burði af eigin rammleik til að ljúka verkinu. Vonandi er búið að greiða eitthvað af þeim kostnaði, sem fallið hefur á bygginguna hingað til, en erfitt er að fá upplýsingar um það. Í sumar töldu menn sig hálfnaða, þannig að til að ljúka við húsið þarf sjálfsagt ekki minna en 7-8 milljarða, miðað við verðlag í sumar. Þeir peningar verða hvergi teknir annars staðar en hjá skattgreiðendum sem koma þá til viðbótar áðurnefndum 35-40 milljarða framtíðarskatti, 4 milljörðum í bílageymslur og einhverri óljósri upphæði í gatnagerðarframkvæmdir. Ekki er það vænlegt að henda fjármunum þannig í súginn á sama tíma og sárvantar peninga til félagsmála og til að aðstoða fólk í þeim áföllum sem nú hafa dunið yfir.

Það er því hyggilegast að hætta framkvæmdum við húsið, þrífa til og moka ofan í stærstu gryfjurnar til að koma í veg fyrir slys og reyna síðan að semja um þær skuldir sem á húsinu hvíla. Sú lausn er að minnsta kosti 10 sinnum ódýrari en að halda áfram að moka peningum í þessa vonlausu framkvæmd. Planið við höfnina mun smám saman breytast í bílastæði sem er svo sem hvorki gott né vont, en þó ákveðin „lausn" á bílastæðavandanum. Svæðið verður hvort sem er til einskis gagns næstu áratugina.

Húsið verði hins vegar látið standa eins og það er nú og verður þannig til framtíðar risavaxið minnismerki um íslensku „útrásina," flottræfilshátt pilsfatakapítalistanna og skammsýni misviturra stjórnmálamanna.