Fara í efni

MANNAUÐS-STJÓRNUN EÐA „ÞRÆLAHALD".

Það er sorglegt að átta sig á því að alþjóðlegir auðhringar, eigendur allrar stóriðju á Íslandi, sem hugsa fyrst og fremst um hagnað og gróðavon, fari miklu betur með sinn mannauð en opinberar stofnanir sem reknar eru að meirihluta til af almannafé. Mikil umræða hefur verið um styttingu vinnuvikunnar og sitt sýnist hverjum og veltur það aðallega á „hagsmunum" þeirra sem um fjalla eða á misskilinni hagsmunagæslu ákveðinna aðila. Það skal tekið fram að eftirfarandi samanburður er ekki gerður til að öfundast út í þá sem vinna í stóriðju eða til að grafa undan þeim réttindum og kjörum sem þar hafa náðst.

Vinnu­fram­lag op­in­bers starfs­manns

Sjúkra­liði í 100% starfi skil­ar af sér 173,33 vinnu­stund­um á mánuði að jafnaði eða 21,6 vökt­um á mánuði, ef unnið er á átta tíma vökt­um. Því miður hafa sjúkra­liðar ekki getað treyst því að vakt­irn­ar séu reglu­bundn­ar átta tíma vakt­ir þar sem marg­ir mis­vitr­ir vinnu­veit­end­ur hafa þvingað starfs­fólk á styttri „ak­korðsvakt­ir" þar sem álagið er gríðarlegt og laun­in jafn­framt lægst. Á heilu ári skil­ar sjúkra­liði að jafnaði 1.800 vinnu­stund­um þegar dreg­in hafa verið frá lög­bund­in frí. Það á við um allt op­in­bert vakta­vinnu­fólk. End­an­leg­ur fjöldi vinnu­stunda velt­ur á líf­aldri og þeirri reglu sem val­in er um hvernig bæta á fyr­ir vinnu­skyldu á al­menn­um frí­dög­um.

Vinnu­fram­lag stóriðju­starfs­manna

Vakta­vinnu­fólk í stóriðju (u.þ.b. 90% karl­menn) skil­ar hins­veg­ar 144 vinnu­stund­um á mánuði að jafnaði, eða 18 vökt­um á mánuði og þau geta treyst því að vakt­irn­ar eru átta tím­ar og einnig því að fá fulla vinnu. Á heilu ári skil­ar starfsmaður í stóriðjunni um 1.600 vinnu­stund­um þegar or­lof og vetr­ar­leyfi hafa verið dreg­in frá, en vinnu­tími stytt­ist með aukn­um líf- og starfs­aldri. Þetta ger­ir mis­mun í vinnu­skil­um allt upp í 25 vakt­ir. Þetta eru rúm­lega mánuði minni vinnu­skil en hjá sjúkra­liða. Starfs­menn í stóriðju hafa jafn­framt rétt á því við 55 ára ald­ur að stytta vinnu­skyldu starfs­árs­ins um 1 mánuð og aft­ur við 60 ára ald­ur um ann­an mánuð án skerðing­ar á líf­eyri.

Mannauður sjúkra­liða

Veik­indi sjúkra­liða sem starfa inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins eru á bil­inu 9-11% af vinnu­skyldu árs­ins, sem nem­ur u.þ.b. 25 vökt­um á ári. Stöðugildi sjúkra­liða hjá rík­inu eru um 770, af því leiðir í heild u.þ.b. 19.250 veik­inda­daga ein­ung­is hjá sjúkra­liðum sem starfa hjá rík­inu. Hver dag­ur kost­ar að meðaltali 24 þúsund krón­ur, sem ger­ir að vinnu­fram­lag að and­virði 462 millj­óna króna á ári fell­ur niður og tap­ast. Ekki er reiknað með viðbót­ar­kostnaði vegna af­leys­inga.

Land­spít­ali - há­skóla­sjúkra­hús, stærsti vinnustaður sjúkra­liða, kannaði m.a. starfs­ánægju sinna starfs­manna og þar kom fram að um 30% þeirra sem starfa á spít­al­an­um treysta sér ekki til að mæla með vinnustaðnum sín­um og ein­ung­is 40% eru sátt við launa­kjör sín. LSH gerði könn­un árið 2010 þar sem spurt var: „Er LSH aðlaðandi vinnustaður?" Í ljós kom að inn­an við helm­ing­ur, eða 47% þeirra sem unnu á þeim sviðum sem sjúkra­liðar störfuðu á, svaraði því ját­andi. Öll umræða um að fjölga ákveðnum heil­brigðis­stétt­um í námi, þ.m.t. sjúkra­liðum, og fá fleiri til starfa er inni­halds­laus að óbreytt­um starfs­kjör­um.

Mannauður í stóriðju

Gott heilsu­far og mik­il starfs­ánægja er hjá Isal/​Rio Tinto. Fram kem­ur í könn­un hjá fyr­ir­tæk­inu að veik­indi eru ein­ung­is um 4% á ári á stöðugildi sem ger­ir tæp­lega 8 vakt­ir á ári, sem er aðeins tæp­lega þriðjung­ur af veik­indatíðni sjúkra­liða.

Starfs­ánægja er mjög mik­il. Fram kem­ur í ný­legri könn­un að 90% eru ánægð eða mjög ánægð í starfi og ein­ung­is rúm­lega 3% óánægð. Það er auðvelt að álykta út frá þess­um upp­lýs­ing­um að reglu­fest­an varðandi vakt­ir, styttri vinnu­tími, eðli­legt vinnu­álag/​mönn­un og stytt­ing vinnu­skyldu með vax­andi aldri hafi mjög mikið að segja.

Heilsu­far sjúkra­liða

Styrkt­ar­sjóður BSRB og Virk end­ur­hæf­ing­ar­sjóður gefa reglu­lega út yf­ir­lit yfir þá sem þangað sækja stuðning. Stór hóp­ur þeirra er sjúkra­liðar sem hrein­lega eru komn­ir að fót­um fram. At­hygli vek­ur að í lang­an tíma hafa sjúkra­liðar verið 25% þeirra sem sækja um sjúkra­dag­pen­inga til Styrkt­ar­sjóðs BSRB, en eru á sama tíma ein­ung­is um 10% þeirra sem greiða í sjóðinn. Þess­ar töl­ur eru enn ein staðfest­ing þess hversu starf sjúkra­liðans er erfitt og slít­andi sam­an­borið við mörg önn­ur störf. Sjúkra­liðar eru 16,7% þeirra fé­lags­manna BSRB sem nýtt hafa sér þjón­ustu Starf­send­ur­hæf­ing­ar­sjóðsins VIRK þótt þeir séu aðeins 9,1% af fé­lags­mönn­um BSRB. Þörf­in er þannig nán­ast tvö­föld um­fram hlut­fall sjúkra­liða af heild­inni.

Nú­tíma þræla­hald

Það er eðli­legt að velta upp þeirri áleitnu spurn­ingu hvort ákveðnir starfs­menn inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins séu nú­tíma þræl­ar þar sem gengið er mjög nærri þeim á lægstu mögu­legu laun­um þar til eitt­hvað læt­ur und­an. Heils­an brest­ur, bæði and­leg og lík­am­leg, þegar unnið er í ár­araðir und­ir gríðarlegu álagi, starf­sem­in und­ir­mönnuð með þeim viðbót­arskaða sem vakta­vinna veld­ur. Lífs­gæði eru skert því starfs­um­hverfið er ekki fjöl­skyldu­vænt.

Staðan og kraf­an í dag

Það er rétt­mæt og skyn­sam­leg krafa sjúkra­liða og annarra op­in­berra starfs­manna að vinnu­vik­an verði stytt í 30-35 klst. og verði enn styttri við ákveðinn líf­ald­ur þar sem það hef­ur sýnt sig að það starfs­um­hverfi sem í boði er í stóriðju á Íslandi skil­ar ár­angri.

Það er ekki for­svar­an­legt fyr­ir hið op­in­bera, sem vinnu­veit­anda, að fara illa með sitt starfs­fólk. Bætt starfs­kjör skila ár­angri og hið op­in­bera mun fá um­rædda breyt­ingu marg­falt til baka í bættri heilsu sjúkra­liða og miklu meiri starfs­ánægju eins og hef­ur sýnt sig ann­ars staðar.

Höf­und­ur er fram­kvæmda­stjóri SLFÍ.