Fara í efni

ÓTRÚLEGUR ÁRANGUR Í KVENFRELSI Á EINU ÁRI

Í öllu fárinu undanfarnar vikur og mánuði má ekki gleyma þeim árangri sem þessi ríkisstjórn hefur náð á sviði kvenfrelsismála. Baráttumál sem hafa verið í umræðunni í áratug hafa loksins komist í gegn og oft hefur verið tilefni fyrir róttæka femínista að opna svo sem eina freyðivín síðasta árið. Sú vegferð sem Kolbrún Halldórsdóttir hóf fyrir tíu árum síðan skilaði árangri á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar með samþykkt vændiskaupalaganna. Hlutur kvenna við stjórnun landsins hefur aukist til muna og skemmst er að minnast samþykkt frumvarps um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og fleira er á döfinni. Þetta segir þó ekki alla söguna og við megum ekki falla í þá gryfju að telja bara hausana á konum og körlum og gleyma hinni raunverulegu innistæðu. Hvernig eru mál meðhöndluð og er virkilegur vilji til að breyta stöðu kvenna sem standa höllum fæti í samfélaginu kynferðis síns vegna.

Prófsteinninn að mínu mati er hvernig ríkisstjórnin fer með velferðarmál sem öryggisnet en ekki síður sem atvinnuvettvang kvenna. Innan velferðarkerfisins vinna þær konur sem eru lægst launaðar og við eigum mikið undir því að velferðarkerfið verði ekki skorið niður meir en nokkur nauðsyn er. Í kapítalíska kerfinu sem allt um lukti í tvo áratugi var rekin atvinnustefna algerlega á forsendum karla. Mengandi stóriðja, mislæg gatnamót, virkjanaframkvæmdir og allt hitt sem var gert í þágu atvinnu var í þágu atvinnu karla fyrst og fremst. Þessi ríkisstjórn hefur sem betur fer sýnt tilburði til að styrkja smá og meðalstór fyrirtæki með ívilnunum til sprotafyrirtækja. Þetta kemur atvinnurekstri kvenna til góða enda hefur sjaldan verið meiri gróska í smáum fyrirtækjarekstri kvenna.

Ein er sú kona í ríkisstjórninni sem verðskuldar sérstakt lof fyrir framtak sitt í þágu kvenna og er það Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. Að öðrum ólöstuðum er það henni að þakka að fyrsti dómur í mansalsmáli gekk 8. mars síðastliðinn en hún viðurkenndi nauðsyn þess að setja fjármagn og mannafla í þá rannsókn og vitnavernd sem þurfti til. Það er nefnilega ekki nóg að setja lagarammann það verður að vera vilji innan kerfisins til að framfylgja honum líka og meðtaka mikilvægi þess að ofbeldi karla gegn konum sé ekki liðið. Þetta gerði Ragna og með því er Ísland aðeins fjær því að vera griðastaður ofbeldismanna. Nú bíðum við bara eftir fyrsta dóminum yfir mönnum sem kaupa sér aðgang að líkama kvenna