Fara í efni

EFTIRMÆLI

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Háskóla Íslands hefur orðið að breyta hefðbundnum lofgreinum sínum um Davíð Oddsson í eftirmæli. Eins og gefur að skilja sér prófessorinn í hillingum langa ráðherrasetu Davíðs og að hætti hins fullkomna fræði- og háskólamanns eru ályktanir hans einfaldar og skýrar: gullöld Íslendinga síðasta áratuginn er snillingnum að þakka – hann er ekki bara óvenjulegur heldur einstakur. Prófessorinn hefur bent á að leiðtoginn hafi unnið að því af mikilli staðfestu allan sinn stjórnmálaferil að minnka völd sín sem hlýtur að leiða umsvifalaust til þeirrar ályktunar að því minni sem völd Davíðs Oddssonar eru þeim mun betur vegnar þjóðinni.

Undirritaður er ekki fræðimaður og getur því leyft sér það sem virðulegur vísindamaður við Háskóla Íslands getur ekki – að efast. Því er rétt að taka tvö mál hér til lítillegrar umfjöllunar en angi af þeim báðum svífur nú yfir vötnum þjóðfélagsins.

Snemma á síðasta ári fauk (aldrei þessu vant?) í forsætisráðherrann, Davíð Oddsson. Hann sá að fáir menn mundu sölsa undir sig umfangsmestu fjölmiðla landsins ef ekki yrði gripið í taumana og skellti fram í gríðarlegu fússi frumvarpi til fjölmiðlalaga sem takmarka átti samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Á sama tíma, og raunar bæði fyrr og síðar, héldu ráðherrann og skoðanabræður hans því fram, þar með talinn háskólapróffessorinn í stjórnmálafræðum, að forsetinn gæti ekki neitað að skrifa undir lög frá Alþingi og áttu einhver ósköp að gerast ef forsetinn vogaði sér slíkt. Samkvæmt kenningunum voru ákvæði í stjórnarskrá um málskotsrétt forseta bara sýndarbull, sem engum hefði nokkru sinni dottið í hug að gæti komið til framkvæmda.

Fjölmiðlar Baugs og stjórnarandstaðan urðu sameiginlega vitlaus yfir frumvarpinu og töldu það hefndarráðstöfun Davíðs við þá Baugsfeðga, setta fram í óþolandi geðvonsku eða óskiljanlegu hatri. Baugsmenn höfðu að sjálfsögðu rétt fyrir sér í því að frumvarpið hefði stórskert möguleika þeirra á að ná undir sig fjölmiðlunum og voru fjölmiðlar þeirra, einkum Fréttablaðið og DV, á móti. Stjórnarandstaðan sá aftur á móti bara geðvonskuna í ráðherranum en ekki efni frumvarpsins og var því á móti til að geta skapraunað ráðherranum enn meir. Stjórnarandstöðuna varðaði sem sagt ekkert um að örfáir aðilar gætu náð undir sig stærstum hluta fjölmiðlamarkaðarins ef hún bara gat skapraunað forsætisráðherranum og vinum hans sem allra mest og lengst.

Eftir margra mánaða pólitískan hamagang, annarsvegar í Baugsmiðlum og stjórnarandstöðu og hinsvegar í ríkisstjórnarliðinu þar sem hinir fyrnnefndu voru á móti fjölmiðlafrumvarpinu en með málskotsrétti forseta, en hinir síðarnefndu með fjölmiðlafrumvarpinu en á móti málskotsréttinum, stóð þjóðin á öndinni: Ætlar forsetinn að undirrita?

Ríkisstjórnarliðið, ekki síst Davíð Oddsson, gerði endurtekna atlögu að forsetaembættinu og sýndi forsetanum sjálfum ítrekaðan dónaskap. Þannig var skyndilega komin upp þessi furðulega staða: Davíð Oddsson og félagar hans ætluðu að gera fjölmiðlafrumvarp (að sönnu breytt um síðir) að lögum hvað sem það kostaði og forsetinn skyldi ekki dirfast að neita að undirrita það. Þetta er kallað að heyja stríð á tvennum vígstöðvum samtímis og hefur aldrei gefist vel. Hér leyfir undirritaður sér sem sagt að efast – gagnstætt háskólaprófessornum – um að stjórnviska leiðtogans hafi verið til fyrirmyndar enda voru vopnin einfaldlega slegin úr höndum hans í einni svipan: forseti Íslands undirritaði ekki lögin, fullkomlega eðlileg ráðstöfun eins og í pottinn var búið, forsetinn hlaut að svara fyrir sig og embættið.

Og hvað situr svo þjóðin uppi með núna? Jú nokkurnveginn þetta: Sömu aðilar – Baugur auðvitað – ráða ekki bara mörgum sjónvarpsstöðvum, blöðum og tímaritum – þeir ráða líka fjarskiptafyrirtæki og tölvuþjónustu (fyrir utan allt annað). Afleiðingin er sú að nú er komin upp ný tegund af tortryggni í samfélaginu. Hvernig stendur á því að tölvupóstur sem fer í gegnum netþjónustu hjá móðurfyrirtæki Fréttablaðsins lendir inná ritstjórn blaðsins? Og hvernig stendur á því að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins er á fundi með ritsjóra Morgunblaðsins til að leiðbeina um val á lögfræðingi í málaferlum gegn Baugi?

Niðurstaðan er þessi: Samþjöppun á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði er meiri en nokkurn gat órað fyrir. Einu gildir þótt DO hafi þannig ort glæsilegt öfugmælakvæði við takmarkalausa hrifningu háskólaprófessorsins – hitt er miklu áhugaverðara: Sér stjórnarandstaðan eitthvað athugavert við það hvernig komið er?

hágé.