Fara í efni

ER VERÐ-TRYGGINGIN EKKI UMRÆÐU-VERÐ?

Eitt af því sem veldur hvað mestri ólgu þessa dagana er verðtrygging fjárskuldbindinga. Fólk horfir á skuldir sínar hækka upp úr öllu valdi á sama tíma sem kaup þess lækkar, að ekki sé minnst á atvinnuleysi þúsunda launamanna.
Lífeyrissjóðirnir hafa skiljanlega hag af því að fá jafn verðmæta peninga til baka þegar þeir lána, og lausafé sitt reyna þeir að tryggja eins og kostur er. Öðru vísi verður ekki greiddur skaplegur lífeyrir við starfslok eða örorku. Á hinn bóginn vekur athygli að enginn virðist gefa því gaum hvort fjármagn sé „rétt" verðtryggt, sé jafnvel oftryggt. Væri það tilfellið fengi lánveitandi til baka meira virði en hann lánaði, og rændi með því á einfaldan hátt lántakann.

Neysluvísitala

Verðtryggðar fjárskuldbindingar eru bundnar neysluvöruverðsvísitölu. Þetta þýðir á mannamáli að sá sem lánar fær tryggingu fyrir því að geta alltaf keypt jafn mikið brennivín, rúsínur, harðfisk eða hvaðeina annað fyrir það sem hann lánaði. Láni hann andvirði eins kílós af harðfiski greiðir lántakandinn til baka, auk vaxta, jafnvirði eins kílós þótt það hafa tvöfaldast í vexti. Láni banki eða sjóður 20 milljónir er hann tryggður fyrir því að geta keypt jafn verðmætar vörur þó þær hafi hækkað í 30 milljónir. Engu skiptir þótt greiðandinn hafi jafn há laun, eða lægri. Verðmæti lánsins miðað við laun hefur hækkað um 50% en launin ekki. Á þetta horfir fólk nú og svíður sárt, því ofan á neysluvöruverðtryggð lán hefur íbúðaverð lækkað að raunvirði (jafnvel líka í krónutölu). Skyndilega blasir við fólki að geta ekki borgað af lánum og tapa auk þess eignunum sem eru að veði fyrir lánunum. Er nema von að fólki svíði þau kjör sem lán tryggð með neysluvöruverðsvísitölu valda um þessar mundir.

Launavísitala

Launavísitalan mælir breytingar á launum á vinnumarkaði á sama hátt og neysluvöruverðsvísitalan mælir verðmæti vöru og þjónustu. Um þessar mundir stendur launavísitalan örugglega í stað, eða lækkar, því fréttir berast af því að fólk taki á sig launalækkanir í stórum hópum. Um leið og þetta gerist myndast kúfur á þau lán sem fólk er með. Um leið og brennivín, hveiti, bíldekk, bensín eða hvaðeina hækkar, hækka skuldirnar. Milljón krónu skuld er allt í einu komin á tólfhundruð og fimmtíu þúsund. Hlutfall tekna sem greiða þarf af lánum fer að sama  skapi hækkandi, eða hækkar jafnvel umfram verðtryggingu lánanna vegna þess að launin lækka.

Órætt vandamál

Þetta vandamál, að verðtryggingin kunni að oftryggja launin er ekkert rætt um þessar mundir. Verkalýðshreyfingin eða samtök atvinnurekenda þegja þunnu hljóði um að hugsanlega væru til aðrar leiðir út úr vandanum. Kemur til að mynda til greina að nota launavísitölu til verðtryggingar þannig að lántakandi greiði aldrei hærra hlutfall af launum sínum en í upphafi þegar lánið var tekið? Má hugsa sér að búa til réttlátari vísitölu, jafnvel böndu af bygginga-, launa-, og neysluvöruverðs vísitölum? Í öllu falli er ljóst að lántakandinn ber kúfinn sem myndaðist vegna verðbólgu á árinu 2008 í mörg ár, jafnvel þótt laun hans standi í stað eða lækki.
Eitt ætti að blasa við: verkalýðshreyfingin og lífeyrissjóðirnir eiga að hafa frumkvæði að umræðum um skynsamlega lausn á þessum brennandi vanda. Hver sú lausn er skal ósagt látið hér, en launafólk má ekki fá á tilfinninguna að verkalýðshreyfingunni sé nákvæmlega sama - starfi eins og hver annar banki í gegnum lífeyrissjóðina.  Hin fjölmenna millistétt sem nú lætur að sér kveða undir forystu listamanna (hve úthaldsgóð hún verður er annað mál) virðist líta á hreyfinguna eins og ráðuneyti, eða seðlabanka eða hverja aðra stofnun. Því er líkast að félagslegur þáttur verkalýðssamtakanna sé horfinn - þá er sannarlega hætta á ferðum.

hágé.