Fara í efni

Guðjón Jensson: VERÐUR LANDSVIRKJUN TEKIN UPP Í SKULD?

Sæll Ögmundur.
Kostulegar voru yfirlýsingarnar frá klisjukarlinum í (banka-) kassanum nú á dögunum. Margt minnir á þegar hann var í hlutverki Bubba kóngs um árið og síðar þegar hann var borgarstjóri í Reykjavík: hann stóð í stríði við nágrannasveitarfélagið Kópavog út af Fossvogsbrautinni sem hann vildi leggja (sennilega allir mjög sáttir við að horfið væri frá því) og þáverandi ríkisstjórn með því að kynda rækilega undir verðbólgubálið á þann hátt að hann hækkaði gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur upp úr öllu valdi - og til að bæta gráu ofan á svart, að binda gjaldskrána við byggingavísitöluna. Ekki var undur að sjóðir Hitaveitunnar urðu mjög digrir, sérstaklega þegar þjónustusvæðið stækkaði mjög hratt en það var ákvörðun fyrri vinstrimeirihlutans í Reykjavík eftir olíuhækkunina 1979.

Ekki ætlaði eg að segja þessa sögu nánar þó fróðlegt sé að rifja upp. Þú þekkir hana sennilega betur sem fyrrum fréttamaður en ég sem ósköp venjulegur friðsamur borgari. En annað langar mig til að minnast á og okkur nær í tíma: Nú fyrir réttum 4 árum, fyrrihluta september 2002 var Davíð Oddsson sérstakur gestur Berlúskóni og naut gistivináttu þessa umdeilda forsætisráðherra í um hálfan mánuð. Fáum fréttum var veitt í íslensku fjölmiðlaumræðuna af för þessari en Davíð kvaðst heim kominn vera mjög ánægður. Það kom mörgum á óvart, að ítalskt fyrirtæki bauðst skyndilega til að ráðast í mjög umdeilda framkvæmd á hálendi Íslands. Fyrirtæki þetta, Impregíló virðist hafa ratað í ýmsar fjárhagslegar ógöngur sem eru mjög athyglisverðar. Ekki hafði það riðið feitum hesti frá umdeildum framkvæmdum í Lesóthó í Suður Afiríku, m.a. vegna mútumála sem urðu mikill fréttamatur í þann tíð.

Nú má vera freistandi að leggja saman tvo og tvo: var þessu fyrirtæki sigað á hálendi Íslands til að rétta það af fjárhagslega? Við þurfum að fá einhvern sérfræðing í fjármálum að fara í þessa sauma. Mér sýnist á heimasíðu Impregíló

(http://www.impregilo.it) að fjárhagslegur grundvöllur fyrirtækisins virðist enn vera nokkuð valtur þó forsvarsmenn fyrirtækisins beri sig vel og láti bjartsýnisljósið skína vel og vandlega.

Önnur mjög umdeild framkvæmd sem Impregíló kemur að er smíði brúar yfir Messínasund og þar hafa græningjar haft sitt hvað að segja, þeir eru alla vega ekki alveg sáttir við framkvæmdina.

Hlutabréf Impregíló hafa verið að hoppa upp og niður síðustu vikur og mánuði rétt eins og hlutabréfin braskaranna á Íslandi. Um þetta má lesa á t.d. á heimasíðunni: http://www.finanznachrichten.de/nachrichten-2006-03/artikel-6187318.asp

Gott væri að sérfræðingur í fjármálum athugaði þessi mál gaumgæfilega og gæfi þjóðinni skýrslu áður en yfir lýkur.

Annars er ég spenntur yfir því hvernig lokareikningur Impregíló verður fyrir að eyðileggja hálendið á Austurlandi. Fyrir um hálfum áratug lauk stóru verki í Kaupmannahöfn: Metró sem ítalskt systurfyrirtæki Impregíló tók að sér að grafa út og byggja. Lokareikningurinn hljóðaði upp á um fjórfalt upphaflegt tilboð. Danir komu auðvitað af fjöllum og skal engan undra slík undur. Ítalirnir bentu á, að útboðsgögnin hafi verið stórgölluð og verulega áfátt í öllum veigamiklum atriðum. Þeir hafi þurft að ráðast í mun umfangsmeiri framkvæmdir en reiknað hafði verið með í útboðinu. Þeir hefðu auk þess samþykktir umsjónarmanna Kaupmannahafnarborgar á öllum frávikum og viðbótum verksins. Þessi reikningur væri því réttur í öllum atriðum. Dönum féllst hendur, Kaupmannahöfn rambaði á barmi gjaldþrots en ríkiskassinn varð að hlaupa undir bagga og gangast í ábyrgðir fyrir greiðslum til verktakans.

Við eigum kannski digran ríkiskassa um þessar mundir en hvað ef skildingarnir sem í honum eiga að leynast þessa stundina skyldu ekki duga til, hvað þá? Verður Landsvirkjun þá tekin upp í skuld og verður þá ítalska töluð á Háaleitisbraut 68 eftir uppgjörið? Frávikin hafa verið mörg og þeir ítölsku munu ábyggilega bera fyrir sig áþekkar ástæður fyrir himinháum reikningum eins og í Kaupmannahöfn um árið. Við skulum vona að lögfræðingar Landsvirkjunar og ríkisstjórnarinnar hafi ekki sýnt af sér vítavert gáleysi og kæruleysi á sínum tíma þegar samið var um þetta umdeilda verk við þetta fyrirtæki sem hefur verið með stórframkvæmdir í Suðaustur Tyrklandi undir hervernd á áhrifasvæði Kúrda.
Bestu kveðjur,
Guðjón Jensson