Fara í efni

Bútsja, rússaandúð og stríðsáróður á RÚV

 

Í tilefni af ársafmæli Úkraínustríðsins gaf RÚV/Kveikur (28/2) okkur sína innsýn í þetta stríð, sögur af þjáningum Úkraínumanna, í borgunum Kiev, Kharkiv og Bútsja og ekki síður myndrænar sögur af framferði Rússa í stríðinu, ekki síst í síðastnefndu borginni. Seint verður of mikið gert úr djúpri þjáningu Úkraínu í þessu stríði. Ekki ætla ég að reyna að leggja mat á hernaðaraðferðir og framferði Rússa í hinu löglausa árásarstríði þeirra. Hinu vil ég slá föstu að framsetning Ingólfs Bjarna Sigfússonar var stríðsáróður af vondri gerð og stríðsæsingaráróður.

Fréttir af óhæfuverkum óvinarins gegn saklausum borgurum er lykilþáttur í stríðsáróðri. Það gildir um allar íhlutanir og stríð sem Bandaríkin hyggja á við önnur lönd að hernaðurinn er undirbyggður með fréttum af óhæfuverkum andstæðingsins: Persaflóastríðið (hermenn Saddams ráðast inn á fæðingardeildir í Kúwait og rífa nýfædd börn úr súrefniskössum til að deyja þar), Júgóslavía (allt að 50 þúsund bosnískum konum og stúlkum nauðgað af Bosníuserbum), Afganistan (Tvíburaturnarnir), Líbía (Gaddafí útbýr hermenn sína með viagra til að fremja hópnauðganir), Sýrland (fjöldamorð á friðsömum mótmælendum í Daraa, eiturgasárás í Douma), allt voru þetta útmáluð grimmdarverk sem kölluðu á bandaríska íhlutun til að stöðva: Já, hér er við slík ómenni að eiga sem skilja ekkert annað en tungumál vopnanna! Og í Úkraínu voru það atburðirnir í bænum Bútsja sem öðru fremur gegndu þessu hlutverki, að kynda undir heilagri reiði og stríðsæsingi Vesturlandabúa og örva vopnasöfnun þeirra og vígbúnað gegn Rússum.

Með innrásinni fyrir ári síðan virðist Pútín og co hafa ætlað að þvinga Úkraínu ásamt bakmönnum til samninga, m.a. með því að ógna Kiev. Mótstaðan varð hins vegar meiri en Rússar reiknuðu með og fljótlega drógu þeir saman sókn sína, m.a. frá Kievsvæðinu. Skammt frá Kiev er bærinn Bútsja sem var hernuminn að mestu í 2-3 vikur í mars fyrir ári síðan. Frá og með 2. apríl, þremur dögum eftir að Rússar yfirgáfu bæinn, flugu út fregnir um heim allan um „hundruðir líka rotnandi á götunum Bútsja.“ Margir voru bundnir á höndum. Vitnað var í borgarstjóra Bútsja, Fedoruk: „Við höfum grafið 280 manneskjur í fjöldagröfum… Allt þetta fólk var skotið í hnakkann, drepið… almennir borgarar í bænum okkar hafa verið meðvituð skotmörk rússneskra hermanna, í sannleika fjöldamorð.“ (Aljazeera 2. apríl 2022) Washington Post skrifaði að „Rússar höguðu sér ekki sem menn heldur sem villimenn… [Rússar] gerðu borgina að vettvangi blóðíþrótta.“ (WP 6. apríl 2022)

Það voru fleiri sögur frá Bútsja sem flugu um lönd og álfur eftir brottför Rússa. Önnur heimsfrétt fyrstu dagana í apríl var af fjöldagröf með yfir 100 líkum. CBS News talaði um það sem „…fjöldamorð óbreyttra borgara með fjöldagröf aftan við Kirkju Heilags Andrésar.“ Fleira ljótt fór í loftið, Ludmyla Denisova mannréttindafulltrúi ríkisstjórnarinnar í Kiev lýsti yfir: „Um 25 konum og stúlkum á aldrinum 14 til 24 ára var kerfisbundi nauðgað meðan á hernáminu stóð í kjallara einum í Bútsja. Níu þeirra eru óléttar.“ (BBC News 11. apríl 2022) Sem sagt fjöldaaftökur á götum úti, fjöldagröf, fjöldanauðganir; og samanlagt gaf þetta mynd í líkingu við aðfarir Þjóðverja í Sovétríkjunum fyrir 80 árum.

Fréttaflutningurinn frá Bútsja varð afgerandi í því að blása að glæðum rússahaturs og stríðsæsings á Vesturlöndum. Á sama tíma, í mars og apríl, áttu sér stað samningaviðræður milli Rússa og Úkraínu fyrir milligöngu Ísraels og svo Tyrklands, og aðilar voru nálægt því að ná samningum. Naftali Bennett þáverandi forsætisráðherra Ísraels sagði nýlega að Bandaríkin hefðu þá «hindrað» friðarferlið svo það stöðvaðist. https://news.antiwar.com/2023/02/05/former-israeli-pm-bennett-says-us-blocked-his-attempts-at-a-russia-ukraine-peace-deal/ Það er alveg ljóst að Bútsjasögurnar réðu miklu í því að stöðva mögulegt friðarferli og auðveldaði leikinn fyrir þá sem vildu „hindra“ að samið væri við Rússa. Þegar Zelensky mætti til Bútsja 4. apríl sagði hann við fréttamennina: „Það er mjög erfitt að eiga í samningaviðræðum [við Rússa] þegar þú sérð hvað þeir gerðu hérna.“ (Wall Street Journal 4. apríl 2022). Með öðrum orðum, Bútsja girðir fyrir frekari samningaviðræður.

Aldrei hefur farið fram nein óháð rannsókn á því hvað gerðist í Bútsja í mars og byrjun apríl. Rússar reyndu ákaft fyrst á eftir að fá Öryggisráðið kallað saman vegna málsins (ég held í eina sinn í stríðinu sem þeir hafa heimtað að ráðið kæmi saman út af fréttaflutningi), en Bretar sem voru þar í forsæti sáu um að það yrði ekki. Engin óháð rannsókn eða sannanir. Reyndar birtu New York Times o.fl. gerfihnattarmynd sem sýndi lík á götu í Bútsja frá því tveimur vikum fyrr, en myndin sýndi 6 lík og sannaði ekkert um þá 412 sem úkraínsk yfirvöld sögðu að Rússar hefðu drepið. Varðandi nauðganirnar í Bútsja gerðist reyndar það að mannréttindafulltrúi Úkraínu, Ludmila Denisova, sem mest bar út þær sögur var rekin úr starfi af þinginu í Kiev mánuði síðar einkum af því úkraínskir lögmenn og blaðamenn vildu fá sönnunargögn um nauðganirnar, en hún hafði þær þá ekki handbærar. En fjöldamorðin og aftökur almennra borgara í Bútsja urðu mikilvægur hluti af „opinberu sögunni“ um Úkraínustríðið.

Margir hafa velt fyrir sér tímarás atburðanna í Bútsja. Rússar yfirgáfu borgina 30. mars. Þann 31. mars fagnaði borgarstjórinn Fedoruk því í vídeoávarpi á Facebook að Rússar hefðu hypjað sig og minntist ekki á fjöldamorð. Þann 1. apríl talaði hann við ráðhús bæjarins og minntist enn ekki á fjöldamorð. Fyrst að kvöldi 2. apríl birtust götumyndirnar og frásagnirnar af fjöldamorðunum. Á þessum þremur sólarhringum gerðist fleira. New York Times gat þess 2. apríl að úkraínskur herafli hefði aftur tekið bæinn og nefndi sérstaklega að Azov battallion (hægriöfga-herdeild) hefði verið þar á meðal.

Hver hagnast á myndunum frá Bútsja? Spyrja má hversu gáfulegt hefði verið fyrir Rússa sem þóttust vera komnir sem frelsarar til Úkraínu að standa fyrir fjöldaaftökum á óbreyttum borgurum á götum úti á fyrstu vikum hernámsins, hvað þá skipulegum fjöldanauðgunum. Áróðurslega mjög heimskulegt. Úkraínskir þjóðernissinnar (og stjórnvöld) bera hins vegar haturshug til úkraínskra borgara sem eiga í vinsamlegum samskiptum við Rússa, og voru mjög líklegir til að vilja jafna um þá eftir að rússneska rússneska hernámsliðið yfirgaf Bútsja. Þeir höfðu jafnframt allan hag af að því að flagga grimmdarlegum viðskilnaði Rússanna. Áróðurslega mjög sniðugt. Annars þurfum við einfaldlega að bíða og vona að þessir glæpir verði einhvern tíma upplýstir af óháðum rannsóknaraðila.

Nú sendir RÚV sinn mann til Úkraínu, Ingólf Bjarna Sigfússon. Í Kiev talaði hann einkum við Íslending einn og fjölskyldu hans um reynslu þeirra, og er ekkert nema gott um það að segja. Síðan fer hann í „guided tour“ til tveggja borga sem Rússar höfðu hernumið en bakkað frá, Kharkiv – og Bútsja. Heimsókn hans til Bútsja átti að segja okkur hvers konar stíð Rússar heyja. Hann tók fyrir götufjöldamorðin margumræddu og svo fjöldagröfina við kirkju Heilags Andrésar. Hann sleppti að tala um fjöldanauðganirnar.

Fyrst voru það götufjöldamorðin. Ingólfur Bjarni birti aftur myndirnar heimsfægu frá 2. apríl í fyrra. Og fór með þennan texta: „Þegar Úkraínumenn hröktu árásarherinn á brott blasti við þeim skelfing: Lík almennra borgara á götum úti, stundum með hendur bundnar saman og svo að sjá að fólkið hefði hreinlega verið tekið af lífi.“ Hann velti ekki vöngum yfir því hver hefði hefði framið ódæðið. Það átti líklega að segja sig sjálft og myndirnar væru næg sönnun. Sem þær eru ekki.

Næst var Ingólfi Bjarna vísað til prests í Kirkju Heilags Andrésar, sá heitir Andrei Halaven (? heyrðist mér), og ræddi við hann. Það viðtal var reyndar mjög athyglisvert. Andrei prestur minntist ekki á götuaftökurnar sem skóku heiminn í fyrra. Hann nefndi hins vegar einhverjar myndir sem „sýna að Rússar markvisst skutu á bíla almennra borgara“ þannig að „margir lágu í valnum á götunni“. Kannski átti þetta að útskýra „fjöldamorðin“ og líkin öll á götunni sem vídeónyndirnar sýndu og Fedoruk borgarstjóri hafði talað um, en það skýrir ekki skotgötin í hnakkanum („allt þetta fólk var skotið í hnakkann“ sagði borgarstjórinn), né skýrir það bundnar hendur þeirra.

Fjöldagröfin frá í fyrra með 116 líkum reyndist ekki heldur vera tengd neinum „aftökum“. Skýring séra Andreis á henni var sú að „þar sem kirkjugarður borgarinnar liggur utan borgarmarkanna var ómögulegt að komast þangað. Þann 10. mars spurði borgarstjórinn [Fedoruk] hvort það væri mögulegt að grafa tímabundið fólkið sem lá í líkhúsum og á götum borgarinnar. Ég sagði auðvitað já við því“, sagði prestur. Það má ímynda sér að sagan um „aftökurnar“ á götunni hafi mætt gagnrýni heima fyrir líkt og sögurnar af „fjöldanauðgunum“ og sagan hafi þess vegna breyst á einu ári. En Ingólfur Bjarni hrærði þessu saman og flutti fréttina eins og „aftökurnar“ og fjöldagröfin við kirkjuna væru ennþá tvær hliðar á sama máli og náttúrlega „minnisvarði um gegndarlaus illsku“ Rússa.

Hinn pólitíski boðskapur þáttarins kom svo einkum frá konu sem heitir Kira Rudyk. Hún leiðir evrópusinnaða hægriflokkinn Holos (Golos) sem hefur 20 fulltrúa á Úkraínska þinginu og meldaði flokkinn í stjórnarandstöðu 2020. Hún hefur samt orðið nokkurs konar fljúgandi sendiherra lands síns eftir innrásina og vinsæll viðmælandi fréttastofa. Hefur komið fram í yfir 20 sjónvarpsstöðvum, einkum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hún tók strax stefnu herskárrar andstöðu, dreifði mynd af sér með khalasnikov riffil í höndum. Hún kallaði þá mjög eftir flugferðabanni yfir Úkraínu (eins og Zelensky gerði) og hún hefur verið „advocating the provision of large-scale military support to the country“ segir Wikipedia.

Kira Rudyk kann sína rullu og hún sagði: „Þetta eru ekki átök milli Rússa og Úkraínu heldur átök hugmynda, átök um gildismat.“ Samt á hún núna í höggi við Rússana, en hún aðhyllist það sem kallast „afrússun“. „Við erum ekki bræðraþjóðir“ sagði hún. Því miður deilir Úkraína fortíð með Rússum en landið ætlar ekki að deila með þeim framtíðinni heldur reyna að komast eins langt frá þeim og hægt er „svo börn okkar þurfi ekki einu sinni að minnast þeirra, því þeir tengjast ætíð óhæfuverkum og þjáningu fyrir þjóð mína,“ sagði Rudyk.

Í framhaldi af því gekk Ingólfur Bjarni inn í bókabúð og þar var rússneskum bókum safnað saman í stórum stíl til að brenna, af því þær eru á rússnesku… Nei ekki brenna, heldur eru þær settar í pappírstætara til „endurvinnslu“.

Þessum Kveikþætti var ætlað að kynda undir stríðsæsingi og rússaandúð og skila vaxandi stuðningi við vopnasendingar og staðgengilsstríð í Úkraínu með því að sýna fram á villimennskuna í hernaði Rússa. Líklega tekst það. Þar skiptir nefnilega ekki mestu hvað satt er og rétt heldur að búa til frásgögn sem hentar „okkar málstað“ og að hún fái hámarksdreifingu. Ekki skal standa á RÚV.

En myndirnar frá Bútsja eru einn meginþáttur í „opinberu frásögninni“ af Úkraínustríðinu og stríðsáróðrinum. Þess vegna er mikilvægt að gagnrýna þær. Það getur verið skref í áttina að sannleikanum að benda á að frásögnin er ekki sjálfbær, stendur ekki undir sjálfri sér.

Þessi grein Þórarins Hjartarsonar birtist einnig á neistar.is