Fara í efni

HERVÆÐING EÐA SIÐVÆÐING

„Þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ (Fil. 1.9.) Þörf er glöggrar dómgreindar til að ná áttum andspænis stríðsátökum og hernaðarhyggju, er berst sem gjörningaský yfir heimsbyggðina, líka til Íslands, og rýrir greind og siðvit. „Koma verði hagkerfum Evrópu í stríðsham“ var haft eftir formanni leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Mbl. 20. mars sl.

Sannleikurinn er fyrsta fórnarlamb stríðs. Fyrsta verk til friðar er að ná réttum áttum. Vestrænir fjölmiðlar hafa litið mjög fram hjá því að Úkraínustríðið hófst ekki með innrás Rússa og átti sér aðdraganda allt frá því að V. Yanukovych forseta Úkraínu, sem vildi viðhalda hlutleysi landsins, var steypt af stóli í valdaráni 2014. Upplýsingar m.a. frá Wikileaks hafa afhjúpað að BNA eyddu milljörðum dala til að koma því í kring. Þegar rússneskumælandi íbúar austurhéraða landsins andmæltu var þeim bannað að viðhalda rússnesku máli sínu og menningu auk þess sem Úkraínuher hóf sprengjuárásir á þá.

14.000 manns lágu í valnum er Rússar hófu innrás í Úkraínu eftir að hafa ítrekað andæft og brugðist ókvæða við ástandinu í austurhéruðunum og áformum um að Úkraína gengi í NATO, sem vægi að öryggi þeirra. Vesturveldin höfðu þá svikið friðarsamninga er gerðir voru í Minsk 2015 með fulltingi Sameinuðu þjóðanna og fólu í sér fækkun vopna og hlutleysi Úkraínu, og nýtt tímann til að auka vígbúnað þar. Skömmu eftir innrás Rússa lágu samningar að nýju fyrir í Istanbúl með aðkomu Tyrklands og Ísraels, með líkum skilmálum og fyrr í Minsk, en fyrir orð bandarískra og breskra ráðamanna var fallið frá undirritun og þeir hétu fullum stuðningi við stríðsrekstur. Minnisstæð er frétt í ársbyrjun 2023 af viðtali við varnarmálaráðherra Úkraínu sem kvað hernað Úkraínu falla vel að verkefnum NATO. Þið fórnið ekki ykkar blóði, sagði hann, við fórnum okkar blóði, það útheimtir að þið skaffið okkur vopn.

BNA og NATO heyja staðgengilsstríð í Úkraínu sem leitt hefur til hörmunga og aukið togstreitu um víða veröld. BNA hafa lengi viljað þrengja að Rússum, veikja efnahag þeirra og umkringja þá með vopnvæddum NATO-ríkjum við Svartahaf, svo sem Biden forseti hefur haft á orði til að grafa undan þeim og viðhalda yfirburðum BNA sem ráðandi heimsveldis. Stefnan var mörkuð þegar eftir fall Sovétríkjanna, eins og fram kemur í skrifum Z. Brzezinskis, fyrrverandi öryggismálafulltrúa BNA. Enn 2019 voru lögð á ráðin í áþekkum anda í skýrslu frá Rand-hugveitunni í BNA, Expanding Russia, um að þenja Rússa og koma þeim í vanda sem víðast og draga úr áhrifum þeirra.

Lýðræði í BNA fer þverrandi. Auðhringir hafa tekið yfir þing og forsetaembætti. Að valið standi á milli Bidens og Trumps í forsetakjöri sýnir það. Fjölmiðlar vestanhafs eru undir áhrifum þeirra og gagnrýna ekki herskáa stjórnarstefnuna og evrópskir fjölmiðlar fylgja þeim. Hergagnaiðnaðurinn ræður för svo sem stríðsrekstur BNA um heiminn og samsæri til valdaskipta bera vott. Yfir 800 bandarískar herstöðvar utanlands eru vart til að vernda lýðræði, frelsi þjóða og kristin lífsgildi, heldur til að tryggja veldi BNA, aðgang að auðlindum og yfirráð dalsins í efnahagskerfi heimsins. Fjölgun BRICs-ríkja vitnar um andstöðu við þetta ráðslag. Taumleysi BNA sýnir ekki styrk en hnignandi vald og áhrif. Það kemur m.a. fram í því hvernig BNA styðja Ísrael í grimmilegri herferð gegn Palestínumönnum á Gasa í kjölfar hryðjuverka Hamas-samtakanna.

Þrýstingur BNA um hervæðingu í Evrópu bendir til þess líka og undirróður um að stríðið í Úkraínu sé aðeins byrjun á útþenslu Rússa. Ekkert er þá horft til öryggishagsmuna þeirra og upphafs átakanna. Áróðurinn stuðlaði að því að Finnar og Svíar gengu í NATO og viku frá hlutleysi sínu og hlutverki sem brúarsmiðir milli austurs og vesturs. BNA hafa fengið samþykktar 17 herstöðvar í Svíþjóð með eigin lögsögu og heimild til hvers konar vopnabúnaðar. Stjórnmálaforingja sem Olavs Palmes forsætisráðherra Svía og Ch. de Gaulles Frakklandsforseta, sem létu ekki undan ágangi BNA, er saknað á Norðurlöndum og víðar í Evrópu.

Fjáraustur til aukins vígbúnaðar Úkraínu dugar ekki til að sigra kjarnorkuvædda Rússa en eykur mannfall og líkur á tortímandi stórveldaátökum.

Semja þarf við Rússa um frið þótt verði á öðrum nótum en fyrr var á kostur, fjarlæga vopn úr Úkraínu í stað þess að fjölga þeim og samþykkja hlutleysi landsins og viðurkenna að þeir eigi helst að greiða stríðsbætur er brugguðu launráð og kveiktu ófriðarelda en kenndu svo öðrum um brunann. Brýnt er að hervæðing víki fyrir siðvæðingu og gjörningar stríðsgróðaafla fyrir skarpri dómgreind og þekkingu, næmri samvisku og elsku er hryggist yfir vígaferlum, sóun og eyðileggingu og knýr á um samstöðu þjóða til að bregðast við umhverfisvá, sárum og neyð. Friðarhreyfinga er nú saknað er fyrr á árum andæfðu vopnakapphlaupi stórvelda og sóttu sér styrk og leiðsögn í kristna trú og kirkju um helgi lífs. Ísland hefur ekki þörf fyrir annan her en þann sem fórnfúsar hjálpar- og björgunarsveitir mynda og hafa oftsinnis unnið afreksverk og sannað gildi sitt og hæfni til lífsbjargar. Vert er að halda þeim fram og halda því jafnframt á lofti að fækka beri vígasveitum en fjölga slíku björgunar- og afreksliði um heim allan.

__________
Þessi grein birtist einnig í Morgunblaðinu 3.6.24.