Fara í efni

EIGNIR ÞJÓÐARINNAR

Þjóðin hefur á nýjan leik eignast Landsbankann og Glitni. Það er víst hálfvegis búið að banna fólki að ásaka þá óráðsíumenn sem keyrðu bankann í þrot með vafasömum fjárfestingum og margs háttar einkasukki, svo ekki skal farið út í það að sinni. Eðlileg krafa er þó að sækja þau verðmæti sem hægt er að handfesta hér á landi og óráðsíumennirnir hafa hrifsað til sín af eignum bankans og ekki komið undan til útlanda.

Hins vegar er ástæða til að velta fyrir sér hvernig hægt er að nota „eignasafn" bankans þjóðinni til hagsbóta. Ekki seinna en á morgun á að taka málverkasafn Landsbankans, sem flaut með í sölunni í sínum tíma - gleymdist hreinlega - og afhenda það Listasafni Íslands. Þetta er hægt að gera strax á morgun og þarf ekki mikinn undirbúning, því væntanlega fylgir eitthvert húsnæði frá bankanum með afhendingunni.

Hitt sem er meira mál er hvernig nota má þær íbúðir, sem bankinn á eða á veð í. Nú er talið að á Reykjavíkursvæðinu séu um 2000 íbúðir nær fullbúnar sem ekki seljast vegna þess að þeim er haldið í svo háu verði. Raunvirði þessara íbúða, þ.e. byggingarkostnaður venjulegra íbúða, er í kringum 20 milljónir en þær eru boðnar á 40-45 milljónir á Reykjavíkursvæðinu. Ofan á byggingarkostnaðinn er því rækilega smurt af byggingarverktökum, fasteignasölum og bönkum. Þessir aðilar sjá sér hag í því að halda verðinu uppi, því gróðinn af hverri seldri íbúð er svo mikill. Þannig er ekki von til þess að verð þeirra verði lækkað nema með „handafli" eins og það var einu sinni orðað. Þ.e. það þarf að vinda niður af þenslunni með opinberum aðgerðum.

Allir þekkja líka okrið á leigumarkaðinum þar sem mánaðarleiga á sæmilegum íbúðum er oft nálægt mánaðarlaunum venjulegra launamanna. Það er hætta á að margir muni eiga erfitt með að halda íbúðum, sem þeir hafa fest fé í á uppsprengdu verði, á undanförnum þenslutímum, og þá þurfa að sækja á leigumarkaðinn.

Nú eiga Landsbankinn og Glitnir margar þessara óseldu íbúða, eða eiga stór veð í þeim. Þá kemur til álita að nýta þær, fyrst þær eru nú orðnar þjóðareign, til að auðvelda því fólki lífið sem á á hættu að lenda á götunni. Tvennt kemur til greina. Annars vegar að bjóða þessar íbúðir til sölu á „eðlilegu" verði, þ.e. um 20 milljónir. Þá mundu aðrar íbúðir á Reykjavíkursvæðinu vonandi einnig lækka í verði. Hinn möguleikinn er að bankarnir eigi þessar íbúðir áfram, en stofni sérstaka leigumiðlun, þar sem íbúðirnar yrðu boðnar á viðráðanlegum kjörum.

Jón Torfason