Fara í efni

AÐ GAMBLA MEÐ VELFERÐ OKKAR ALLRA

Það er fullkomlega óáhugavert hvort við stöndum með Davíð Oddssyni eða Jóni Ásgeiri í uppgjöri síðustu daga. Við megum ekki láta troða okkur í þá skítaholu að taka afstöðu  með mönnum sem bera báðir ábyrgð á ástandinu. Davíð fór fremstur í flokki einkavæðingarinnar og lét bankana fyrir lítið fé vegna hugmyndafræði sem hefur úrelst hraðar en mjólkin í ísskápnum síðustu daga. Þá talaði Jón Ásgeir ekki um bankarán, en einkavæðing ríkisbankanna var sennilega stærsta bankarán Íslandssögunnar ef við ætlum að metast á annað borð. Jón Ásgeir tók glaður þátt í breyttu umhverfi sem gerði honum kleift að höndla með milljarða til og frá og hagnast á ógnarhraða. Jón Ásgeir, Björgúlfarnir, Bjarni Ármannsson, Þorsteinn Már og aðrir bubbar nýttu sér til hins ýtrasta lágmarks regluverk í anda nýfrjálshyggjunnar ásamt einkavæðingu ríkisstjórnarinnar og biðu svo hungraðir eftir fleiri gjöfum frá almenningi í formi orkufyrirtækja og annarrar grunnþjónustu.

Á meðan við vorum að koma upp göngudeildum á Vogi fyrir spilafíkla sem töpuðu fáeinum milljónum í spilakössum á vegum mannúðarsamtaka voru aðrir og hættulegri spilafíklar að gambla með velferð okkar allra. Þessir menn kveinka sér sáran í fréttum kvöld eftir kvöld yfir óréttlæti heimsins en einhvern veginn er erfitt að finna til samúðar. Hugurinn er hjá almenningi sem þarf, eins og alltaf, að taka afleiðingunum. Við horfum fram á stórfellda skerðingu á lífsgæðum vegna óráðsíu þessara manna. Verðbólgan fer upp úr öllu valdi, gengið hrynur - lán snarhækka og vörur sömuleiðis. Til lítils er að segja að almenningur geti sjálfum sér um kennt þegar allt umhverfið hefur í mörg ár öskrað á fólk að taka fleiri lán og neyta meira. Vissulega er ástandið að hluta til afleiðing ástandsins á heimsmarkaði en það er sláandi hvað við erum í lélegri stöðu til að taka á vandanum. Í þessari krísu eru bankastjórar beðnir af fulltrúum okkar almennings að sitja vinsamlegast áfram í sínum sætum. Er ekki kominn tími til að skipta spilafíklunum út og láta ábyrgari aðila taka við stjórn?