Fara í efni

HVERS VEGNA EIGUM VIÐ AÐ LEGGJA JAFNA ÁHERSLU Á NÁM Í VERKMENNTA- OG MENNTASKÓLUM?

Á borgarafundi í Kastljósi 24. apríl s.l. í tilefni alþingiskosninganna, kom fram hvílíkt ofurkapp núverandi stjórnvöld hafa lagt á stofnun háskóla, - háskóli er lausnarorðið. Fulltrúar stjórnvalda og stjórnarandstaðan leiddu saman hesta sína á fundinum. Fyrirspurn var beint til menntamálaráðherra um áherslur ráðuneytisins á verkmenntun í landinu, í svari kom m.a. fram að stórauka þyrfti náms- og starfsráðgjöf í skólum. Auka þyrfti vinnustaðanám og að stúdentspróf frá mennta- og verkmenntaskólum yrði metið að jöfnu. Einnig að viðhorfsbreyting þyrfti að eiga sér stað til [verknámsins].
Iðnaðarráðherra sagði m.a. að tryggja þyrfti starfsmenntir á háskólastigi. Stofna listmennta- og starfsmenntháskóla, eða deild sem hluta í stærri heild, svo starfsmenntir nytu réttmætrar og eðlilegrar viðurkenningar í skólakerfinu. Hvers vegna skyldi þurfa að taka þetta fram?

 Framhaldsskóli fyrir alla.

Í lögum um framhaldsskóla stendur „...að allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, skuli eiga kost  á því að hefja nám í framhaldsskóla“. Framhaldsskólinn á að vera fyrir alla, þegar unglingarnir velja framhaldsskóla í dag, þá velja flestir bóknámsbrautir. Hvers vegna? Menntar grunnskólinn ungviðið jafnt til munns og handa? Verkmenntastofurnar sem til voru í grunnskólunum í mínu ungdæmi hafa verið teknar undir aðra starfsemi, matreiðslan, tónmenntakennslan, handavinnukennslan, listnámskennslan eru aukabúgreinar í dag. Grunnurinn er lagður  á fyrstu árum skólagöngunnar, ef nemendurnir kynnast ekki verkmenntum þar, er þá líklegt að þeir velji þær í framhaldsskólanum?

Að grunnskólanámi loknu taka flest ungmenni samræmd próf. Eins og alþjóð veit þá fer dilkadráttur um nemendur fram með þessum prófum. Er jöfn áhersla lögð í þessum prófum á bók- og starfsnám? Því er fljót svarað, svo er ekki. Kennarar, foreldrar og ekki síst nemendur eru í spennu heilan vetur við að innbyrða eins mikið af staðlaðri þekkingu og mögulegt er svo þeir geti leyst prófin. Markmiðið er að komast í draumaskólann og til þess þarf að ná lágmarkseinkunn í þeim greinum sem elítuskólarnir krefjast. Hefur nokkrum dottið í hug að hluti vanda nemandans og áhugaleysi í framhaldsskólanum tengist því að honum var hafnað í skólanum sem hann stefndi að?

Eru samræmdu prófin óskeikull mælikvarði á getu einstaklingsins?

Ef skoðuð er t.d. úttekt Michaels Dals lektors við KHÍ á samræmdu prófi í dönsku vorið 2006 (sem lesa má á heimasíðu hans) segir;  ,,Lagt er til að Námsmatsstofnum endurskoði rækilega vinnuferli við gerð samræmds prófs í dönsku“. Skyldu þessi orð Michaels eiga við um fleiri þessara samræmdu prófa?

Það eru þessi próf sem greina eiga á milli feigs- og ófeigs í framhaldsskólakerfinu. Kennaraháskóli Íslands útskrifar kennara sem við treystum fyrir ungviði þessa lands. Síðan virðumst við ekki treysta þessu sama fólki til þess að nýta þekkingu sýna við samningu prófa sem eru réttmæt og áreiðanleg. Treystum við háskólunum ekki lengur?

Þegar dregið hefur verið í dilka á vorin eftir samræmdu prófin, þá lendir hópur nemenda í ,,almenningnum“. Af eigin reynslu þá get ég staðhæft að þar reynist margt ,,metféð“, þó lengi hafi ýmsir skólar neitað að vera með slíkan hóp, sem reyndar kallast á fagmáli, almennt nám. Margir skólar telja sig ekki þurfa að vera með ,,almenning“ en þeim fjölgar. Segja má að veggirnir í réttinni séu smá saman að hrynja, þegar fréttir berast suður yfir heiðar að MA hafi sett á stofn almenna deild.

Eigum við að setja unglingana okkar og heimilin í þessa samkeppnisstöðu, þegar þeir eru að glíma við hormónabreytingar sem reynast þeim  og foreldrum þeirra nægilegt verkefni á þessu aldursskeiði? Unglingarnir eiga allir rétt á námi í framhaldsskóla. Með þessum matsaðferðum er rétturinn ekki ,,jafn“. Þau eru nefnilega ekki öll eins, sem betur fer, og áhugi þeirra víðsfjarri því að flokkast í einn dilk í réttinni.

Áhugi er það sem knýr námsmanninn áfram, einnig kennarann. Það geta margar ástæður legið að baki áhugaleysis á námi og sökin er ekki alltaf hjá nemandanum, því hættir okkur til að gleyma. Ég spyr mig; hvernig fara kennarar í grunnskólanum að því að kenna 20 nemenda hópi, mis áhugasömum, þegar krafan er um einstaklingsbundið nám? Það er ofvaxið mínum skilningi. Þarf grunnurinn ekki að vera traustur, byggður á færni bæði til munns og handa.

Fyrir okkur sem kennum í verkmenntaskólum er það nánast óbærilegt að hlusta á fólk segja, hann (lesist nemandinn) fer þá bara í verknám.
Gerum bók- og verknám jafngilt í skólakerfinu ekki einungis stúdentsprófið og afnemum samræmdu prófin.
Skólastjórnendur verkmenntaskólanna eiga ekki að þurfa að sætta sig við að taka til sín nemendur sem aðrir hafa hafnað. Það á að  taka á móti nemendum í þeim skólum sem þeir hafa valið sér, ekki sem hafa ,,valið þá“. Þegar nemandinn hefur fallið á samræmda prófinu, kjarkurinn farinn og hann kominn í skóla sem hann vill ekki vera í, þá getur verið erfitt að koma honum aftur í gang. Þetta kallast lært hjálparleysi á tungumáli sálfræðinnar, sem svo sannarlega á við um marga nemendur í framhaldsskólunum. Hefur engum dottið í hug að þessi líðan geti átt sinn þátt í hinu mikla brottfalli, sem samkvæmt tölum frá árinu 2002-2003 var 19,3 % og sennilega svipað hlutfall í dag?

Lengi var það svo að nemendur gengu í framhaldsskóla síns hverfis. Á þessum árum var kennari við elítuskóla eitt sinn spurður um það hvaða aðferðum starfsmenn skólans beittu til þess að skila framúrskarandi nemendum til HÍ. Það stóð ekki á svari , ,,við losum okkur við þá slöku, strax eftir fyrsta veturinn“.

Einfaldlega vegna þess að börnin okkar eru sem betur fer ekki öll eins. Við eigum að taka mið af því í grunnskólakerfinu og beina ekki öllum nemendum markvisst beint inn á bóknámsbrautir  framhaldsskólanna. Leggjum peningana sem við höfum nóg af til þess að styrkja alhliða grunnmenntun, með því að auka list- og verkmenntir í grunnskólunum. Til þess að svo megi verða þurfum við að finna leið í samvinnu við grunnskólakennara. Þeir verða að hafa raunhæfan möguleika á því að sinna starfi sínu í fjölmennum blönduðum bekkjum. Við eigum einnig að leggja niður samræmda prófið í 10 bekk, Námsmatsstofnun getur framkvæmt kannanir með það að markmiði að bæta nám almennt. Það er verðugt markmið og skaðar engan. 

Þó að nám í verkmenntaskólunum sé af ráðamönnum talið dýrt, þá kemur á móti að nemendur sem útskrifast af þessum brautum hefja fyrr störf á vinnumarkaði en nemendur af bóknámsbrautum og fara að greiða skatta til þjóðarbúsins.

Veitum börnum okkar trausta grunnmenntun bæði í bók- og verknámi. Þá skynja þau að verkmenntun er jafn mikilvæg og bóknám. Í framhaldi af því á að gefa þeim jöfn tækifæri til þess að mennta sig hvert sem hugurinn stefnir. Reynum að jafna í réttinni, látum stjórnvöld ekki komast upp með að beina öllu ,,fénu” í háskóladilkinn, þegar þörfin er svo brýn á því að styrkja undirstöðuna.