Fara í efni

MIÐJA GROUP

Baráttusvið væntanlegra sveitarstjórnakosninga er smátt og smátt að opnast. Þótt við, sem búum utan Reykjavíkur, lítum ekki á okkur sem pólitísa aukaafurð, þá fer ekki hjá því að í höfuðborginni er líklegast að meginstrauma verði vart – strauma sem hafa heilmikil áhrif á landsmálapólitíkina. Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið í sitt lið og fer ekki á milli mála að flokkurinn stefnir inná miðjuna. Foringjar Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún og Stefán Jón Hafstein segja slíkt hið sama um markmið síns flokks; miðjan er baráttuvettvangurinn. Um leið og ljóst var að Vilhjálmur Þ. myndi leiða lista Sjálfstæðisflokksins stökk Stefán Jón fram á völlinn og sagði nokkurn veginn þetta: Þið, sem í könnunum segist ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en hafið kosið R-listann, snúið við! Komið heim aftur og kjósið Samfylkinguna.

Framsóknarmenn eiga eftir að kljást innbyrðis um hverjir fari fyrir framboðslistanum, en flestir gera því væntanlega skóna að aðstoðarmaður forsætisráðherra vermi efsta sætið. Hvað pólitíska þýðingu það hefur er ekki gott að segja, en hér er því slegið föstu að framsóknarmenn í höfuðstaðnum muni halda sig hægra megin á miðjunni í vor og fá einn mann kosinn. Enginn veit hvað Frjálslyndir gera nema hvað þeir vilja hvorki láta staðsetja sig til hægri né vinstri.

Með öðrum orðum: Skapast hefur pólitískt fyrirbæri margra flokka sem eðlilegast er að kalla Miðju group að hætti nútímans. Allir ætla þeir sér stóra vinninga á hlemmiskeiði miðjunnar, þeir verða allir með fjölskylduvæn gildi á sínum stefnuskrám – gerum góða borg betri og þar fram eftir götunum.

Að fiska á miðum hinnar fjölmennu miðju þýðir að beitan er ekki mjög ögrandi, á matseðlinum er það sem flestir geta sætt sig við, einskonar pólitískt pasta, mildilega kryddaður réttur. Og svo er bara að vona að sem flestir setjist til borðs í miðjum salnum, sumir við D borðið, aðrir við B, S og F.

Veiðiskapur á miðjunni er heldur ófrumleg hugmynd þótt menn trúi því að þar sé helst aflavon. Sjálfstæðisflokkurinn á auðvitað alltaf vísan stuðning þeirra sem yst eru til hægri, enginn getur keppt við D-listann um það fylgi síðan Alþýðuflokkurinn „sálugi” hætti að bjóða fram.

Síðan á stríðsárunum síðari hefur ysta vinstrið alltaf haft á bilinu 10 – 20% fylgi og talsvert yfir 20% þegar best hefur látið. Ekkert bendir til að þetta hafi breyst. Allar kannanir sýna Vinstri græna með fylgi á þessu bili. Þörfin fyrir flokk yst til vinstri hefur hreint ekki minnkað – flokkur sem talar skýrt og hiklaust um skýr markmið hefur þýðingarmiklu hlutverki að gegna og getur átt marga fylgjendur. Hann mun að sjálfsögðu tefla fram fjölskylduvænum gildum og vilja gera góða borg betri eins og hinir en það er ekki nóg. Skýrmæltur vinstri flokkur verður að segja hvað hann vill og hvernig hann hugsar sér að gera hlutina. Þegar öll megin markmið hans eru talin saman verður að koma út heildstæð mynd, augljós fyrir alla kjósendur. Hér má líta á 10 dæmi, sum eru kunnuleg en önnur ekki:

1. Hann vill ókeypist skólagöngu allra barna frá leikskólaaldri og uppí gegnum framhaldsskóla.
2. Hann vil tekjujöfnun milli veikra og heilbrigðra sem tryggir ásættanleg lágmarkskjör fyrir alla. Þetta þýðir ekki að hann geti útrýmt tekjumismuninum, heldur að tryggja öllum þolanleg lágmarkskjör.
3. Hann vil auka jafnrétti í víðum skilningi. Hann er ekki bara femíniskur flokkur heldur líka stéttapóltískur sem skilur að atvinnurekendur leita allra leið til að lækka kostnað sinn, þ.m.t. launin. Launamisréttið er þess vegna ekki bara milli karla og kvenna, heldur líka milli stétta þar sem konur verða verst úti.
4. Hann vill taka á því umferðaraungþveiti sem er í borginni og hann er óhræddur við að leggja til að flugvöllurinn fari útá Löngusker.
5. Hann vil þétta byggðina í borginni og auka vægi miðborgarinnar, meðal annars með flutningi flugvallarins. Þetta getur leitt til þess að auðveldara verði að leysa almenningssamgöngur, annars vegar með aðflutningi að miðbænum en hins vegar með greiðum samgöngum innan miðborgarinnar.
6. Hann vill að sveitarfélögin taki að sér fleiri verkefni en nú er, framhaldsskólar og öll nærþjónusta við fatlaða, sjúka, aldraða o.þ.h. verði verkefni sveitarfélaga.
7. Hann velur ekki alltaf ódýrustu leiðirnar til skamms tíma. Þess vegna hafnar hann ekki dýrari leiðum Sundabrautar ef það þjónar betur langtímahagsmunum.
8. Hann þroskar þjónustuna við borgarbúa enn betur þannig að viðmót þjónustunnar verði ekki lakara en fólk mætir hjá einkaaðilum.
9.Hann einkavæðir ekki Orkuveituna né önnur borgarfyrirtæki umfram það sem orðið er. Ódýr og greiður aðgangur að vatni eru mannréttindi.
10. Hann talar ekki fyrir lækkuðum sköttum og segir hiklaust: Samfélagsþjónustan kostar peninga en það er ódýrara og miklu öruggara að leysa fjölmörg mál félagslega en á grundvelli einkareskturs.

Hér hafa að sönnu aðeins verið nefnd 10 atriði og afar líklegt að Miðjan group telji sig geta skrifað uppá flest þeirra í einhverri mynd. Það sem skilur á milli er í fyrsta lagi að vinstri flokkur segir fullum fetum að lækkanir á sköttum muni aldrei geta aukið almannaþjónustuna heldur þvert á móti, og að hætta sé á að flokkar, sem hafa einkavæðingu á stefnuskrá sinni eins og miðju- og hægriflokkarnir flestir, muni snúa sér að aukinni einkavæðingu hvað sem einstakir borgarfulltrúar segja í aðdraganda kosninga.
Hitt þarf svo öllum að vera ljóst að VG á ekki að vera í stríði við Samfylkinguna og beinir því spjótum sínum fyrst og fremst að þeim sem eru hægra megin við miðjuna.
hágé.