Fara í efni

STÉTT OG KYN

Það er klassísk umræða meðal vinstrisinna hvernig samspili stéttabaráttu og kynjabaráttu skuli hagað. Um þetta rökræddu Clara Zetkin og Lenín og umræðan hefur dúkkað upp við og við, síðast á þessum vettvangi. Í mjög einfaldaðri söguskýringu hlýtur kvennabaráttan að hafa sprottið upp vegna þess að baráttan fyrir stéttlausu þjóðfélagi var kynblind. Þessi blinda, eða skulum við segja sjóndepurð, lýsir sér best í því að kvenfrelsið átti að koma af sjálfu sér þegar hið sósíalíska samfélag yrði að veruleika. Ekki var tekið tillit til kyns í baráttunni, enda henni stjórnað af körlum og hún miðuð út frá þeirra veruleika sem hið ráðandi kyn. Konur fundu að þær voru ekki kúgaðar fyrst og fremst vegna stéttar sinnar heldur ekki síður vegna þess að þær eru konur. Baráttan átti að vera í höndum karlanna sem ætluðu að sjá til þess að konurnar fengju réttlæti samhliða þeim. Grundvallarsýn kvennabaráttunnar er hins vegar að konur hafa alltaf verið „hitt kynið“, fengið svona að fljóta með í baráttunni. Uppreisnin gegn þessu er krafan um kvenfrelsið. Því miður kristallast þessi viðhorf um hitt kynið ennþá innan verkalýðshreyfingarinnar – konur hafa ekki fundið sig þar innan dyra eða ekki fengið tækifæri til að sýna kraft sinn. Þetta sést best í kvennafæðinni í framvarðasveit hreyfingarinnar miðað við hlutfall þeirra sem félaga – konur hafa ekki enn komist að samningaborðinu. Sömuleiðis kristallast þetta í þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram í pistlum á þessari síðu, að konur eigi að einbeita sér að stéttabaráttunni í stað kvennabaráttunni. Þegar konur fá þessi skilaboð er ekki skrýtið að þeim finnist sér ofaukið í baráttunni.

Alltaf þegar kvennabaráttan rís hátt verður andstaðan við hana og gagnrýnin líka sýnileg og konur eru settar í þá stöðu að verja baráttuna og  púðrið sem fer í hana. Því miður gerist þetta jafnt meðal sósíalista og kapítalista. Í einstaklingsmiðaða samfélaginu okkar er sjónum núna beint að körlunum sem eru á tekjubotninum og afanum sem þorir ekki lengur að knúsa barnabörnin sín af því femínistar  fara offari í að benda á ofbeldi sem kynbundið fyrirbæri. Að ógleymdum öllum drengjunum sem eiga erfitt uppdráttar í skólakerfinu og hætta í námi. Ekki skal gera lítið úr þessum vandamálum en hins vegar verðum við að sjá heildarmyndina – og það er ekki síst hlutverk félagshyggjufólks að benda á hana. Karlar eru ennþá með 40% hærri tekjur en konur og hefur þetta hlutfall ótrúlega lítið breyst síðustu 30 ár þrátt fyrir þjóðsögur um annað. Eðli tekjumunarins hefur breyst, hann er falinn í bílastyrkjum og óunninni yfirvinnu en ekki í kynjuðum töxtum eins og áður var. Sama hvað konur rembast við að mennta sig þá fá þær ekki sömu laun og karlar og menntun þeirra er minna metin en karlanna. Háskólar eru fullir af konum að reyna að hífa upp skammarleg laun með því að afla sér aukinnar menntunar, en hún skilar sér einfaldlega ekki. Þetta er orðin svo gömul tugga að hún er varla með bragði lengur, þess vegna verður að halda þessu til haga.  

Þegar dregin er upp tölfræði sem þessi er einmitt verið að benda á að eitthvað er ekki í lagi í samfélaginu. Ástæða þess að svona illa hefur gengið að fá jöfnuð meðal karla og kvenna er að mismununin er innbyggð í kerfið. Þar með er ekki verið að segja að það séu ekki til hátekjukonur eða lágtekjukarlar. Vissulega er þetta til, alveg eins og það eru til konur sem beita karla ofbeldi – hitt er bara svo miklu algengara að við getum talað um kynbundið ofbeldi og kynbundna mismunun á launamarkaði. Konur sem kyn eru kúgaðar heima og heiman þó að því fer fjarri að hver einasta kona sé kúguð eða hver einasti karl njóti forréttinda.

Hvort sem við tölum um stétt eða kyn er baráttan fyrir jöfnuði. Ef markmiðið er hið sama hljóta aðferðirnar að nærast hver á annarri ef við berum gæfu til að halda gagnrýninni í lágmarki. Að stilla þessu upp hvert á móti öðru er hvorugu til framdráttar og óþarfi að eyða orku í að véfengja og verja á víxl.

Drífa Snædal