Dagar Halldórs og okkar hinna
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég grein, sem birtist hér á vefnum, um þá hugmynd að einhverskonar vinstri dagar kynnu að renna upp hjá Halldóri Ásgrímssyni með haustinu. Ég játa að hugmyndin var í hæsta máta einkennileg og til vitnis um afar gamaldags skilning á Framsóknarþankagangi. Maður ólst upp við að Framsókn þreyttist annað slagið á nánu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, í flokknum væru alltaf einhverjir tiltölulega vinstri sinnaðir hópar sem vildu til dæmis ekki ganga of langt í að skerða velferðarkerfið og í eldri-gamladaga voru meira að segja hópar í flokknum sem voru harðir andstæðingar bandarískrar hersetu á Íslandi. Þessi sýn á flokkinn er gersamlega úrelt og verður jafnvel ekki komist hjá að biðjast afsökunar á að hafa tekið upp pláss á vefnum fyrir slíkt dellumak.
Halldór Ásgrímsson er orðinn forsætisráðherra og þegar búinn að gefa rækilega til kynna að hverju Framsókn stefni á næstu misserum og er af ýmsu að taka í þeim efnum. Þannig hefur hann sagt að menn eigi ekki að hafa áhyggjur af því þótt hann hafi fengið rangar upplýsingar í aðdraganda Íraksstríðsins. Þær hafi að vísu verið rangar en það skipti ekki svo miklu máli lengur. Nú sé rétt að horfa fram á veginn, heimurinn sé betri (fyrir hverja hefur ekki verið upplýst) eftir að Saddam var komið frá völdum og stungið á bak við lás og slá. Enginn efast um grimmd Saddams, enda koma nú í ljós nýjar sannanir fyrir því sem allir vissu um hrottalega stjórnarhætti hans. En að skrifa uppá almenna heimild fyrir Bandaríkjamenn, eða aðra, til að koma skúrkum heimsins frá völdum, nær auðvitað ekki nokkurri átt – geti þjóðirnar sjálfar ekki komið því í kring verður alþjóðasamfélagið að minnsta kosti að samþykkja það.
Nú eru aftur á móti engir herstöðvaandstæðingar í Framsókn og það sem meira er: ekki einu sinni merkjanlegir andstæðingar þess að formaður flokksins hengi þjóðina skilyrðislaust á stríðsvagn Bandaríkjamanna, og það án þess að tala við kóng eða prest. Þingflokkurinn er bara lukkulegur, hefur ekkert punktað hjá sér um málið, og naumast hefur orðið vart við að flokksfélög eða stofnanir flokksins hafi eitthvað við þetta tiltæki að athuga. Það þykir boðlegt að segja að Bandaríkjamenn hafi reynst okkur vel og okkur beri því siðferðisleg skylda til að styðja við bakið á þeim þegar á móti blási.
Það var og.
Hafi Roosevelt, Eisenhower, Clinton eða einhver annar Bandaríkjaforseti verið okkur innan handar hljóti Bush að eiga hönk upp í bakið á okkur, hann eigi því rétt á stuðningi við hverja þá heimsaðgerð sem honum detti í hug. Sennilega er þetta nútímaleg Framsóknarafstaða, enda er hún til marks um einfeldningslegan afdalaskilning á heiminum. Ofsatrúarmenn úr röðum múslima terrorisera heiminn og hitta fyrir heilt gengi af ofurhægrisinnuðum kristnum ofsatrúarmönnum í Bandaríkjunum, undir forystu Bush. Þessa dagana er að fara í loftið vestan hafs sjónvarpsmynd um forsetann þar sem honum er lýst sem Messíasi, sjálfur hefur hann oft gefið til kynna að hann geri aldrei neitt nema spyrja Guð fyrst. Með öðrum orðum - hann er að koma vilja Guðs í framkvæmd hér á jörðinni. Gott og vel – kristin gildi Nýja testamentisins eru meira og minna inngróin í vestræna menningu og hafa vissulega áhrif á afstöðu manna – en þegar leiðtogi öflugasta ríkis heimsins vinnur eftir fyrirmælum frá einhverskonar guðlegum öflum fer ábyrgðin á hinum veraldlega heimi út í veður og vind. Nútímalegum Framsóknarmönnum finnst svona nokkuð í góðu lagi enda þótt þeir eigi ekki frekar en aðrir nokkra möguleika á að kjósa það “guðlega” vald sem hvíslar í eyra Bandaríkjaforseta hvað beri að gera næst.
Skattalækkunarplön Framsóknar er annað mál sem vitnar um hversu skelfilega rangt ég hafði fyrir mér þegar ég taldi vinstri daga geta verið í sjónmáli hjá Halldóri Ásgrímssyni. Ríkisstjórnin boðar skattalækkanir uppá eina 20 milljarða á nokkrum árum. Nú er reyndar ekki vitað til að sérstök eftirspurn sé eftir skattalækkunum í þjóðfélaginu, en látum gott heita. Stjórarandstaðan hefur bent á að ef lækka eigi skatta sé skynsamlegt að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Það komi hinum tekjulægstu ekki síst til góða og hluta af þessum 20 milljörðum megi ná með þeim hætti. Nei, það er ekki hægt að mati Halldórs Ásgrímssonar, tekju- og eignaskattar skulu lækka fyrst – sem kemur tekjuháum og eignafólki fyrst og fremst til góða. Þegar því er lokið megi athuga hvort “svigrúm” sé fyrir lækkun matarskatts. Í þessu efni er Halldór kathólskari en páfar Sjálfstæðisflokksins, sem eru alveg til í að lækka virðisaukaskatt á mat að því er virðist. Skynsamleg hugmynd á borð við þá að færa það eina prósent sem tekjuskatturinn á að lækka um á næsta ári yfir á sveitarfélögin, og hækka þannig tekjur þeirra, nær ekki eyrum forsætisráðherrans. Gæti hann þó sem hægast haldið sínum plönum með því einfaldlega að lækka skattana til ríkisns meira að ári liðnu þannig að hann næði sinni 20 milljarða lækkun fyrir næstu kosningar, eins og hann hefur lofað.
Dagar Halldórs næstu misserin verða því engir vinstri dagar og dagar okkar hinna munu birtast með aukinni misskiptingu í þjóðfélaginu – hinir ríku verða ríkari en hinir fátæku ekki. Það er nútímaleg framsóknarmennska og er raunar af nákvæmlega sama stofni og pólitík hins guðrækna, hægri manns sem enn situr í stóli bandaríkjaforseta. Ekki leiðum að líkjast eða hvað?
hágé.