Fara í efni

Er stjórnarandstaðan stressuð?

Leiðtogar stjórnarflokkanna keppast nú við að halda því fram að forsetinn hafi hlotið vonda kosningu – myndast hafi hyldjúp gjá milli Ólafs Ragnars og þjóðarinnar, forsetinn sé ekki lengur það sameiningartákn sem hann á að vera.

Hvaða gagn foringjar ríkisstjórnarinnar telja sig hafa af að gera lítið úr að ÓRG fékk yfir 80% gildra atkvæða en hamra á því að fimmtungur skilaði auðu og færri tóku þátt en áður, er vandséð. Hvað sem öllu líður er maðurinn rétt kjörinn forseti og nöldur útaf úrslitunum gersamlega tilgangslaust nema þá til að þjóna afleitri lund.

Ríkisstjórnin undirbýr nú aðrar kosningar sem gætu valdið henni miklu meiri vonbrigðum. Kannanir benda til að níu af hverjum tíu kjósendun hugsi sér að taka þátt í þeim og mikill meirihluti þeirra muni hafna fjölmiðlalögunum. Fari svo verður fróðlegt að fylgjast með hvernig herrarnir í stjórnarráðinu bregðast við. Eins og skiljanlegt er hljóta þeir að vera stressaðir mennirnir – það er jú annað en gaman að láta eyðileggja fyrir sér mikið hjartans mál.

Stjórnarandstaðan stressuð

Athygli vekur að stjórnarandstaðan virðist líka ákaflega stressuð í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þetta kemur fram í því að allar hugmyndir um reglur um skilyrði og kosningaþáttöku eru taldar atlaga að lýðræðinu. Á hinn bóginn verður varla séð að vangaveltur um að eitthvert lágmark kjósenda þurfi, annað hvort að taka þátt, eða að fella/samþykkja lögin séu andlýðsræðislegar í sjálfu sér – ekki fyrr en mörkin verða illyfirstíganleg. Að ætlast til 75% kosningaþáttöku væri ekki viturlegt en væri nokkru skárra að hafa engin mörk af neinu tagi þannig að niðurstaða fengist með örfáum prósentum? Varla. Allir kosningabærir menn eiga rétt á að kjósa um málið. Væri þá sanngjarnt að til dæmis 10 – 20% þeirra gætu ráðið örlögum laga sem þingmenn með 40-50% kosningabærra manna á bak við sig hafa samþykkt? Ég efast stórlega um að höfundar stjórnarkrárinnar hafi haft það í huga með 26. greininni.

Stjórnarandstaðan ætti að slaka meira á yfir þessum hugmyndum og kanna hvaða kostir kunni að felast í þeim. Segjum að sett verði almenn regla um að í svona tilvikum þurfi fleiri kosningabærir menn en ráðandi þingmeirihluti hefur á bak við sig að greiða atkvæði gegn lögunum til að fella þau. Í þeirri reglu felast gríðarleg tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna og reglan ætti að öllu jöfnu að hleypa geysilegu lífi í undirbúninginn og skapa kraftmikla kosningabaráttu. Þar að auki er hún rökrétt – samskonar meirihluti yrði þá á bak við samþykkt þings og höfnun/samþykkt þjóðarinnar. Andstæðingar laganna hlytu að beita sér af öllu afli fyrir þátttöku sem flestra til viðbótar við að halda fram neiinu. Atkvæðagreiðsla af þessu tagi yrði þá kosning um ríkisstjórnina og varla ætti stjórnarandstæðingum að þykja það verra eins og sakir standa.

Ekkert lágmark = marklaus úrslit?

Hvað myndu stuðningsmennirnir gera? Myndu þeir hvetja fólk til að sitja heima, eða skila auðu? Sjálfstæðismenn segjast að sönnu ekkert ætla að skipta sér af málinu en mun Morgunblaðið halda sig til hlés? Þegar til stykkisins kemur ættu stuðningsmenn laganna að hafa áhuga á að þátttakan í þjóðaraatkvæðagreiðslunni verði sem mest, ef ofangreint lágmark verður sett.

Að setja ekkert lágmark felur í sér þá hættu að atkvæðagreiðslan verði skrípaleikur og að úrslit hennar verði talin ómerkileg – allt of lítill hluti þjóðarinnar hafni lögum Alþingis. Jafnframt eykst þá þrýstingurinn á að stjórnarskránni verði breytt þannig að málskotsrétturinn verði skertur, en til þess þarf að vísu margra ára ferli. Að öllu samanlögðu ætti stjórnarandstaðan ekki að láta þolanlegar reglur fara í taugarnar á sér, heldur nota þau tækifæri sem þær gefa.

Það er svo allt annað mál að ef þjóðin fellir lögin hefur hún í raun samþykkt að ekki skuli settar reglur sem hindra samþjöppun á fjölmiðlamarkaði – sem leiðir svo til þess að Baugur getur eignast RUV þegar frjálshyggjumönnunum hefur tekist að einkavæða stofnunina. Varla hafa refir stjórnarandstöðunnar verið til þess skornir?
hágé.