Fara í efni

ÞEGAR MORGUNKORNINU OFBÝÐUR

Það var ósköp fallegur himinninn yfir Henglinum í morgun, enda vorið áreiðanlega komið.  En þar sem ég sat við eldhúsborðið svelgdist mér á frjálsa bandaríska morgunkorninu mínu.  Í útvarpinu var verið að tala við mann sem heitir að mig minnir Guðjón Ólafur og er oft í fjölmiðlum, alltaf kynntur sem varaþingmaður Framsóknarflokksins en virðist samt aðaltalsmaður flokksins í öllum málum.  Verið var að ræða m.a. um einkavæðingu Símans.  Og það sem olli þessum viðsnúningi í efsta hluta meltingarfæranna var að maðurinn sagði að með einkavæðingunni erum við að færa þessi fyrirtæki til almennings.  Ha, hvað sagðurðu - varð mér að orði  - en fékk ekkert svar en mér misheyrðist áreiðanlega ekki.

Eru þeir Björgólfsfeðgar almenningur, eru Baugsfeðgar fólkið í landinu, eru þeir Kaupþingsfélagar venjulegir bankastarfsmenn?  Nú myndi ég bölva ef ég hefði nógu sterk orð.  Að halda því fram að allir þessir grúpparar, að allir þeir sem þurfa að bæta Group við nafnið af því þeir eru svo fínir og taka upp milljarðkall þegar þeir fara út í sjoppu á laugardögum til þess að kaupa nammi, nema þeir kaupi sjoppuna í heilu lagi, að þeir séu almenningur, ja, þá er ég kóngurinn í Kína.

Einu sinni átti ég hin og þessi fyrirtæki og þótt ég skipti mér ekki af daglegum rekstri þeirra þá voru þau þarna og ég átti þau með öllu hinu fólkinu, fólkinu fyrir norðan, austan og vestan, fólkinu í Grímsey og Vestmannaeyjum.  Nú er hinsvegar svo komið að búið er að stela öllum þessum fyrirtækjum frá okkur, nánast ekkert eftir nema Síminn og svo auðvitað Ríkisútvarpið.  Það er búið að stela þeim endurtek ég því  aldrei hef ég samþykkt að þau fari á spottprís í hendur kjölfestufjárfesta sem er svo fínt að segja, í hendur þeirra sem í eina tíð voru kallaðir á hreinni íslensku arðræningjar; til mannanna sem sjást ekki fyrir í græðgi sinni og vilja allt sösla undir sig.

Og í þættinum sem ég nefndi áðan var líka hann Lúðvík alvöruþingmaður frá Samfylkingunni og sagði að hann gæti nú tekið undir margt það sem varaþingmaðurinn sagði, kratarnir eru alltaf samir við sig.  Fréttamennirnir líka ef út í það er farið, við verðum að einkavæða segja foringjarnir ábúðarfullir, já verður það ekki gert fljótlega stynja fréttamennirnir upp og maður heyrir lotningartóninn þegar þetta töfraorð kemur fram á varirnar.   Andaktugheitin eru ekki meiri þegar trúboði nefnir Guð almáttugan.

Erum við orðin svo gegnsýrð af þessari markaðshyggju, af þessari peningagræðgi, af þessari auðvaldshugsjón að öll félagshugsjón, samvinnuhugsjón eða sósíalismi eru horfin?  Þessi hugtök sem meira að segja Framsókn skreytti sig með hér áður og voru þar líka innan raða harðir hernámsandstæðingar.  Nú er það svei mér þá af öllum mönnum Alfreð Þorsteinsson sem manni finnst stundum að sé í forsvari fyrir þessi gömlu, góðu hugtök.

Við verðum að vona að enn finnist fólk meðal þjóðarinnar sem vill taka upp þessi gömlu gildi og berjast gegn því að við verðum í framtíðinni eins og gyllt fúlegg  á greinum peningatrés alþjóðaauðvalds.

Guðmundur R. Jóhannsson