Fara í efni

UM HORNA- OG HALAVÖXT

Það henti forðum að einn Guðsengla var brottrekinn úr klíku á heimaslóð, en orðið einelti var þá ósamið enn. Sá fór í útlegð til Helvítis og Andskoti er eitt marga nafna hans. Vondur var útlegðardómur og fylgdi honum sálarangur Djöfsa, pirringur vegna slaufunar. Ofsóknarkennd fylgdi. Sálarkvöl Kölska leiddi hann á braut atlögu gegn fyrrum yfirstjóra með inngripum og stríðstiltækjum, ofbeldi í mannheimi. Sá síðan átakavöllur og stríðin hryllileg, sum köld og dulin, önnur opinská og afar ljót og mannfólk ruglað illa í ríminu.

Óljóst er hverjar svikasakir voru bornar á útlægan Andskota forðum. Ráð er að taka dóminn upp, finna leið sátta. Færa Djöfsa upp til fyrra embættis í Guðsríki, banna slaufun og einelti gegn honum. Gera hann að bættum engli, þótt meðferð kosti. Við slíka sátt lýkur því Miklastríðinu, en við það missa þó krossmenn spón úr aski og aðrir kjörnir stríðsmenn. Mikjáll stríðsengill missir embættið.

Á jarðríki halda margir að Rússíá gjaldi sömu útreiðar nú og Djöfsi þoldi í Paradís forðum. Höfuðstjórar stórvelda margir og auðvalds með átrúnað á imperíalisma hafa valið að gera Rússíá að skotmarki sínu, þolanda eineltis. Er þó sama ættar- mótið að finna í Rússíá, þar í gildi hrákapítalismi, imperíalismi því líka. Útlegð úr umhverfi heimsauðvalds er þó uppkveðinn dómur klíkufélaga sem þeim auðvaldsheimi stýra helst.

Við svo búið líkist viðbragð Rússíá viðbragði útlæga Djöfsa. Fýlukast og ofsóknarkennd magnast og brýst nú út í stríðsæði gegn næsta nágranna, Úkraníu, en margir óttast að nýtt Miklastríð manna hefjist, ragnarök sem öllu lífríki eyðir. Uppvakning á ofsóknarkomplex getur leitt af einelti innan klíku og sá komplex veldur oft æðisköstum.

Dæmið um Purkinn í neðra sem útlægur var gerður úr Paradís er alkunna. Mál sem leysanlegt er þó. Eineltið gegn Rússíá kapitalisma og imperíalisma, nú ástundað einmitt af forvígisöflum slíkra gilda í heiminum, er hættulegt tiltæki. Engum samherja skal burtkastað úr klíkuparadís auðvaldsafla. Á slíka geta vaxið horn, jafnvel halar líka.