Fara í efni

ENDURBÆTUR Á LAUGAVEGI

Það hefur verið skemmtilegt að rölta efir neðanverðum Laugaveginum þetta sumar og niður á Lækjartorg. Endurbyggða húsið við Laugaveg 6 er risið, nýlega búið að laga húsið við Þingholtsstræti 2, á horninu við Laugaveg af miklum myndarskap, og framlengja í fornum stíl bakhúsið við Lækjarbrekku, sem liggur upp að Skólastræti. Loks hefur Lækjargata 2 tekið á sig nýja og þó gamla mynd, Yfirréttarhúsið gamla í Austurstræti hefur verið endurgert með sem næst upphaflegum hætti en Nýja bíó loks risið úr öskustónni að baki þess. Fleiri merki sjást um viðgerðir gamalla húsa í Þingholtunum og víðar í gamla bænum. Þessi árangur hefur náðst fyrir mikið starf Torfusamtakanna, annarra húsverndunarsamtaka og áhugamanna en þorri borgarfulltrúanna hefur smám saman komist á þá skoðun að með verndum gamalla húsa séu mikil menningarverðmæti varðveitt.
Marga mætti nefna en fremstur í flokki er þó Ólafur F. Magnússon, sem á skammvinnri borgarstjóratíð sinni lyfti grettistaki í húsvernd og þá var niðurrifsstefnu braskaranna í fyrsta sinn andæft af nokkrum krafti. Í hans tíð var einnig gert átak í þrifum í borginni og veggjakroti sagt stríð á hendur, náðist nokkur árangur með yfirmálun slíks krots þótt nú virðist raunar stefna í gamla farið. Lóðabraskarar og fámennur hópur byggingarverktaka sprengdi upp húsaverð í gamla miðbænum í von um skjótfenginn gróða. Þar með var verslunarmönnum og veitingamönnum gert þyngra undir fæti með hækkaðri leigu, því einhver varð að borga fyrir vitleysuna. Borgaryfirvöld dönsuðu með og heimiluðu stóraukið byggingarmagn á viðkvæmum svæðum í miðborginni.
Í hruninu biðu peningaöflin nokkurn hnekki en þau bíða færis og munu fljótlega ná vopnum sínum og þá hefst á nýjan leik þrýstingur á að rífa gömul hús í miðbænum en hrófla upp nýjum og stærri. Líklega á listaháskólinn t.d. ennþá kröfu á bæjaryfirvöld um að byggja stórhýsi við Laugaveg en þau áform væru ekkert minna en stórslys. Tryggja þarf skólanum lóð á öðrum hentugum stað, t.d. við Kirkjusand þar sem áður var athafnasvæði Strætó. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. En í raun þarf að fara markvisst yfir skipulag í gamla bænum með það fyrir augum að draga úr byggingarmagni á viðkvæmum reitum með svipuðum hætti og var gert við Laugaveg og niðri í kvosinni eins og rakið var hér í upphafi.
Í ljósi þessa þurfa húsverndarmenn í borgarstjórn að taka höndum saman um að breyta skipulagi í gamla bænum, einkum á Laugavegi og Hverfisgötu en einnig í Þingholtunum, til að tryggja og varðveita núverandi götumynd.