Fara í efni

STÖNDUM MEÐ ASSANGE

Ritskoðun eru hömlur sem lagðar eru á tjáningarfrelsi til að koma í veg fyrir að upplýsingar komist á framfæri. Þetta er öflugt vopn og hættulegt. Verstu ógnar- og afturhaldsstjórnir sögunnar hafa ætíð stundað öfluga ritskoðun gegn þeim sem ógnaði veldi þeirra. Þúsundáraríki kirkjunnar byggðist á slíku einræði yfir sannleikanum. Trúvillingar voru þaggaðir niður og svo pyntaðir og brenndir. Þessi iðja er einungis á færi þeirra sem hafa mikil völd þegar. Hinir valdalausu geta ekki beitt ritskoðun gegn hinum valdamiklu.

Skýrustu birtingarmyndir þeirrar ritskoðunar og skoðunarstjórnar í upplýsingaheimi dagsins í dag sjást á þögguninni og umræðuleysinu sem ríkir í málefnum Julians Assange. Í raun er verið að dingla hræinu af Julian Assange fyrir framan augun á fólki, okkur öllum til varnaðar. Skilaboðin eru skýr: Ef við beygjum okkur ekki undir meginstrauminn í hlýðni getur endað svona fyrir okkur. Ekkert ríki hefur rétt honum hjálparhönd, engin stærri mannréttindastofnun hefur tekið það ábyrgðarhlutverk að vinna í þessu bæði táknræna og raunverulega mannréttindabroti sem framið er fyrir framan augun á okkur. Assange er í þessari stöðu einungis fyrir eitt: Að dreifa upplýsingum sem henta valdamiklu fólki illa. 

Meðferðin á einstaklingnum Julian Assange minnir um margt á aðfarir gegn villutrúarmönnum fyrri tíma og eru að skila tilætluðum árangri. Svona meðferð hræðir frá þá sem hugsa sér að birta almenningi sannleika sem er óþægilegur fyrir valdið. Raddir fólks eins og hans hafa smám saman þagnað í fjölmiðlum, eins og þær upplýsingar sem hann kom á framfæri. Við vitum öll innst inni hvert stefnir. Breytingin frá því sem var þegar Watergate-málið kom upp er sláandi: Bob Woodward og Carl Bernstein urðu þjóðhetjur; Assange, eins og aðrir uppljóstrarar og gagnrýnir blaðamenn (Chelsea Manning t.a.m.) eru hundeltir. Assange er beinlínis pyntaður daglega. Munu menn þora að tjá sig í framtíðinni?

Ef við missum allar raunverulegar gagnrýnisraddir í þetta hyldýpi óttans er samfélagið komið langt frá þeim gildum sem fyrri kynslóðir börðust fyrir og við eigum á hættu að missa það frelsi og þau réttindi sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut. Við getum endað á sama félagslega stað og Evrópumenn miðalda undir stjórn kirkjunnar, því það er ekkert sem segir að þessi þróun endi á þægilegum stað. Villutrúarmenn og gagnrýnendur voru fjarlægðir mjög hressilega úr umræðunni á miðöldum. Á dögum hins starfræna verður hægt að fjarlægja fólk mjög fljótt; það er einfaldlega hægt að skrúfa það af. Við verðum algjörlega undir valdi stórkapítalisins komin; förum við gegn því vitum við hvað verður um okkur; Assange er víti til varnaðar.

Stétt blaðamanna og embættismanna hefur brugðist algjörlega í málefnum Julians Assange og annarra uppljóstrara sem nú eru hundeltir. Þeir hafa fallið á prófinu og þetta verður þeim sem hópi til ævarandi skammar. Við hin getum ekki lengur beðið eftir viðbrögðum frá þeim. Ef við stöndum ekki gegn ritskoðun og árásum á borgaraleg réttindi núna, og líka þegar þau beinast gegn einhverjum sem okkur kann að mislíka við hér og nú, munum við kannski aldrei endurheimta tjáningarfrelsið.

Fylgjum nú öll fordæmi Ögmundar Jónassonar. Mótmælum fangelsun og framsali Julians Assange, og krefjumst þess um leið að Julian Assange fái frelsi og pólitískt hæli á Íslandi. Mætum við breska seniráðið við Laufásveg á morgun, miðvikudaginn 22. desember 2021.