Fara í efni

TIL BAKA TIL FORTÍÐAR

Fyrir rúmum hundrað árum síðan hófst sigurganga lýðræðis á Íslandi. Völdin voru hægt og bítandi færð í hendur almennings og fulltrúa þeirra. Engum blandaðist hugur um að þróunin yrði síðan á einn veg, í átt til enn aukins lýðræðis og að lokum yrði þjóðin beint og milliliðalaust allsráðandi um öll mál sem hana skipta nokkru. En menn gáðu ekki að því að stéttirnar hafa ekki sömu hagsmuni. Yfirstétt sú sem myndaðist þegar fulltrúalýðræðið var tekið upp, hefur verið treg til að láta völd sín af hendi. Þessa stétt mynda hinir efnameiri í samfélaginu, ásamt embættismönnum og stjórnmálamönnum, sem sagt þeir sem hafa lifibrauð af því að halda óbreyttu ástandi.

Til að tryggja enn frekar völd sín og áhrif hefur yfirstéttin tekið til þess ráðs að snúa tannhjóli tímans til baka og freista þess að minnka völd og áhrif almennings. Aðaluppspretta hugmyndafræðinnar sem sótt er í til að skýra út nauðsyn minnkandi lýðræðis eru annars vegar frjálshyggjan og hins vegar svonefnd meritókrasía. Rökfærsla frjálshyggjunnar felst meðal annars í því að markaðsöflin séu einskonar nátttúruafl sem ekki megi trufla, aðeins með því að leyfa markaðnum (les: náttúrunni) að þróast frjáls, muni hann skila okkur þeim gæðum sem við sækjumst eftir. Þessi óafsannanlega tesa myndar annan meginstrauminn í guðfræði nútímamannsins. Í praxís birtist hún okkur skýrast í hugmyndinni um sjálfstæði Seðlabankans. Í þeirri hugmynd birtist einnig meginmótsögn frjálshyggjuguðfræðinnar, þar sem skyndilega er það ekki framboð og eftirspurn sem ákveða vexti heldur skuli vextir ákvarðast af "hæfum sérfræðingum".

En það er einmitt í hugmyndinni um fóstbræðralag markaðarins og sérfræðinganna, sem meritokratar og frjálshyggjumenn ná saman í æðri guðfræðilegri sýn: Besta stjórn samfélagsins er ekki lýðræði, heldur samspil markaðar og sérfræði. Markaðurinn á að ráða öllum rekstri og starfi samfélagsins, en utanum skal smíða lágmarksramma, og smiðirnir skuli vera "sérfræðingar" í hinu og þessu. Eftir búsáhaldabyltinguna heyrðist víða ákall um "fagráðherra", einsog lífsskoðanir væru orðnar úreltar og stéttarlegir hagsmunir gufaðir upp. Allir væru í raun sammála um allt sem máli skiptir, og eina sem vantaði, væru "hæfir" einstaklingar til að stjórna.

Við höfum séð vera að myndast á Vesturlöndum (og Ísland er engin undantekning) bandalag háskólamanna og kapítalista. Intelligensían og menntastéttirnar hafa löngum verið í hlutverki vindhanans sem snýst einsog vindurinn skipar. Menntastéttunum er skammtað brauð úr hnefa valdhafa hverju sinni og hugsjónir menntamanna hafa í sögunni takmarkast af því að veðja á réttan hest. Sá hestur er á nú sjálfur kapítalisminn, eftir því sem barátta hins almenna manns missir kraftinn.

Það stjórnmálaafl á Íslandi sem best rúmar samvinnu meritókrata og frjálshyggju er Samfylkingin. Þar á bæ trúa menn á sérfræði, staðreyndir og afl markaðarins til að lyfta undir horn. Sjálfstæðisflokkurinn, hefur fylgt í kjölfarið, þó svo að hann sé sögulega hrifnari af því að treysta á innsæi "gut feeling" og vantreysti fræðilegum nálgunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig verið ófeiminn við að líta á ríkið sem einkaeign sína og telur sig hafa stundað spillingu í "fullum rétti", enda löglega kjörinn til áhrifa. Þar hefur Samfylkingin verið gagnrýnið afl og mun svo verða áfram, þar til hagsmunirnir bera gagnrýnina ofurliði. Margt bendir þó til að yfirstétt þessara tveggja flokka muni ná helmingaskiptasamningum áður en langt um líður, samanber nána samvinnu SA og ASÍ.

Á sama hátt og Seðlabankinn átti að vera "sjálfstæður" var komið á lífeyrissparnaði sem einnig átti að vera "sjálfstæður". Það átti að færa ákveðinn hluta skattgreiðslna almennings í sérstaka sjóði, sem stýrt skyldi af "fagmönnunum" og féð skyldi ávaxtað "faglega" og úr samhengi við samfélagslegar þarfir aðrar.

Við vorum skyndilega búin að færa stóran hluta viðskiptalífsins tilbaka undan lýðræðislegu valdi og til "stofnana" sem engin leið var að stýra, nema auðvitað "faglega". Bankastofnanirnar voru síðan einkavæddar, fyrst stóru bankarnir og síðan litlu sparisjóðirnir.

Þegar hrunið varð, setti enginn í samhengi, sjálfstæði lífeyrissjóðanna, Seðlabankans og einkavæðingu bankanna. Annað hvort gagnrýndu menn Seðlabankann eða einkavæðingu bankanna og mjóróma raddir heyrðust um að ef til vill þyrfti að endurskoða skipulag lífeyrissparnaðar.

En í raun hangir þetta allt náið saman. Með því að færa stærstan hluta efnahagsákvarðana undan lýðræðislegu eftirliti, varð til tifandi tímasprengja sem að lokum sprakk í andlit okkar. Ofurtrú á mat og siðferði örfárra einstaklinga, sem áttu að taka risastórar ákvarðanir sem vörðuðu örlög heils þjóðfélags, án eftirlits, án gagnrýni leiddi til skelfilegrar niðurstöðu. Leiðarsteinar þessara einstaklinga áttu ýmist að vera fræðibækur úr háskóla sem áttu að gera þá hæfa til að taka ákvarðanir um vexti fyrir heilt þjóðfélag, eða fjárfestingarákvarðanir fyrir alla sparifjáreigendur landsins og þá í samvinnu við bankamenn sem höfðu eigin hagsmuni að leiðarljósi. Allt var þetta kerfi bundið í lög, þannig að enginn mátti sig hræra. Og nú einu og hálfu ári eftir hrun hefur engin gagnrýni á þetta kerfi komið fram.

Seðlabankinn er áfram sjálfstæður, lífeyrissjóðirnir eru ennþá sjálfstæðir og bankarnir eru aftur komnir í hendur kapítalista. Hin fræga játning Greenspan Seðlabankastjóra: "Those of us who have looked to the self-interest of lending institutions to protect shareholders' equity, myself included, are in a state of shocked disbelief," (úr yfirheyrslu House Committee on Oversight and Government Reform.) hefur ekki breytt neinu. Í þessari yfirheyrslu játar einn aðal hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar að hafa haft rangt fyrir sér í öllum megin atriðum. Það dugar ekki til.

Nú er komið að næsta skrefi hinna ráðandi afla á Íslandi. Það er markaðsvæða spítalabyggingar, vegi og virkjanir. Auðveldast er að gera þetta með samvinnu við svokallaðar vinstri stjórnir, sem eru stjórnir mannaðar valdamönnum úr flokkum sem stofnaðir voru af verkamönnum og alþýðufólki, en hafa verið teknir yfir af menntafólki og efnamönnum.

Samkvæmt samkomulagi við AGS á Íslandi, þá er Íslendingum ekki heimilt að taka lán hjá lífeyrissjóðunum. Ef Íslendingar vilja byggja veg, eða spítala eða virkjun, þá verður það að vera svokölluð einkaframkvæmd. Það gerist þannig að Lífeyrissjóðirnir (þeas. íslenskur almenningur) stofna félag um verkefnið og leigir síðan ríkinu (þeas. íslenskum almenningi). Með þessu eru völd yfirstéttarinnar tryggari.

Þetta er hins vegar það sem á erlendum málum kallast "monkey business". Þetta er ekki bara fölsun á bókhaldi, heldur einnig liður í að færa ákvarðanavald og eftirlit frá almenningi og gera þetta litla þjóðfélag ógagnsærra en fyrr. "Enginn skyldi sjálfs sín þörf þola", segir í Hávamálum, eða með öðrum orðum, "Enginn skyldi þurfa að betla hjá sjálfum sér". Enginn skyldi spara sér til tjóns. Menn spara til að nota þegar á þarf að halda. "Oft hlotnast leiðum, það sem ljúfum er ætlað" segir í sömu vísu. Hvað skyldi útrásin hafa brennt upp mörgum milljarða hundruðum af lífeyri, sem var "ljúfum ætlað"?

Nú ætti að nota tækifærið og leggja niður Seðlabankann, þjóðnýta lífeyrissjóðina og setja bönkum strangar skorður, til dæmis með lagasetningu sem miðar að því að bæta stöðu skuldara gagnvart lánardrottni. Lífeyrissjóðirnir voru bensínið sem knúði "útrásarvélina", án þeirra hefði engin útrás verið og ekkert hrun heldur. Lífeyrissjóðirnir eru orðnir æxli á samfélaginu og fráleitt að lögbundinn sparnaður, sem er  ekkert annað en skattar, skuli ekki lúta samfélagslegu eftirliti og skikkaður í þjónustu atvinnulífs og til að lúta kröfum meirihluta landsmanna, þegar á þarf að halda.