Fara í efni

MINNIMÁTTAR-KENND OG HROKI Í SKIPULAGI REYKJAVÍKUR

Í „gamla bænum" hefur árum og áratugum saman verið sótt harkalega að gömlum húsum og byggðamynstri, einkum í Kvosinni og við Laugaveg. Ef hinar klunnalegu skrifstofuskemmur við Sætúnið og kringum Höfða eru slys þá er turnabyggðin í Skuggahverfi stórslys. Fyrirhuguð byggð á Slyppreitnum er alltof háreist eins og íbúar í Vesturbænum hafa þrásinnis bent á. Loks orkar byggingarmagnið á Austurbakkanum mjög tvímælis, svo ekki sé meira sagt, mun endanlega taka útsýnið til Esjunnar og út á sundin af íbúum Kvosarinnar. Sömuleiðis hefur mjög verið gengið á græn svæði eins og sífelld sókn í Laugardalinn er gott dæmi um. Jafn groddaleg „uppbygging" hefur hvergi viðgengist áður á Íslandi nema náttúrulega í Kópavogi.

Þessi misþyrming á gamla miðbænum er því sárgrætilegri að menn hafa sífellt betur verið að vakna til vitundar um gildi gamalla húsa, hlýlegs umhverfis og skipulags með mannlegar þarfir í huga en ekki einkabílsins og fjármagnsins. Ef maður tekur Grafarholtið sem dæmi þá virðist sem þar hafi tekist bærilega að tryggja flestum íbúum útsýni. Það sýnir að sú stefna að byggja háhýsi, sem skyggja á viðkvæma byggð að baki, er ekkert náttúrulögmál.

Þegar leita á skýringa á þeim hremmingum, sem borgarfulltrúar Reykjavíkur hafa látið yfir íbúana í gamla miðbænum ganga, þá er líklega of mikil einföldun að kenna um yfirgangi lóðareigenda, byggingarverktaka og banka, með dylgjum um fjárstuðning við tiltekna stjórnmálaflokka.

Hér kemur m.a. til vanmat á gildi menningararfsins, þeirra verðmæta sem felast í gömlum húsum og götumyndum þar sem beinlínis má þreifa á þróun bæjarins. Nær undantekningarlaust eru líka gömlu húsin hlýlegri ásýndar en flest það sem í staðinn hefur komið. Í húsverndarmálum er Stykkishólmur til algerrar fyrirmyndar en margt hefur verið vel gert á Seyðisfirði, Ísafirði, Sauðárkróki og víðar. Eyrarbakki hefur t.d. sloppið við flatnesku niðurrifs og uppbyggingar og bærinn fyrir innan ána á Blönduósi (á suðurbakka Blöndu) er forvitnilegur. Miklu víðar eru sveitarstjórnarmenn að vakna til vitundar um að sinna sínum gömlu menningarverðmætum meðan Reykvíkingar sitja eftir.

Metnaðarleysið er annar stór þáttur. Ekki eru mörg ár síðan menn stóðu í stympingum við R-listann til að koma í veg fyrir að sá merki samkomustaður Austurbæjarbíó yrði rifið. Hér komu einkaaðilar til skjalanna og björguðu húsinu frá niðurrifi. Annað dæmi er hótelið á „lóð Ingólfs" í Austurstræti þar sem eru minjar mjög nálægt þeim stað þar sem fyrsti landnámsmaðurinn settist að á Íslandi. Hér bauðst einstakt tækifæri til að reisa byggingu, sem væri algjörlega helguð landnáminu í Reykjavík, líklega eini staðurinn í allri Evrópu sem unnt er að helga fyrstu landnámsmönnunum. Þess í stað var byggt hótel á staðnum, af því lóðin var svo verðmæt, en raunar ágætri sýningu komið fyrir í kjallaranum. Á sömu hótelbyggingu má sjá endurgerða framhlið Fjalakattarins og er til áminningar um það að Reykvíkingar báru ekki gæfu til að varðveita Fjalaköttinn, fyrsta leikhúsið sem reist var í bænum, eitt af fyrstu bíóhúsum sem byggt var í Evrópu og var mjög merkilegt hús byggingartæknilega. En af því sjónarmið peningaaflanna réðu þá sitjum við uppi með gerviframhlið hér eins og svo víða.

Líklega vegur þó þyngst á metunum sú hugsun að stórt sé fallegt. Það er einmitt reginmisskilningur. Stórt getur verið mikilúðlegt, yfirgnæfandi o.s.frv. en fallegt og hlýlegt er það sjaldnast. Reynslan sýnir líka að stórt er ekki hagkvæmara en smátt. Stór hús eru dýr í rekstri, viðhald kostnaðarsamt og breytingar oft torveldar. Allt slíkt er einfaldara og auðveldara í minni húsum.

Flestir borgarfulltrúarnir hafa ferðast mikið erlendis á vegum borgarinnar en hafa líklega ekki farið á þá staði þar sem borin er virðing fyrir menningararfi og nýbyggingar eru hannaðar með tilliti til þess sem fyrir er. Það mætti halda að borgarfulltrúarnir hafi séð of mikið af stórum húsum, menn fá stundum í hnén þegar þeir líta mikilfengleika slíkra bygginga og fara þá kannski að skammast sín fyrir kofana heima. Nú, þegar þjóðin þykist vera rík, þá vilja menn byggja stórt, viðhorf sem sprettur upp af samblandi af minnimáttarkennd og hroka hins nýríka. Það t.d. að henda 30-40 milljörðum í eitt tónlistarhús á einum dýrasta grunni sem hægt er að finna í Reykjavík er vanmáttug tilraun til að sýna að það sé nú aldeilis völlur á mönnum.

Annað dæmi um þetta tillitsleysi er svokölluð verðlaunatillaga að Listaháskólanum. Fyrir utan það að húsið er í engu samræmi við þá götumynd, sem fyrir er, þá er byggingarmagnið kringum 30% meira en gert var ráð fyrir í að ætti að vera og flestir aðrir, sem þátt tóku í samkeppninni, virðast hafa tekið til. Svona lagað kallaðist í gamla daga yfirgengileg frekja en nú þykir nú á dögum verðlaunavert.

Samandregið munum því helstu ástæðurnar fyrir niðurrifsstefnunni, sem flestir borgarfulltrúar í Reykjavík hafa fylgt, vera algjört vanmat á hinum byggingarsögulega menningararfi, metnaðarleysi og sambland af minnimáttarkennd og  flottræfilshátts hins nýríka.