Fara í efni

ER FÓLK FYRIR?

Nú stefnir í að kollvarpa eigi starfsumhverfi og réttindum læknaritara á Landspítala háskólasjúkrahúsi án nokkurs samráðs við stéttina. Ekki kemur á óvart að einkavæðing stéttarinnar sé auglýst í boði „skilvirkni" og „hagræðingar". Þetta er sama lumman og endurtekin hefur verið í hverju einasta einkarekstrar- og einkavæðingarmáli undanfarin ár. Er ekki löngu kominn tími til að sjá í gegnum þessar þreyttu tuggur og auglýsingabrellur „skilvirkra hagræðinga", brellur sem fela hinar grafalvarlegu staðreyndir, eins og til dæmis það að þetta vegur gróflega að fólkinu í landinu? Hvers eiga læknaritarar að gjalda?

Það er óþolandi að heil stétt á Landspítalanum skuli fyrst þurfa að lesa um það í fjölmiðlum að hana eigi að bjóða út - og jú, að ef þau missi vinnuna þá verði þau ef til vill ráðin annars staðar. „Þær" er kannski meira viðeigandi orð hér en „þau", þar eð læknaritarar eru í yfirgnæfandi meirihluta konur og sumar þeirra hafa starfað árum og áratugum saman við sína vinnu með miklum sóma. Þeim þykir skiljanlega að starfsheiðri sínum vegið þegar á að bjóða þær út án nokkurs samráðs. Þær virðast ekki hafa verið spurðar einnar einustu spurningar um málið.

Er slíkt boðlegt? Fer samráði ef til vill hnignandi frekar en hitt nú til dags? Hvað varð um samræðustjórnmál?

Því meir sem við tölum um samráð opinberlega og auglýsum það í rækilegum slagorðum þeim mun minna virðist verða af því í raun. Svo mikið er altént víst að samráð er ekki í tísku í hinum eiginlega veruleika, og raunveruleikinn er í engu samræmi við fagrar yfirlýsingar.

Nýleg dæmi um að á fólk sé ekki hlustað eru alltof mörg. Ekki þarf að líta lengra en til nýafstaðsins haustþings til að sjá að vinnubrögð sem þetta virðast alltof algeng og tíðkast ekki síður á hinu háa Alþingi, Alþingi sem á að heita vagga lýðræðisins í landinu.

Ef breytingar eiga að vera til góðs þarf að vanda til verka og einn þáttur þess að vanda til verka er sá að rætt sé við helstu sérfræðinga breytinganna, sem er jú m.a. fólkið sjálft sem fyrir þeim verður og hefur það fyrir starfa að vinna að þeim málum sem um ræðir. En í stað samráðs eru breytingar ítrekað keyrðar í gegn með valdboði að ofan. Í nýsamþykktum breytingum á stjórnarráðinu var t.d. ljóst að samráði við fólk innan mismunandi stofnana stjórnarráðsins var sárlega ábótavant. Svipuð vinnubrögð voru uppi á teningunum þegar margumtalað þingskaparfrumvarpið var keyrt í gegn. Þá var m.a. ekki haft fyrir því að efna til eins einasta fundar með talsmönnum Félags starfsmanna Alþingis, jafnvel þótt breytt þingsköp hafi augljóslega heilmikið með starfsmenn Alþingis að gera, þeirra vinnutíma, starfsskilyrði og daglegt líf. Fáir eru meiri sérfræðingar í leiðum til betra þinghalds heldur en einmitt starfsmenn þingsins, en við talsmenn þeirra var ekkert samráð haft.  Er þetta eðlilegt?

Er það að verða að vinnureglu að hafa ekki samráð við fólk, leita ekki eftir áliti, hlusta ekki eftir sjónarmiðum, heldur keyra hluti í gegn að ofan? Það er ekki nóg að tala um lýðræði heldur þarf að temja sér vinnubrögð lýðræðisins - og hvað merkir lýðræði annað en völd og rödd fólksins í landinu, læknaritara sem annarra?

Við höfum mýmörg dæmi þess að það að færa störf burt frá opinbera geiranum yfir í einkarekstur skili sér í lægri launum og versnandi starfsskilyrðum og, viti menn, minnkandi „skilvirkni" og minni „hagræðingu" fyrir samfélagið í heild sinni þótt vissulega græði tilteknir hagsmunahópar og fjárfestar. Trúarbrögð nýfrjálshyggju eru hins vegar svo yfirgnæfandi og svo sterk að allar aðrar leiðir til skilvirkni falla í skuggann. Reynslu annarra af óskilvirkni, sóun, versnandi kjörum og verri þjónustu við margvísleg einkavæðingarferli er ýtt til hliðar og bókstafstrúnni hrint í framkvæmd án samráðs. Er samráði kannski ýtt til hliðar einmitt vegna þess að samráð ógnar valdboði, reynslan ógnar trúarbókstafnum?

Hvor ætli hafi meiri þekkingu á starfsaðstæðum og skilvirkni í starfi læknaritara, Veritas Capital - eignahaldsfélag umboðs- og lyfjadreifingarfyrirtækja - eða læknaritarar sjálfir? Svo mikið er víst að ekki græða læknaritarar mikið á sínum góðu störfum, svo lág eru launin, en þeir hafa mýmargt til málanna að leggja í hugmyndasjóð um betri Landspítala. Af hverju voru læknaritarar ekki spurðir í þaula hvað mætti betur fara í þeirra starfsaðstæðum innan spítalans og hvað þeir héldu að væri besta leiðin fram á við? Eða eru þær bara einhverjar konur úti í bæ sem kemur málið ekki við?

Stefnan er skýr. Það á að nota fjárhags- og húsnæðisvanda Landspítala háskólasjúkrahúss sem afsökun fyrir frekari einkarekstur og einkavæðingu í stað þess að ráðast að rótum vandans. Nýsamþykkt fjárlög ríkisins þar sem sveltistefnu í garð Landspítalans er viðhaldið og stofnunin gróflega svikin er enn eitt dæmið um þetta. Kannast einhver við handbragðið?