Fara í efni

VARÐANDI NEIKVÆÐA UMFJÖLLUN UM VANESSU BEELEY OG TIM ANDERSON

Eins og við mátti búast vakti fyrirlestur Vanessu Beeley ásamt útgáfu bókar Tim Andersons, Stríðið gegn Sýrlandi, sterk viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Einnig var viðbúið að viðbrögðin í neikvæðu áttina væru ekki efnisleg, heldur beint gegn persónum höfundar og þeirra sem buðu Vanessu til Íslands. Það er rétt að svara bæði þeirri gagnrýni sem komið hefur upp og einnig að lýsa stuttlega því sem kemur fram í bók Tims Andersons og einnig því sem ekki kemur fram þar, um tilgang útgáfunnar og þætti þýðenda í þessu öll saman.

Bók Tims Andersons er mjög ítarleg, hvað heimildavinnu varðar. Þeir sem vilja mynda afstöðu til bókarinnar ættu að lesa hana spjaldanna á milli með gagnrýnum huga og taka afstöðu til þeirra mála sem koma fram í henni. Reynist upplýsingarnar sem þar koma fram rangar er rétt að hafna þeim og gagnrýna höfundinn. Egill Helgason er meðal þeirra sem ákveða að fara allt öðruvísi að. Samkvæmt honum á að fordæma höfundinn og alla sem snerta þessa bók og koma í veg fyrir að upplýsingarnar sem hann er að reyna að koma á framfæri rati í augu nokkurra lesenda. Þetta er viðhorf áróðursmannsins, ritskoðarans. Hann reynir að grafa undan trúverðugleika hans og persónu með því að ýja að því að hann sé á mála Rússa eða sýrlenska einræðisherrans. Inntak bókarinnar á ekki að ræða.

Hvert er svo inntak bókarinnar? Þó að bókin sé ítarleg eru nokkur einföld meginþemu í henni. Eitt þeirra er að við Vesturlandabúar höfum verið að styðja kolranga aðila í Sýrlandi síðustu ár. Það þarf ekki að taka Tim trúanlegan til þess. Ein leið er einfaldlega sú að opna Wikipediasíðuna „List of armed groups in the Syrian Civil War". Þar er öllum stríðandi fylkingum raðað upp nokkuð snyrtilega. Þegar grannt er skoðað mun sá sem þessu nennir sjá að langstærstur hluti uppreisnarmanna eru meðlimir í hópum sem vilja algjörlega skelfilega hluti fyrir Sýrland. Stærstu hóparnir eru íslömsku bókstafstrúarhóparnir og Salafistarnir Syrian Liberation Front, ISIS, hóparnir sem áður kenndu sig við Al-Nusra o.fl. Nánast allir hóparnir hafa það að markmiði að koma á fót íslömsku ríki, hreinsa Sýrland af kristnum, Alawítum, Jesedíum og fleiri minnihlutahópum, koma á fót mjög ströngum siðgæðislögum (sem myndi líklega útrýma samkynhneigðum í landinu) og koma á fót enn strangara feðraveldi en ríkir í dag í Sýrlandi. Sigri þessir hópar verður ástandið í Sýrlandi svipað og það er nú í Líbíu, helvíti á jörðu undir stjórn ólíkra hópa öfgaíslamista.

Þessir hópar hafa verið staðnir að verki við ótrúlega og viðurstyggilega glæpi gegn mannkyninu. Þeir sem vilja geta fundið myndbönd sem hóparnir sjálfir hafa dreift þar sem fólk sem þeim mislíkar er pyntað grimmilega, hálshöggvið, geymt í búrum, myrt og kastað í fjöldagrafir eða skilið eftir á vergangi. Allar tölur benda til þess að langflestir hinna látnu í átökunum hafi látist af höndum sýrlenskra uppreisnarmanna. Ólíkt sýrlenskum stjórnvöldum hreykja þeir sér af þessum morðum. Lífið undir stjórn þessara hópa hefur verið óbærilegt. Það er því ekki að undra að það fyrsta sem gerist þegar þessir hópar hafa náð stjórn yfir einhverju landsvæði er að almenningur hefur flúið unnvörpum yfir á yfirráðasvæði sýrlensku ríkisstjórnarinnar. En þær fréttir komast sjaldnast á síður fréttamiðla okkar.

Undantekning á þessu eru hópar lýðræðissinnaðra Kúrda í norðurhluta Sýrlands, ekki síst þeir sem tengjast hinni svokölluðu Rojavabyltingu. Sá hópur á ekkert nema gott umtal skilið, en þeir standa nú í miklum átökum við frjálsa sýrlenska herinn svokallaða, Íslamska ríkið og Tyrkland, sem styður báða fyrrnefndu hópana. Átök hafa verið á milli YPG og annarra hópa sem þessu tengjast og sýrlenska herinn, en þau átök hafa ekki verið á sama skala og  átök YPG við frjálsa sýrlenska herinn, og útlit fyrir að sýrlenski herinn og vinstrisinnaðir kúrdískir hópar muni berjast hlið við hlið gegn frjálsa sýrlenska hernum og Tyrklandi ef samningar um það nást.

Annað meginþema í bók Tims er það hversu stórkostlega bjagaður fréttaflutningur frá þessum skelfilegu átökum hefur verið. Þetta má meðal annars rekja til þess hvaða heimildarmenn hefur helst verið leitað til varðandi upplýsingar um það sem fram fer á jörðu niðri. Þannig kom franska utanríkisráðuneytið á fót sérstöku fyrirbæri sem á ensku kallast Syrian Media Incubator (fjölmiðla útungunarstöðin). Sú stofnun, sem hefur höfuðstöðvar í Tyrklandi, sendir fé, myndavélar og aðstoðarfólk til hópa sýrlenskra uppreisnarmanna sem svo eiga að senda fréttir til baka, sem á endanum rata í fjölmiðla á Vesturlöndum. Þetta tryggir að einungis upplýsingar frá þeim sem styðja uppreisnarhópana komast á framfæri. Ekkert slíkt verkefni hefur verið sett upp til að koma röddum þeirra sem styðja ekki uppreisnarhópana á framfæri á Vesturlöndum. Aðrar helstu upplýsingaveitur eru hin svokallaða sýrlenska mannréttindavakt, eða Syrian Observatory for Human Rights. Þetta er í raun einn maður sem býr í Coventry á Englandi og fær fréttir frá uppreisnarmönnum í Sýrlandi. Þær fréttir eru líkar birtar nánast möglunarlaust í Vestrænum fjölmiðlum. Þetta er ekki hlutlægur fréttaflutningur. Heimildarmennirnir hafa hag að því að ýkja glæpi andstæðinga sinna, sýrlensku ríkisstjórnarinnar, og þegja um eigin glæpi.

Látið er eins og sýrlensku uppreisnarhóparnir séu hinir réttu og raunverulegu talsmenn sýrlensku þjóðarinnar. Þetta er alrangt. Þeir njóta ekki, og hafa aldrei notið neina hylli almennings. Talið er að heildarfjöldi uppreisnarmanna á Sýrlandi sé um 350 þúsund. Þeirra á meðal eru margir erlendir stríðsmenn, m.a. frá Líbíu, Evrópuríkjum, sérsveitarmenn frá Katar, Tyrklandi og Sádí Arabíu og víðar. Tvennar ríkisstjórnarkosningar hafa farið fram frá því að stríðsátök hófust árið 2011 auk fjölda kosninga til sveitarstjórnar. Fjöldi skoðanakannana hefur verið framkvæmdur, meðal annars á vegum Norður Atlantshafsbandalagins (NATO) og annarra utanaðkomandi aðila. Allar kosningar og allar skoðanakannanir hafa sýnt það sama. Stuðningur við þessar hersveitir er afar lítill í Sýrlandi. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur einungis aukist ár frá ári frá því að stríðsátök hófust. Einhver gæti hugsað sem svo að ástæðan fyrir þessu mikla fylgi sé sú að sýrlenska stjórnin sé að falsa tölur, eða að almenningur þori ekki annað en að hlýða stjórninni, enda sé hún svo gríðarlega grimm. Það þykir mér nokkuð ódýr redding á slíkum tölum. Ef Sýrlendingar hötuðu ríkisstjórn sína svo mjög gætu þeir hæglega farið á yfirráðasvæði uppreisnarmanna, en það hafa þeir ekki gert. Ég held ekki að sýrlenska þjóðin sé svo huglaus upp til hópa að hún þori ekki að svara skoðanakönnunum á heiðarlegan hátt.

Sú skýring sem ég hef persónulega á þessu mikla fylgi ríkisstjórnar Sýrlands er einmitt sú að stríð hefur ríkt svo lengi í landinu. Þetta tengist þriðja meginþema bókar Tims Anderssons; mýtunnni um upphaf stríðsins. Algengasti inngangur að umfjöllunargreinum um sýrlenska stríðið er sá að vorið 2011 hafi sprottið upp friðsamleg mótmæli í Sýrlandi þar sem ríkisstjórnin var krafin um að segja af sér. Sýrlenska stjórnin og her hennar hafi brugðist við með miklu ofbeldi og ráðist á mótmælendur með mikilli hörku. Smátt og smátt hafi mótmælendur tekið upp vopn og hafið vopnaða byltingu. Því miður hafi hópar íslamista náð fótfestu smátt og smátt, en þetta megi einnig setja á reikning sýrlensku alræðisstjórnarinnar.

Sú saga er beinlínis röng og móðgun við raunverulega borgaralega stjórnarandstöðu á Sýrlandi. Nákvæmari lýsing á upphafi stríðsins er þessi. Hópur táninga var handtekinn þann 6. mars 2011 fyrir veggjakrot í borginni Daraa, nærri Jórdönsku landamærunum. Þessi atburður hefur verið nefndur sem upphaf mótmælaöldunnar og yfirgengilegra viðbragða sýrlenskra stjórnvalda við þeim. Þetta er undarlegt því ekki nokkur skapaður hlutur gerðist í kjölfar þessara atburða. Níu dögum síðar voru hinsvegar haldin mótmæli í borgunum Al-Hasakah, Deir el-zour, Daraa, Hama og Damaskus undir forskriftinni "dagur reiðinnar", rétt eins og yfirskriftin hafði verið í Líbýu. Athugið að þetta voru ekki fjölmenn mótmæli. Í heildina tóku nokkur þúsund manns þátt í þeim. Yfirvöld brugðust vissulega harkalega við. Hundruð manna voru handtekin en engar heimildir eru fyrir því að nokkur hafi látist í mótmælunum. Nokkrum dögum seinna, 18. og 19. mars, varð áframhald á mótmælunum. Í þeim mótmælum beitti lögreglan táragasi og vatnsbyssum og í kjölfarið létust tveir mótmælendur. Daginn eftir réðst hópur vopnaðra mótmælenda á höfuðstöðvar ríkissjónvarsps Sýrlands og í skrifstofubyggingar stjórnvalda í Daraa og kveiktu í þeim. Þeir kröfðust þess að unglingarnir sem handteknir höfðu verið í byrjun mánaðarins yrðu látnir lausir. Stjórnvöld sendu fyrirskipun um að drengjunum yrði sleppt og lofaði um leið að koma til móts við kröfur um lýðræðisumbætur í landinu. Svar mótmælendanna var þá hins vegar að kveikja í höfuðstöðvum Baath flokksins, helsta stjórnarflokks Sýrlands. Ísraelska fréttastofan National News greindi frá því að sjö lögreglumenn og fjórir mótmælendur hefðu látist í þessum aðgerðum og í kjölfar þeirra.

Þann 22. mars krafðist Navi Pillay, yfirmaður mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að gerð yrði rannsókn á dauða 6 mótmælenda í Sýrlandi. Pillay minnstist engu orði á þá  lögreglumenn sem felldir voru af mótmælendum. Ennfremur kallaði Pillay hópinn "friðasama mótmælendur", en það er augljóslega rangt, enda voru þeir aðilar sem kveiktu í byggingunum og skutu lögreglumennina vopnaðir. Þessi óheiðarlega yfirlýsing Pillays átt sinn þátt í að skapa þá mynd sem Vesturlandabúar höfðu af ástandinu í Sýrlandi. Hægt var að endurvinna hina margendurteknu sögu um vonda einræðisherrann sem myrti sína eigin borgara og friðsömu mótmælendurna sem þurfti að vernda frá illþýðinu.

Hinir meintu "friðsömu mótmælendur" héldu áfram að vígbúast. Á sjónarsviðið spratt "Frjálsi sýrlenski herinn" með sex fyrrverandi hershöfðingja í sýrlenska hernum í fararbroddi.

Eftirlitsnefnd á vegum samtaka Arabaríkja (The Arab League) rannsakaði ástandið í Sýrlandi í desember 2011 og janúar 2012. Í skýrslu yfirmanns nefndarinnar kom ýmislegt fram sem gekk berhögg við þær frásagnir sem höfðu birst í fjölmiðlum um það sem á gekk í landinu. Nefndin greindi þannig frá því að vopnaðir hópar sem ekki hafði verið greint frá í fjölmiðlum og voru ekki á vegum Sýrlandsstjórnar frömdu fjölda ódæðisverka sem ollu miklu mannfalli og eyðileggingu á meðan nefndin var að störfum í landinu. Dæmi um slíkar árásir voru að farþegarútur með almennum borgurum voru sprengdar í loft upp, lestir sem fluttu díselolíu voru sprengdar, sendiferðabíll lögreglu sömuleiðis sem og brýr og olíuleiðslur.

Um leið kom í ljós að þegar nefndin ætlaði að skoða eftirstöðvar árása sem fjölmiðlar höfðu greint frá að höfðu verið framdar af Sýrlandsher var oft ekkert að sjá. Árásirnar höfðu aldrei átt sér stað. Í mörgum tilfellum þar sem árásir höfðu virkilega verið gerðar var augljóst að fréttir um skaða höfðu stórlega verið ýktar. Enn fremur sá eftirlitsnefndin töluvert af kröfugöngum, bæði með og á móti stjórninni, en aldrei greip stjórnin inn í þessi mótmæli ef undanskilið er þegar aðsúgur var gerður að sendinefndinni sjálfri. Stjórnarherinn hafði gert fjölda árása í landinu, en samkvæmt sendinefndinni var að minnsta kosti stór hluti þeirra svar við aðgerðum annarra vopnaðra hópa.

Stærstu stjórnarandstöðuflokkar Sýrlands, eins og borgaralegir hópar um allt land, tóku mjög fljótt afstöðu gegn hinum vopnuðu uppreisnarhópum (ef Múslimska bræðralagið er undanskilið). Hópar á borð við „samfylkingu fyrir breytingar og frelsi" berst þannig fyrir pólitískri breytingu frá grasrótinni og upp. Þetta eru mikilvægar breytingar og þörf er á þeim í Sýrlandi. Hópar eins og þessir taka ekki upp hátæknivopn frá Sádí Arabíu og Tyrklandi til að skjóta stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, heldur vilja ná fram pólitískum breytingum á friðsaman hátt. Þessir hópar fá ekki stuðning frá Vesturlöndum; vopnin, peningarnir og áróðursstuðningurinn fer til hópa Íslamista. Þetta er enn einn glæpur okkar gegn sýrlensku þjóðinni.

Enn einn glæpurinn gegn sýrlensku þjóðinni er svo mjög harkalegt viðskiptabann gegn sýrlenska ríkinu. Nánast ómögulegt er fyrir Sýrland í dag að stunda eðlileg viðskipti við umheiminn, selja vörur sínar og kaupa lífsnauðsynlegar vörur. Þetta tekur meðal annars til varnings sem nauðsynlegur er til að halda uppi góðu heilbrigðiskerfi. Þetta þýðir meðal annars að þeir almennu borgara sem verða fyrir árásum, t.d. sprengiflaugaárásum hryðjuverkahópa, geta ekki verið vissir um að fá viðunandi læknishjálp. Fólk deyr út af viðskiptabanninu gegn Sýrlandi. Á sama tíma dæla Vesturveldin og vinir þeirra í Mið-Austurlöndum peningum og vopnum til furðulegra hryðjuverkahópa. Hermenn frjálsa sýrlenska hersins svokallaða fá miklu betri laun en hermenn sýrlenska hersins auk þess sem þeir eru miklu betri vopnum búnir. Það er beinlínis fjárhagslega hagkvæmt að gerast liðhlaupi úr sýrlenska hernum og ganga til liðs við uppreisnarmenn. Þrátt fyrir þetta hefur sýrlenski herinn haldið velli. Það hlýtur að segja eitthvað um það hverjir njóta raunverulegs stuðnings almennings í þessu stríði.

Svo er spurningin, hvort með útgáfu þessarar bókar sé verið að dreifa áróðri Rússa og sýrlensku einræðisstjórnarinnar. Því skal svarað með tvennu. Tim Anderson tekur mjög skýra afstöðu. Sú afstaða segir höfundur að sé með sjálfsákvörðunarrétti sýrlensku þjóðarinnar og ríkisins. Hann kemur hreint fram hvað þetta varðar og tekur augljósa afstöðu með Sýrlandsstjórn, á þeim forsendum að þetta sé löglega kosin stjórn og sé lögmæt samkvæmt alþjóðalögum. Hann bendir enn fremur á það sé óheiðarlegt og illa gert að útmála 70 prósent þjóðarinnar, þá sem kjósa núverandi stjórnvöld, sem „Assad-liða" eins og þeir séu þar með á einhvern hátt réttdræpir. Þeir velji „rangt", segjum við hér. Þetta telur Tim Anderson vera til marks um vestræna yfirburðahyggju; við eigum einhvern veginn að hafa vit fyrir þeim og neyða þá til að velja „rétt". Afstaða Tims er sú að við eigum að hætta að vopna uppreisnarhópana og leyfa Sýrlendingum að ráða framtíð sinni sjálfir á friðsamlegan hátt. Bæði hinni sönnu stjórnarandstöðu og almenningi sem vill breytingar er enginn greiði gerður með því að halda uppi blóðugri borgarastyrjöld með því að dæla vopnum í hryðjuverkamenn.

Svo er það afstaða þýðenda. Hún er persónuleg. Við erum ellefu og hvert okkar hefur okkar eigin ástæðu til að líta svo á að almenningur og blaðamenn ættu að kynna sér vel bók Tims Andersons. Mín persónulega afstaða er þessi: Ég vil að almenningur komist í tæri við breiðari hóp upplýsinga um Sýrlandsstríðið en hann hefur getað síðustu sjö ár. Ég tel að fréttaflutningur hafi verið algjörlega einhliða. Upplýst ákvörðun um hvað sé rétt og hvað rangt byggir á því að hafa sem bestar og nákvæmastar upplýsingar um málefnið sem um ræðir og ef í ljós kemur að einhverjar þeirra eru gallaðar eða rangar ber að hafna þeim. Það er einmitt það sem gerir bók sem þessa svo mikilvæga. Hún sýnir fram á að margar þeirra frásagna sem við höfum hingað til haft til hliðsjónar við að mynda okkur skoðun á hinum skelfilegu átökum sem ríkt hafa í Sýrlandi eru einmitt villandi, gallaðar eða jafnvel rangar. Mikilvægum upplýsingum hefur verið haldið frá almenningi og notast hefur verið við fullyrðingar mjög hlutdrægra aðila án þess að á bakvið þær liggi nokkrar sannanir. Til samanburðar liggur ítarleg heimildavinna á bakvið hverja fullyrðingu sem kemur fram í bók Tims Anderson. Hún færir okkur upplýsingar og nýja sýn á átökin sem við getum ekki horft fram hjá ef við ætlum okkur að mynda upplýsta ákvörðun.

Ég lít ekki á mig sem málsvara Assads, Ba‘ath flokksins eða nokkurra annarra stjórnmálamanna í erlendu ríki. Ég er ekki málsvari Rússa. Ég lít hins vegar á mig sem manneskju sem hefur skyldum að gegna til annarra manneskja á jörðinni sem líða hörmungar. Ég vona að útgáfa bókarinnar geri öllum kleift að taka afstöðu og úr því breyta eftir henni og að því meiri breidd af upplýsingum sem fólk hefur úr að ráða, því réttari verður sú ákvörðun. Allt þetta vona ég að verði lóð á vogarskál þess að friður komist fljótt á í Sýrlandi. Án friðar sé ég engan möguleika á jákvæðum breytingum á samfélaginu eða í pólitíkinni í Sýrlandi. Ég held að Sýrlendingar séu alveg eins og við; að þeir vilji lifa í friði og öryggi og að sannleikurinn fái að ríkja í umfjöllun um þá. Ég vil að viðskiptabanninu gegn Sýrlandi verði aflétt og að NATO hætti að senda morðtól til hryðjuverkahópa í Sýrlandi. Þess vegna tók ég þátt í því að þýða þessa bók. Þeir sem vilja gagnrýna bókinna eru hvattir til þess, en lesið hana fyrst. Ekki styðja ritskoðun á grundvelli fyrirfram gefinna forsendna.