Fara í efni

FAGRA ÍSLAND, FÓRNARLAMB STJÓRNAR-VIÐRÆÐNA

Formaður Samfylkingarinnar lét þau ummæli falla nýverið að „[k] lækjastjórnmál, þar sem flokkar og einstaklingar reyna ýmist að klekkja hver á öðrum eða krafsa til sín þau völd og áhrif sem þeir komast yfir án tillits til þess umboðs sem þeir fengu í kosningum, hafa oft verið mikill skaðvaldur í íslenskum stjórnmálum...[n]ú er ekki tími fyrir klækjastjórnmál, refsskap og útúrsnúninga heldur hreinskiptni og heilindi..."

Vel má taka undir þessi orð formannsins um að heilindi séu lykilatriði í stjórnmálum og að án heiðarleika og hugsjóna séu stjórnmálamenn lítils virði. En spyrja má hvernig þessi hástemmdi siðferðisboðskapur snýr að Samfylkingunni sjálfri. Nú síðustu daga höfum við fylgst með hvernig sá flokkur hefur hlaupist undan þeim loforðum sem hann gaf í síðustu kosningum um stóriðjuhlé. Fyrir kosningar var boðskapurinn skýr enda hét hann Fagra Ísland: Ríkisvaldið ætti að stöðva frekari stóriðjuframkvæmdir m.a. við Helguvík og Bakka.

Ekkert stendur eftir af þessum kjarngóða kosningaboðskap þrátt fyrir að aðeins séu nokkrir mánuðir liðnir frá þingkosningum. Stóriðjustefnan er óbreytt frá fyrri ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. En hver hefur þá málsvörn Samfylkingarinnar fyrir kúvendingu flokksins verið. Hefur hún einkennst af þeirri hreinskiptni og heilindum sem formaður Samfylkingar gerir kröfu um að aðrir stjórnálamenn tileinki sér eða útúrsnúningum og klækjum?

Við þessu er kannski ekki auðvelt svar en vísir að því gafst áhorfendum Kastljóssins kost á að fá þegar einn af höfundum Fagra Íslands mætti til að svara fyrir áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu síns flokks. Á honum var ekki að heyra að stefna flokks hans hefði breyst heldur þvert á móti væri stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum miklu betri en stefna Vinstri grænna (eins og krakkarnir myndu orða það: minns er miklu betri en þinns). Augljós ábending um að Samfylkingin styddi álver við Helguvík og Bakka en Vinstri græn ekki hefði ekki breytt neinu þar um. Málflutningurinn var einfaldlega ekki rökheldur.

En þegar kom að viðbárum um af hverju flokkur talsmannsins hefði skipt um skoðun var farið úr öskunni í eldinn. Fyrst var því borið við að farið yrði í stóriðjustopp eftir að uppbygging álveranna væri lokið! Þá væri hægt að fara í fimm ára stóriðjuhlé!! Og ástæðan fyrir því að heill stjórnmálaflokkur sneri við blaðinu í málefnum Helgvíkur, hver skyldi hún vera? Jú, eftir kosningarnar sl. vor hefði mátt túlka Steingrím J. Sigfússon á þann veg að snúið væri að koma í veg fyrir framkvæmdir í Helguvík af ástæðum sem hann fór þá yfir og í framhaldinu margoft, hvernig hægt væri að yfirstíga þær. Fulltrúar Samfylkingarinnar gripu þetta viðtal, slitu það úr öllu samhengi, og hafa síðan notað það sem réttlætingu fyrir því að leggja á hilluna eigið stefnuplagg sem hafði tekið marga mánuði að vinna. Af þessum sökum væru framkvæmdir við Helguvík í raun og veru Steingrími J. Sigfússyni að kenna!

Í fyrrgreindu Kastljósviðtali talsmanns Samfylkingarinnar hefði reynst betra að vera heiðarlegur og sleppa útúrsnúningum og klækjum. Ástæða þess að Samfylkingin sveik fyrirheit sín í umhverfismálum hefur ekkert með formann Vinstri grænna að gera.

Svikin við kjósendur áttu sér stað við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þá var ákveðið að álver við Helguvík ætti að rísa.

Aðilar innan Sjálfstæðisflokks sem knúðu mjög á um að halda áfram við stóriðjunni urðu ofan á og Samfylkingin gekkst við þeim. Í anda heiðarlegra stjórnmála ætti Ingibjörg Sólrún að stíga fram og skýra frá þessu. Hún má þá jafnframt láta það fylgja með hvort einnig hafi verið samið um álver á Bakka.