Fara í efni

HERÐUBREIÐ AÐ INNAN

Um daginn sagði vinur minn mér brandara. Stefán frá Möðrudal var að sýna gestum sínum málverk og einn þeirra benti á Herðubreið og sagði: "Er hún ekki of stór frá þessum sjónarhóli séð?" "Þú ættir að sjá hana að innan."sagði Stórval.
Í bókinni Draumalandinu segir Andri Snær að halda mætti að Ísland væri stærra að innanmáli en utanmáli. Ég hló. Menn tala alltaf um litla Ísland með stóru ósnortnu víðernin og óþrjótandi óbeislaða orku.

Barnalega Björk

Á dögunum sá ég í sjónvarpi Árna Johnsen og Elísabetu Jökulsdóttur ræða tónleika Bjarkar og Sigurrósar til styrktar umhverfismálum. Elísabet stóð sig vel en Árni tuggði orkusölulummuna og kallaði Björk barnalega. Mér finnst Árni barnalegur og ferill hans einn barnaskapur en veit að Björk er heimsfrægur snillingur og  bissnissmanneskja. Ég hló. Hann bauð upp á samanburðinn. Barnaskapurinn átti að vera náttúruverndin og nýja heimasíðan hennar Bjarkar.

Iðnaðarríkið Danmörk og hráefnisframleiðandinn Ísland

Ég bjó einu sinni í Danmörku. Þar var velmegun og þjóðinni þurfti ekki að "bjarga". Ég vann við handmáluð bollastell úr postulíni sem voru hert við háan hita. Allir vita að Danir eiga ekki orkulindir og flytja orku inn. Þeirra auðlind er fólk, hugmyndaflug, frumkvæði og ráðdeildarsemi. Þeir hafa smáiðnað og hönnun aragrúa fyrirtækja og margt smátt gerir eitt stórt. Sonur minn býr þar núna. Mér skilst að fátt hafi breyst í þessum efnum þar. Danir hafa ekki sviðsett góðæri eða sett allt á annan endann með risaframhvæmdum en lífskjörin þar eru stöðugri en hér. Af hverju gengur þetta ekki hjá okkur? Við erum löngu komin á sama menntunarstig og Danir en það er eins og enginn hafi trú á okkur til neins.

Margt smátt gerir eitt stórt

Ég vann eitt ár á Skattstofu Reykjavíkur við söluskatt. Þar komu oft ný fyrirtæki inn, en hurfu fljótlega og menn sögðu bara: "Þeir þurfa að rúlla þrisvar til að komast á lappirnar". Allir hafa heyrt sagt si svona: "Hann er nú í einhverju fyrirtækjabrasi greyið."
Hvað var og er að? Því er  framtak svo erfitt og lágt metið. Eru heimsfrægu okurvextirnir okkar of háir? Trúum við fólki eins og Árna sem þrástagast á hráefnum eins og við séum ólæs þriðja heims þjóð? Finnst okkur málshátturinn "Margt smátt gerir eitt stórt" vera barnaskapur og ekkert fullorðinslegt nema verðbréfabrask og málmur?

Ekkert verður eins og áður

"Ekkert verður eins og áður var", sagði maður við mig og andvarpaði. "Það verður einhverju að fórna til að bjarga þessari þróun." Hann meinti samfélagsleg áhrif álvers sem á að "bjarga" Húsavík. Ég skil ekki af hverju þarf að bjarga og hvers vegna þarf að fórna. Alla mína ævi hafa verið framfarir á Íslandi og Húsavík. Ég skil ekki hvers vegna menn vilja fá  risa málmbræðslu þó allur bærinn verði innan mengunarsvæðis hennar. Heldur einhver að það verði gaman eða heilsusamlegt? Heldur einhver að fjölgi í bæ þar sem ekki er gaman og umhverfið er svo mengað að þar er bannað að rækta nokkuð ætt? Er það freistandi ímynd? Það hlýtur að gilda það sama um rabbabara á Húsavík og matvælaframleiðslu á Tjörnesi. Þar þarf að hætta búskap á öllum búum innan áhrifasvæðis ef reist verður 250.000 tonna álver í Bakka. Hvað ef bræðslan verður helmingi stærri? Nær þá ekki mengunarsvæðið helmingi lengra, langt út á sjó og að ósi Laxár í Aðaldal? Það eru örfáir kílómetrar.
Mér finnst Húsavík í góðum gír, falleg skemmtileg og full af frumlegum fyrirtækjum og ferðaþjónustu. Ég held að Hvalasafnið, hvalaskoðunarfyrirtækin og ferðaþjónustan muni skaðast við málmbræðslu og það er ekki atvinnuleysi á Húsavík.
Það þarf að endurskoða þetta mál frá öllum sjónarhólum þar sem verksmiðjuhugmyndin er að stækka og ekki á að nota þar vothreinsibúnað. Ég er hrædd um að margir geri sér enga grein fyrir stærð þessa máls af því það er, eins og Herðubreið, miklu stærra að innan.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir