Fara í efni

TEKIÐ TIL Í KERFINU!

Stundum stendur valið á milli þess að senda frá sér ályktun eða grípa til aðgerða. Í þeirri stöðu vorum við nokkrar konur sem ákváðum að hreinsa til með táknrænum hætti í dómsmálaráðuneytinu síðasta föstudag. Það er full þörf á því að taka til hendinni þar eins og á fleiri stöðum í stjórnkerfinu. Baráttunni gegn mansali hefur verið haldið uppi af félagasamtökum síðustu ár og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Aðgerðaáætlanir hafa verið samdar, fundir haldnir með ráðherrum og fjöldi þingmála lagður fram í tilraun til að berjast gegn sölu á konum hér á landi. Fáir efast um að mansal þrífist á Íslandi og stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að vinna gegn því með undirritun alþjóðasáttmála. Óteljandi rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl mansals, vændis og klámiðnaðarins sem þó er látinn óáreittur. Í mars á síðasta ári voru samþykkt lög á Alþingi sem eru svohljóðandi:  Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Þetta getur varla verið skýrara en því miður rataði inn í lögin undanþáguákvæði sem reynir á nú fyrir dómstólum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sýndi það hugrekki að leggja til að Goldfinger í Kópavogi væri ekki veitt undanþága til að sýna nektardans, meðal annars á þeim forsendum að mansal þrifist í tengslum við nektardansstaði. Dómsmálaráðuneytið ákvað að ógilda þá tillögu og tekur þar með hagsmuni eigenda nektardansstaða fram yfir hagsmuni kynjajafnréttis og baráttuna gegn mansali. Stærri myndin er sú að jafnrétti kynjanna verður aldrei náð ef litið er á konur sem söluvöru. Fyrsta skrefið í því að uppræta slíka sölumennsku er að stjórnvöld leggi ekki blessun sína yfir sölu á konum eða veiti slíkri starfsemi lagalegt skjól. Þrátt fyrir alþjóðlegar skuldbindingar um að vinna gegn sölu á konum hefur dómsmálaráðherra ekki sýnt sérstakan vilja til að láta verkin tala hér heima. Það er ekki nóg að halda andlitinu fyrir félögunum á alþjóðavettvangi, það verður að vera innistæða fyrir loforðunum. Það er greinilega ýmislegt óhreint í gangi í dómsmálaráðuneytinu og full þörf á að hreinsa út úr hornum.