Fara í efni

ER EKKI SAMA HVAÐAN VONT KEMUR?

Um það leyti sem verið var að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skrifaði ég pistil um ótta minn við að þessi ríkisstjórn gæti gengið enn lengra í frjálshyggju en fyrri ríkisstjórnir. En ég tók líka skýrt fram að það væri ekki vegna þess að ég héldi að Samfylkingin væri svo hægrisinnuð. Það er miklu frekar vegna skorts á skýrri stefnu, afstöðuleysi gegn hægristefnunni sem Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa einfaldlega ekki tekið skýra afstöðu í mörgum af þeim málum sem mestu skipta.

Nokkrar einfaldar spurningar um helstu deilumál í íslenskum stjórnmálum afhjúpa þetta: Hver er afstaða Samfylkingarinnar til hernaðar, til einkarekinna sjúkrastofnana, til einkavæðingar almennt, til flatra skattalækkana eða til stóriðjustefnunnar? Það eina sem kjósendur fengu að vita fyrir kosningarnar í vor var hverjar útfærslur Samfylkingarinnar yrðu ef þau fengu ein að ráða, en það dugar skammt þegar flokkurinn þarf að taka afstöðu til þess sem aðrir leggja til (eins og alltaf gerist í ríkisstjórnarsamstarfi). Þá þurfa flokkar að byggja á hugmyndafræðilegum grunni sem kjósendur geta tekið afstöðu til.

Svo nefndi ég það líka í framhjáhlaupi að vegna þess að Samfylkingin kallar sig vinstriflokk þá sé auðveldara að dulbúa hefðbundin stefnumál hægrimanna sem „málamiðlanir" eða tæknilegar „lausnir á erfiðum viðfangsefnum". Ég hefði kannski átt að eyða meira púðri í þennan punkt vegna þess að eins og nú er komið í ljós hyggst Samfylkingin beita þessari aðferðafræði í öllum mikilvægustu málunum sem nú liggja fyrir í þinginu.

Í fyrsta lagi eru það „varnarmálin" (sem nær væri að kalla „árásarmál", enda hafa herir með stuðningi Íslendinga aldrei varist, bara ráðist á). Ingibjörg Sólrún segir að frumvarp hennar um „Varnarmálastofnun" og 1,5 milljarður sem fer í hernaðarleg verkefni  sé einfaldlega tiltekt í stjórnkerfinu, til að hernaðarlegi þátturinn í utanríkisþjónustunni sé ekki að þvælast fyrir henni annars staðar. Við séum nú einu sinni í NATO, þannig sé það bara, og verðum að gera sem best úr þeirri stöðu. Kannski áttar hún sig ekki á því sjálf, en með þessu frumvarpi er verið að festa NATO-aðildina í sessi, og í raun er þar með verið að klára það verkefni sem íslensku hægriflokkarnir byrjuðu á árið 1949 við ein kröftugustu mótmæli í sögu Íslands. Ísland hefur nefnilega aldrei verið fullur aðili að NATO, hefur til dæmis ekki borgað í Mannvirkjasjóð bandalagsins, og er í raun eins konar „súkkat" vegna þess einmitt að landið hefur verið herlaust - að minnsta kosti að nafninu til. Nú er verið að snúa af þeirri braut með því að gerast virkur aðili í NATO, til dæmis með því að sitja herráðsfundi eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Það leikur enginn vafi á því að framvarp utanríkisráðherra um „varnarmál" er mesta hervæðing í sögu Íslands síðan landið gekk í NATO fyrir tæpum sextíu árum síðan. Þetta er ekki „málamiðlun" eða tæknileg „lausn", heldur pólitík þess sem telur að hnefarétturinn eigi einn að gilda í alþjóðamálum.

Í öðru lagi er það framhaldið á stóriðjustefnunni. Þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn var að minnsta kosti bara verið að byggja eitt mengandi álvar í einu: Með Samylkinguna í ríkisstjórn er verið að undirbúa álver á Bakka, annað á Þorlákshöfn og olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Fagra Ísland, hvað? Össur Skarphéðinsson er ekki bara að framfylgja stefnunni sem sett var af Valgerði Sverrisdóttur undir heitinu „Lowest energy prices!!", heldur þrefaldar hann hana í leiðinni.

Í þriðja lagi eru það heilbrigðismálin. Tveir mestu frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum, Guðlaugur Þór og Pétur Blöndal, leiða stefnumótunina í átt að meiri einkavæðingu og einkarekstri - allt með dyggum stuðningi Samfylkingarinnar. Nokkrir áhrifamiklir læknar lýsa yfir vilja til að koma á heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem vilja borga fyrir sig sjálfa og enginn úr ríkisstjórn Íslands mótmælir, en sumir taka undir. Það er smátt og smátt verið að koma á tvöföldu kerfi í heilbrigðismálunum og Samfylkingin getur ekki sagt neitt vegna þess að eina stefnan sem hún hafði í þeim efnum var loforð um fleiri þjónustuíbúðir sem þegar var búið að efna. Engin afstaða til einkavæðingar og engin afstaða til heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem geta borgað aukalega.

„Það er sama hvaðan gott kemur" segja hægrikratar í Samfylkingunni stundum þegar þeir réttlæta einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Menn verða þá að vera sjálfum sér samkvæmir: Það er líka sama hvaðan vont kemur. Það er sama hvort það komi frá þeim sem gangast við því að vera frjálshyggjumenn með blæti fyrir áli og hernaði, eða hvort það komi frá hinum sem þora ekki að viðurkenna hvað þeir eru.