Fara í efni

NÁTTÚRA Á HEIMSVÍSU

Þú veist að Ísland er langt úti í höfum, magnað reginkrafti elds og jökla. Það á hvergi sinn líka í víðri veröld." Þetta sagði Jón bóndi við Lykla-Pétur í Gullnahliðinu og Lykla-Pétur svaraði:" Það mun satt vera: landið er fagurt. En einhver sem hingað kom hafði orð á því við mig að þjóðin hefði snemma glatað frelsi sínu vegna úlfúðar og svika búendanna." Jón: "Nefndu það ekki ógrátandi....
Mig langar að segja ykkur frá því hvernig annað eldfjallaland á annars konar plötuskilum nýtur sérstakrar virðingar. Eftirfarandi lýsing í lauslegri þýðingu er úr heimsminjaskrá UNESCO 1996. Til að gera ykkur forvitin sleppi ég staðarnöfnum." Eldfjöll landsins eru eitt af stórkostlegustu eldfjallasvæðum jarðar, þar sem bæði er um að ræða mörg eldfjöll á litlu svæði og mörg virk eldfjöll og einnig fjölbreytni jarðminja tengda eldstöðvum. Það eru fimm eldgosasvæði sem í sameiningu standa undir viðurkenningu landsins á heimsminjaskrá. Auk jarðfræðiþáttanna býr svæðið yfir sérstakri fegurð og fjölda villtra dýra." Árið 2001 var sjötta þjóðgarði landsins bætt við á heimsminjaskrá. Þar var lögð áhersla á "samspil gjósandi eldfjalla og jökla, sem mynda síbreytilegt og mjög fagurt landslag." Þar er líka dalur kenndur við Geysi, annar stærsti hveradalur í heimi. Virku eldfjöllin eru 29 af um 200. Þau eru keilur eða hryggir eins og Hekla. Þau hæstu með hvíta kolla.
Ísland státar af mun meiri breytileika í jarðmyndunum heldur en þetta landssvæði, sem er á heimsminjaskrá."Ísland er óvéfengjanlega eitt af merkustu eldfjallalöndum jarðarinnar. Landið er allt hlaðið upp í eldsumbrotum. Enn er þriðjungur þess virkt jarðeldasvæði og ekki aðeins eitt af þeim stórvirkustu á allri jarðarkringlunni heldur eitt hið fjölbreytilegasta um eldvirkni." Þannig komst Sigurður Þórarinsson að orði í Náttúrufræðingnum 1968 í grein um jarðeldarannsóknarstöð á Íslandi. Hann sagði einnig að íslenska "hryggjarstykkið" í Miðatlantshryggnum væri aðgengilegast til rannsókna. Þar eru líka mestu eldsumbrotin. Þess vegna er Ísland til.
Sveinn Jakobsson jarðfræðingur flutti erindi:" Hryggir og stapar í vestragosbeltinu" í mars 2003. Hann sagði íslensku móbergsmyndunina ekki eiga sína líka á jörðinni. Fjalllendið milli Þingvalla og Haukadalsheiðar væri einstakt safn hryggja og stapa og lagði til að það yrði friðað. Það eru því mikil vonbrigði að í umsókn Íslands á heimsminjaskrá er einungis um að ræða þjóðgarðinn á Þingvöllum, 5000 ha. og það á forsendum menningar, þinghalds og búðarústa, en hin einstaka jarðfræði og náttúra vatnsins sett hjá. Áður hefði þurft að stækka þjóðgarðinn til muna helst norður yfir Langjökul. Að fóstra eldfjallaeyju eins og Surtsey og fylgjast með þróun hennar er vísindalegt afrek og eins þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið á vegum jarðfræðinga Orkustofnunnar og annarra á Torfajökulssvæðinu og víðar.
"Um allan heim er Ísland þekkt fyrir að vera ein stór jarðfræðirannsóknarstofa...", segir í bæklingi Norrænu Ráðherranefndarinnar um jarðfræðilega fjölbreytni. Hefur þjóðin ekki efni á að öðlast og miðla þekkingu á jarðfræði landsins án þess að breyta henni í ál? Þurfum við ekki að geyma okkur náttúruvæna möguleika á virkjunum í eigin þágu? Höfum við engar siðferðilegar skyldur við heiminn vegna stöðu landsins á virkasta gosbelti Atlantshafshryggjarins?
Við verðum að vona að rammaáætlun reynist vegvísir til sátta, þrátt fyrir að á sl.ári hafi verið ráðist í virkjunarframkvæmdir sem vitað var að væru metnar í e-flokki þ.e. þar sem síst ætti að virkja. Aftur er farið að tala um að hækka stífluna í Laxá. Nú þegar þeir eru gengnir, sem börðust gegn frekari virkjun í Laxá og héldu að þeim hefði tekist að búa svo um hnútana að um varanlega sátt væri að ræða. Það er grunnt á svikum búendanna eins og Lykla-Pétur komst að orði. Friðlönd og jafnvel alþjóðasamningar mega fjúka þegar glýja álsins glampar í augum. Í rammaáætlun er meðal annars talað um alþjóðlega ábyrgð á náttúrunni og þar segir: "Ísland er t.d. auðugt að jarðfræðifyrirbærum sem mörg eru mjög sjaldgæf á heimsvísu". Erum við tilbúin að axla ábyrgð á þeirri auðlegð?
Bergþóra Sigurðardóttir.
Þessi grein birtist í mars hefti Kríunnar á síðasta ári.