Fara í efni

NÝJA VINSTRIÐ

Um þessar mundir er mikið gert úr því að vinstrihreyfingar séu í einhverskonar vanda, að þörf sé á hugmyndafræðilegri endurnýjun. Eins og venjulega koma þessi áköll frá hægri og fela í sér kröfu um að vinstrið hætti að vera til vinstri og verði hægrimenn eins og allir hinir. Það er reyndar eðlileg krafa ef maður hugsar stjórnmál út frá einvíðum hægri-vinstri skala, því á slíkum skala er eina mögulega hreyfingin yst frá vinstri einmitt til hægri. En við eigum ekki að vera hrædd við að tala um nýja vinstrið enda þarf það alls ekki að ganga út að gera málamiðlanir til hægri heldur getur það einmitt fólgist í meiri róttækni, eða róttækni á nýjum sviðum.

Við megum ekki gleyma því að í róttækri baráttu eru helstu sigrarnir alltaf stærstu ósigrarnir, eins þversagnakennt og það hljómar. Það er vegna þess að markmið andófsins er - að minnsta kosti að stórum hluta - að endurskilgreina sigra valdsmanna sem ósigra allra hinna. Þegar Íraksstríðið hófst var það í vissum skilningi ósigur fyrir þá sem börðust gegn því, en það var líka stórkostlegur sigur þessa sama fólks að stríðið var sjálft orðið að ósigri þeirra sem berjast fyrir réttlæti í heiminum. Róttæklingar sigra með öðrum orðum þegar þeim tekst að hafa áhrif á það hvað er sigur og hvað er ósigur - þegar þeirra ósigrar verða ósigrar alls almennings eða stórum hluta þess. Þess vegna erum við sem höldum okkur vísvitandi á jaðrinum alltaf í dálítið neikvæðri baráttu, alltaf í andófi, en aldrei beinlínis í vinningsliðinu.

Við skulum heldur ekki gleyma því að barátta af þessu tagi hefur ekki bara áhrif á fortíðina og skilning okkar á liðnum atburðum, heldur líka á stefnuna sem tekin er í framhaldinu. Ætli öflugasta vopnið gegn nýfrjálshyggjunni sem nú er að deyja út sé ekki einmitt ósigrar Thatchers, Reagans og Pinochets? Og hvar væri friðarbaráttan ef ekki væri fyrir hina stóru ósigra hnefaréttarins í Írak og Víetnam? Í stuttu máli er neikvæð og jafnvel vonlaus barátta gegn einhverju alltaf um leið jákvæð barátta með einhverju öðru, jafnvel þótt það komi ekki í ljós fyrr en eftir á nákvæmlega fyrir hverju var barist.

En snúum okkur þá að nýja vinstrinu. Það felst hvorki í nýjum baráttumálum né nýjum útfærslum á gömlum, heldur útvíkkun á því sem gamla vinstrið barðist fyrir þannig að það nái yfir fleiri svið þar sem ranglæti lætur á sér kræla. Þar með verður baráttan að vísu enn erfiðari og þyngri, því þá er skyndilega ljóst að það hallar enn meira á þá sem standa utan samfélagsins. En þá skulum við muna eftir sögu róttækrar baráttu, þar sem ósigrarnir eru alltaf stærstu sigrarnir og mestu erfiðleikarnir um leið árangursríkastir.

Eðli nýja vinstrisins endurspeglast vel í innflytjendamálunum sem fá sífellt meira vægi, bæði til hægri og vinstri. Það sem er svo áhugavert við umræðuna um innflytjendur er útilokunin sem þau verða fyrir, aðgreiningin sem gerð er milli okkar og þeirra. Sú útilokun er ekki aðeins efnahagsleg heldur líka menningarleg og félagsleg. Innflytjendur eru nefnilega gott dæmi um hóp fólks sem stendur ekki aðeins höllum fæti hvað laun og kjör varðar, heldur hallar líka á þá í menntun, félagslegri stöðu, þátttöku í samfélaginu, virðingu, öryggi og svo framvegis. Og á grundvelli þess að það hallar á þennan hóp er hann útilokaður - stundum meðvitað en oftast ómeðvitað - frá öllu því sem stendur hinum til boða, t.d. langri skólagöngu, opinberri umræðu og menningar- og listalífi.

Nýja vinstrið snýst að mínum dómi um að viðurkenna að ranglæti er margþætt - efnahagsleg ranglæti er aðeins einn þáttur af mörgum þótt hann skipti jafnan mestu máli. Það sést kannski best á því að um þessar mundir er að verða til ný stétt fólks sem hefur nóg af peningum milli handanna en er samt áfram hluti af lágstéttinni vegna þess að hann skortir „menningarlegt kapítal", menntun, virðingu í samfélaginu og annað slíkt. Þess er væntanlega ekki langt að bíða að innflytjendur fari að fylla þennan hóp. Nýja vinstrið þarf að fallast á þarna er verk að vinna.

En um leið ætti að halda fast í baráttumál gamla vinstrisins, enda er efnahagslegt réttlæti langöflugasta leiðin til að leiðrétta annað ranglæti. Því á sama tíma og við áttum okkur á því að ranglæti er margskonar megum við ekki gleyma því að ranglæti hefur ríka tilhneigingu til að þyrpast saman. Ef á mann hallar á einu sviði er það gjarnan annað hvort orsök eða afleiðing þess að það hallar á mann á öðru sviði. Þess vegna kemur óréttlætið í þyrpingum. Ef maður er lengi veikur hefur það oft þær afleiðingar að tekjur lækka og útgjöld aukast, sem veldur því svo að maður hefur minni möguleika á góðri menntun. Menntunarleysið lækkar bæði tekjur enn frekar og veldur því að möguleikarnir á að taka þátt í samfélaginu, hafa þar áhrif og njóta virðingar, minnka líka. Sem veldur oft líka kjaraskerðingu til lengri tíma. Og svo framvegis. Svona gengur þetta í allar áttar og oft í hringi.

Eitt brýnasta réttlætismál nýja vinstrisins er þá kannski að byggja múra á milli mismunandi tegunda af óréttlæti - sjá til þess að efnahagslegt óréttlæti valdi til dæmis ekki menningarlegu ranglæti. Það þarf að hugsa stjórnmál út frá hættunum sem felast í þyrpingu óréttlætis miklu frekar en því óréttlæti sem á sér stað innan hvers þáttar. Menningarlegt óréttlæti er kannski óhjákvæmilegt líkt og efnahagslegur ójöfnuður er ef til vill að vissu marki - en það er sem hættulegast er þyrpingamyndunin sjálf. Það er ekki markmið nýja vinstrisins að allir eigi jafn stór hús og jafn marga bíla, heldur er markmiðið að það hversu marga bíla þú getur keypt hafi ekki áhrif á það hversu mikla menntun þú getur útvegað þér eða hvort þú getir haft áhrif á samfélagið í kringum þig.