Fara í efni

SAMFYLKINGIN SKERÐIR LAUN KVENNA-STÉTTA

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er tekið fram að: „minnka [skuli] óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming fyrir lok kjörtímabilsins.....Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera...". Þetta eru metnaðarfull og falleg markmið þangað til ljóst er hvernig eigi að fara að þessu. Það er nefnilega ýmislegt í stöðunni ef minnka á kynbundinn launamun hjá hinu opinbera. Það er hægt að hækka hefðbundnar kvennastéttir, það er hægt að afnema óunna yfirvinnu og bílastyrki, en í þeim felst stór hluti af launamuninum. Það má aflétta launaleynd þannig að fólk hafi möguleika á því að gera athugasemdir ef þeim er mismunað eftir kyni og síðan er náttúrulega hægt að fara leið Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar; að flytja lægst launuðu kvennastörfin frá hinu opinbera og minnka þannig kynbundinn launamun hjá hinu opinbera. Þessi leið er án efa ódýrust, það þarf þá ekki að hækka laun á meðan og tölfræðin lítur betur út hjá hinu opinbera. Alger snilld, nema náttúrulega fyrir þær konur sem enn er mismunað, því þeirra staða versnar ef eitthvað er. Það er alveg ótrúlegt að horfa upp á það að flokkur með kennir sig við jöfnuð vanvirði heila stétt með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að síðustu daga og vikur. Þingmaður flokksins kallaði störf læknaritara „vélritunarstörf" sem sýnir algera yfirborðsþekkingu á störfum læknaritara og skilningsleysi á mikilvægi þeirra innan heilbrigðiskerfisins. Yfirlýstur tilgangur þess að útvista störfum læknaritara frá Landspítalanum er að spara, en vandséð er hvar hægt sé að spara á öðrum stöðum en í launum ritaranna og réttindum þeirra. Ætlar Samfylkingin í alvöru að styðja það að heilbrigðisráðherra skerði laun og réttindi kvennastéttar?