Fara í efni

AÐ HOPPA EINS OG KÖTTUR Í KRINGUM HEITAN GRAUT!

Margir hafa spurt mig þessa dagana hvers vegna Ríkisútvarpið fjalli lítið efnislega um „háeffun“ flugumferðarstjórnar og rekstur flugvalla landsins og afleiðingar hennar. Eða um  markaðsvæðingu matvælarannsókna og stofnun hlutafélagsins Matís nú um áramótin.
Rætt er fyrst og fremst við talsmenn ríkisstjórnarinnar, sem reyna að gera einstaka hópa starfsmanna tortryggilega. Það á ekki síst við um flugumferðarhnútinn. Litið er framhjá því að hann er rammpólitískur - hnýttur af ríkisstjórn landsins. Það er eðlilegt að fólk furði sig á því að fjölmiðlar skuli veigra sér við að fjalla um þessar raunverulegu forsendur þeirra deilumála sem upp eru komin heldur fara í kringum þau eins og köttur um heitan graut. 
Grunnástæða  þess ófremdarástands sem er að skapast  er sú að verið er að færa starfsemi á sviði  öryggis, almannaþjónustu  og grunnvísinda í form einkarekstrar hjá fyrirtækjum  á samkeppnismarkaði með tilheyrandi uppsögnum og breytingum á réttindum og skyldum þess fólks sem þarna vinnur. „Háeffun“ getur verið góð þar sem hún á við í samkeppnis atvinnurekstri en ekki í öryggis og almannaþjónustu.

Niðurlægjandi framkoma við starfsfólk

Í mig hefur hringt fólk sem upplifir beina niðurlægjandi framkomu af hálfu stjórnenda Matís sem þó er ekki enn lögformlega tekið til starfa. Starfsmenn eru teknir einn og einn og hálf stillt upp við vegg til að skrifa undir einhverja bráðbirgðaráðningu, án þess að fullu sé gengið frá í samningi, réttindum þeirra og kjörum. Með óbeinum hótunum eru starfsmenn mjög lattir  til að blanda stéttarfélögum inn í málið. Einmitt við slíkar aðstæður ætti viðkomandi stéttarfélag að sýna frumkvæði og hörku í að verja rétt starfsmanna. Ég veit að það hefur BSRB gert og það skilaði einnig ítarlegum og eindregnum umsögunum um frumvörpin meðan þau voru til meðferðar á Alþingi. Færð voru rök fyrir því hvílíkt óráð það væri að hlutafélagavæða þessa starfsemi og hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir starfsfólkið. Fram hefur komið að BHM hefur nú andæft vinnubrögðum stjórnenda Matís en betur má ef duga skal og það miklu betur. Ekki minnist ég heldur að Alþingi hafi á sínum tíma borist umsögn frá BHM við frumvarp um hlutafélagavæðingu matvælarannsóknanna. Er þó meginþorri starfsmanna þar félagsmenn BHM. Þetta segi ég af góðum hug í garð stéttarfélaganna. Mér finnst einfaldlega ástæða til að minna þau á ábyrgð sína nú þegar sótt er að einstökum starfsmönnum sem án skjaldborgar stéttarfélaganna standa á berangri.

Stéttarfélögin standi með sínu fólki

Þau samtöl sem ég hef fengið í dag og gær frá starfsfólki þeirra stofnana sem eiga að mynda hið nýja hlutafélag Matís segja mér að þarna séu samskiptin í fullkomnum ólestri, líkast því sem var fyrir  meir en 100 árum. Staðan er sú að um helmingur starfsmanna eða 40 manns hafa ekki séð sér fært að skrifa undir nýjan ráðningarsamning.
Sú staða sem upp er komin hjá starfsmönnum þessara stofnana á sviði flugþjónustu og matvælarannsókna  eftir „háeffun“ þeirra  gæti verið Ríkisútvarpinu  lærdómsrík:
Háeffun flugleiðsagnar og rekstur á flugvöllum hefur hleypt flugöryggismálum í hnút . Talað er um milljarðatap á ári fari svo fram sem horfir.
Háeffun matvælarannsókna í Matís hefur sett þann málflokk allan í uppnám og starfsfólkið upplifir sig eins og einnota vöru úr búð með skilamerki á.

Lærdómur fyrir Ríkisútvarpið og starfsfólk þess

Væri ekki ráð fyrir Ríkisútvarpið að gera þessu hvoru tveggja efnislega skil í stað þess að drepa raunveruleikanum á dreif  með umfjöllun um " ekki kjaradeilu" einstakra starfshópa og yfirborðskenndum viðtölum við talsmenn ríkisstjórnarflokkanna.
Nái vilji ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks fram að ganga er það starfsfólk Ríkisútvarpsins sem verður næst rekið út á „blóðvöll“ Háeffunar.
Er ekki kominn tími til að ræða einkavæðinguna í því pólitíska samhengi sem hún er sprottin upp úr. Einkavæðing almannaþjónustunnar er pólitísk í eðli sínu. Hvers vegna skyldu fjölmiðlar, þar með talið Ríkisútvarpið, hræðast að ræða hana í því samhengi?

Jón Bjarnason, alþingismaður Vinstri grænna