Fara í efni

HVER Á TÍBET?

Einu sinni var þjóð sem bjó í gjöfulu landi í einum af afkimum heimsins. Þessi þjóð hafði yfir sér einhverja dulmögnun friðar og andlegrar visku. Þetta var þjóð sem átti engan her. Hún lifði við hugmynda og trúarkerfi sem kennt er við búddisma og átti langa og afar merkilega hefð fyrir að velja sér sinn trúarleiðtoga sem við flest þekkjum.
Fyrir tíma innrásarinnar í Tíbet var ekki lögð mikil áhersla á að færa þjóðina til nútímans þó svo að nokkur teikn væru á lofti um að það hefðu orðið örlög Dalai Lama sem var ákaflega forvitinn sem drengur um aðrar þjóðir. Hann hafði hug á að kynna Tíbet umheiminum og kynnast sjálfur þessum heimi þegar hann fullorðnaðist. Það voru ekki miklar framkvæmdir í Tíbet og þeir gjörnýttu ekki landið sitt,  þó það væri ríkt af eðalmálmum og öðrum náttúruauðlindum.
Náttúruauðlindir Tíbet voru sem falinn fjársjóður í huga kínverskra ráðamanna sem þeir ágirntust. Á þeim tíma sem Kínverjar réðust inn í Tíbet var búddisma, þjóðtrú Kínverja hafnað og talað var um trúarbrögð sem morfín og þau með öllu bönnuð. Það samrýmdist ekki hinu nýja kerfi þjóðarinnar. Það mætti því álykta að þeim stæði ógn af trúarleiðtoganum í Tíbet. Vegna þess hve einangrað Tíbet var, vissu fáir fyrr en löngu síðar hvað gerðist í raun og veru þegar ráðist var inn í landið og það hernumið.
Tíbetar reyndu að verjast innrásinni en þetta var herlaus þjóð og vopnin þeirra ákaflega frumstæð miðað við það sem her Kínverja hafði yfir að ráða. Innrásin var barnaleikur og árið 1959 þegar Tíbetar reyndu uppreisn var hún fljótt barin niður og þeim var slátrað án miskunnar. Dalai Lama tókst að flýja ásamt 100.000 öðrum Tíbetum. Meira en hálf milljón Tíbeta hafa verið myrtir síðan innrásin hófst og varla er til sú fjölskylda í Tíbet sem hefur ekki misst vini og ættingja í blóðbaðinu. 
Kínverjar innlimuðu Tíbet sem hérað í Kína og hafa síðan þá markvisst reynt að eyða menningu Tíbeta. Þeir brenndu bækur, þeir brenndu hofin, þeir brenndu bænaflöggin þeirra. Kínverjar þvinguðu Tíbeta til að tala kínversku og taka upp kínverska siði. Kínversk yfirvöld hafa alla tíð unnið markvisst að því að fá Kínverja til að flytja til Tíbet svo að þeir myndu verða í meirihluta þar. Það hefur tekist, núna lifa Tíbetar í þeim veruleika að þeir eru að verða minnihluti í sínu eigin landi. Kínverjar sem flytja til Tíbet mega eignast tvö börn en þeir sem búa í Kína mega bara eignast eitt. Ég sá heimildarmynd fyrir 20 árum eftir danska fjölmiðlakonu sem hafði smyglað sér inn í Tíbet. Hún komst að því að tíbetskum konum var gert að fara í fóstureyðingu ef þær eignuðust fleiri börn en kínverskum yfirvöldum fannst rétt. Sumar voru sendar í fóstureyðingu með fimm mánaða gömul fóstur. Flestar tíbetskar konur þora ekki að fara á sjúkrahús vegna ótti við geldingu eða fóstrueyðingu. Það var margt annað í þessari mynd sem vakti mig upp til þess veruleika sem tíbetska þjóðin hefur þurft að þola. Og það er sláandi hve heimurinn hefur verið duglegur að horfa í hina áttina á meðan kínversk yfirvöld stunda þjóðarmorð í Tíbet.
Nú hafa Tíbetar loks fengið nóg. Ástæða fyrir uppþotum og mótmælum er skiljanleg og margþætt. En þeir Tíbetar sem standa að skipulagningu á mótmælum fyrir utan Kína líta á Ólympíuleikana sem kærkomið tækifæri til að fá athygli fyrir málstað sinn. Hlaupið með ólympíukyndillinn á að hefjast í Tíbet. Það er auðvitað alger hræsni því að Tíbetar mega ekki senda sitt fólk á ólympíuleikana.
Mótmælin í Tíbet eru orðin að blóðbaði. Samkvæmt heimildum frá útlögum og þeim sem hafa átt þess kost að ná símasambandi við Tíbet áður en lokað var á símasamband og netsamband við landið, eru yfir 100 manneskjur fallnar í valinn. Erfitt er að gera sér í hugarlund hve margir hafa verið settir í fangelsi en það er ástæða fyrir því að mannréttindasamtök fá ekki að heimsækja fangelsi í Kína. Þar er stundað hræðilegt ofbeldi og limlestingar. Hef lesið og séð viðtöl við fólk sem hefur sloppið lifandi úr þessum fangelsum og sá jafnframt sýningu Falun Gong hérlendis á sínum tíma.
Fólki í Lhasa er nú smalað hús úr húsi af hermönnum og sett í fangelsi, út af því að það mögulega tók þátt í mótmælum. Margt af þessu fólki mun aldrei koma út úr fangelsunum. Þeir virðast velja ungt fólk í þessari aðgerð sinni til að kúga Tíbeta til hlýðni. Þeir hafa sett tímamörk í kvöld, þar sem mótmælendum er gert að gefa sig fram eða sæta pyntingum.
Ef einhver trúir því enn að kínversk yfirvöld hafi verið að frelsa Tíbet undan oki trúarkerfis, þá ættu hinir sömu að geta fundið það réttlætanlegt að vesturveldin réðust inn í Írak eða munu ráðast inn í Íran af sömu ástæðu. Hernám er alltaf knúið af von um fjárhagslegan ábata og valdaþorsta. Þegar kemur að því að fordæma þjóðarmorð, kúgun og valdníðslu, þá á ekki að skipta máli hvar í flokki maður stendur.
Ég hvet alla sem finna það í hjarta sínu að nú er nóg komið og fordæma þessi voðaverk að skrifa kínverska sendiráðinu, tölvupósturinn þar er chinaemb@simnet.is. Ég ætla að standa fyrir mótmælum við kínverska sendiráðið í dag klukkan 17. Hvet fólk til að koma og sýna að okkur er ekki sama. 
Ég skora jafnframt á íslensk stjórnvöld að fordæma opinberlega við stjórnvöld í Kína ofbeldisfullar aðgerðir þeirra gegn Tíbet.
Tíbet fyrir Tíbeta. Kína út úr Tíbet!

Birgitta Jónsdóttir
Skáld