Fara í efni

TIL HVERS VAR BARIST?

Það sem rekur mig til að skrifa þér er nýgerður kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem að mínu mati er víti til varnaðar. Samningur þeirra sannar mér að það er ekki á hvers manns færi að höndla samningsréttinn frekar en að láta það eftir óvita að leika sér með hníf og skæri. Áhöld sem ekki eru barna meðfæri.

Samningsréttinn eins og hann er þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar það er óverjandi og nánast óviðunandi að hann sé óbreyttur. Það er ekkert sem réttlætir að einstök félög hafi umboð til að fást við þá hluta samninga sem varða heildina og grafa með gjörðum sínum undan samningum annarra. Það er mín skoðun og hefur verið lengi að umboðið til að semja  um einstaka þætti kjarasamninga eigi að vera á hendi heildarsamtaka en ekki einstakra félaga. Það er ekki á annarra færi en heildarinnar að semja um; vinnutíma, veikindarétt, tryggingar, orlof, eftirlaunaréttindi, lífeyrissjóði, fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur eða framlög til styrktarsjóða og starfsmenntunar.  

Verkin tala sínu máli, allar umbætur á þessum tilteknu þáttum hafa fengist fyrir skelegga baráttu heildarsamtaka en ekki einstaklinga eða einstakra stéttarfélaga.  Þeirra hlutverk ætti að vera  að annast röðun starfa í launaflokka, enda er það fullkomlega næjanlegt verkefni a.m.k. hjá félögum sem eru með tvískipta samninga aðalkjarasamning / stofnanasamning.

Kornið sem fyllt mælinn hjá mér er nýgerður samningu Fíh. Samningur sem gengur fullkomlega fram af mér. Með honum er samið um:

Styttri samningstíma og lægri laun

  • Samningur Fíh gildir frá 1. júlí 2008 - 31. mars 2009 eða í 9 mánuði. Flestir eða allir aðrir samningar höfðu gildistíma frá 1. maí 2008 og í a.m.k. 11 mánuði. Flesta munar um 20.000 til 40.000 kr. sem þarna munar á samningi Fíh og öðrum samningum sem gerðir hafa verið þessar vikurnar.

Lækkun yfirvinnu launa um 9% fyrir hverja klukkustund

  • Samningur Fíh felur í sér lækkun á yfirvinnu um u.þ.b. 9% á klukkustund. Í stað þess að yfirvinna skuli reiknast 1,0385% af mánaðarlaunum lækkar hún í 0,95% af sama stofni.

Verndarákvæði um undanþágu frá næturvöktum fyrir 55 ára og eldri fellt niður

  • Fíh samdi um að fella niður ákvæði um að 55 ára einstaklingur skuli undanþeginn næturvöktum óski hann þess. Réttur sem flestu eldra fólki er mjög hjartfólginn.

Felldar niður bætur vegna fyrivaralítilla breytinga á skipulögðum vöktum

  • Felldar eru niður eða rýrðar bætur vegna breytingar á skipulagðri vakt. Samkvæmt fyrri samningi fengu hjúkrunarfræðingar 2 klst. í yfirvinnu, ef vakt var breytt með 24 - 168 klst. fyrirvara þ.e. viku, en 3 klst væri vakt breytt með minna en 24 klst. fyrirvara. Samkvæmt nýgerðum samningi er þessi röskun á vakt/vöktum aðeins bætt með 1 klst. fyrir hverja vakt.

Lækkun á greiðslum vegna töku aukavakta á helgum og um nætur

  • Hjúkrunarfræðingar fengu greiddar 2 klst. viðbótargreiðslu í yfirvinnu fyrir aukavakt um helgar, á sérstökum frídögum eða um nætur. Samkvæmt nýgerðum samningi lækka þessar bætur í 1 klst.

Geðdeildarleyfi falla niður

  • Samkomulagið felur í sér sólarlagsákvæði á launuðu 64 klst. geðdeildarleyfi hjúkrunarfræðinga sem starfa á geðdeildum, og er bótalaust fyrir þá sem ráða sig síðar.

Í samningunum 2005  stóðu sjúkraliðar frammi fyrir gerðum hlut eins og nú. Hjúkrunarfræðingar höfðu samið um skerðingu á bótum fyrir vinnu vaktavinnufólks í matar og kaffitímum úr 25 mín. í 15. mín. Sjúkraliðar átti því ekkert undanfæri í samningunum en að semja um sömu skerðingu ættu þeir að  njóta sömu hækkunar á grunnlaunum og hjúkrunarfræðingar.

Sagan á eftir að endurtaka sig, sannaðu til. Vilji sjúkraliðar njóta sömu kjara og hjúkrunarfræðingar verða þeir að taka þeim með kostum þeirra og göllum. Breyting um 10 mín. vegna  skerðingar á matar og kaffitímum vaktavinnufólks 2005 lætur ekki mikið yfir sér. Þær fólu þó í sér u.þ.b. 10.000 kr. lækkun á mánaðarlaunum reynds sjúkraliða eða um 120 þús. kr. á ári. Þessi breyting er þó smámunir m.t.t. þess sem nú er að gerast.

Annað sem ég vil vekja athygli þína á Ögmundur er að í samningunum 2005 sömdu heildarsamtökin um endurskoðun á vinnutíma og vinnuumhverfi vaktavinnufólks. Af þeim sökum var ráðist í umfangsmiklar rannsóknir og kannanir á viðhorfum og reynslu vaktavinnufólks í starfi, ef af því mætti læra. Rannsóknir sem staðið hafa yfir allt samningstímabilið með tilheyrandi ráðstefnum og ráðslagi um það sem betur mætti fara. Ég held að allir sem að þessum rannsóknum stóðu hafi verið sammála um að þörf væri á verulegum umbótum varðandi vinnutíma, laun og önnur starfskjör og um endurskoðun á lífeyrisréttindum vaktavinnufólks. Því miður náðist ekki samkomulag um breytingar til bóta  á þessum þáttum í síðustu samningum og því borið við að samningstíminn væri skammur. Samningnum fylgdi þó bókun með fyrirheitum um að starfinu yrði haldið áfram og tíminn nýttur til frekari kannana.

Er nema von að maður spyrji? Hver eru skilaboð hjúkrunarfræðinga til samninganefndar ríkisins með gjörðum sínum?  Hver skilur þau, hvernig á að skilja þau? Er engin þörf á að skoða vinnuumhverfi, vinnu og heilsufar vaktavinnufólks. Var þetta allt í gamni eins og krakkarnir segja?

Að lokum vil ég nefna þér örlítið dæmi um raunverulegar afleiðingar misvísandi samninga. Eftir áralanga baráttu forustu SLFÍ hefur starfsfólk sem unnið hefur árum saman við aðhlynningu sjúkra öðlast rétt til að afla sér menntunar og starfsréttinda sjúkraliða á svonefndri „Brú". Áfangi sem er gleðilegur og  fullnægir metnaðarfullum einstaklingum til að afla sér menntunar og aukinna réttinda. Með stolti hefur þetta fólk verið að ganga til liðs við sjúkraliða, jafnvel með væntingar um að kjör þeirra skáni. En því miður er því ekki að heilsa í öllum tilvikum.

Að vísu hefur félagið náð samkomulagi um að enginn skuli lækka í mánaðarlaunum með aukinni menntun og inngöngu í Sjúkraliðafélag Íslands. Síðast í gær var ég að innrita í félagið Brúarsjúkraliða úr SFR. Hækkun hennar var liðlega 1.000 kr. á mánuði við inngöngu í félagið, ef ekki er tekið tillit til  þess að hún var í SFR sem ekki hafði samið um skerðingu á bótum vegna matar og kaffitíma úr 25 mín. í 15 mín.  Sé það reiknað með lækkar viðkomandi einstaklingur í fullu starfi um liðlega 9.000. - kr. á mánuði eða 108.000 á ári. Þrátt fyrir að vera raðað í hæstu laun sjúkraliða með sérverkefni í starfslýsingu E skv. samningum SLFÍ.

Til hvers var barist?  Spyr sá sem ekki veit.

Nú er mál að linni.

Bestu kveðjur og þakkir,
Gunnar Gunnarsson, f.v. framkvæmdastjóri
Sjúkraliðafélags Íslands.