Fara í efni

RÍKISÁBYRGÐ OG SKRUM

Samræðulækurinn er bakkafullur á Íslandi um þessar mundir. Þá festast margir í útúrdúrum, kjarni máls týnist í grugginu öllu. Hugmyndaringlureið er eimitt akkur valdsins, sem leitt hefur Ísland á vonarvöl. Það safnar vopnum sínum á ný andspænis ringlaðri þjóð. Andsvar fólksins verður að felast í að styrkja heilbrigða dómgreind, styðja við réttlæti og samhjálp, efla á ný eigið sjálfstraust.
Páfar frjálshyggjunar hafa lengi boðað þá trú að ríkið, sem samnefnari samfélagsins, eigi engan beinan aðildarrétt að stýringu efnahagsmála þegar vel gengur, né heldur eigi samfélagið að bregðast við þótt allt fari í vask og neyðarástand ríki meðal almennings. Lógikin í þessum galskap byggist á grimmilegri sýn á hlutskipti þess mannfjölda, sem samfélgið byggir. Velferð fólks er sett undr fasískan mælikvarða og er fórnarkostnaður þess frelsis, sem ,,markaðsöflin" krefjast. Þetta pólitíska  skrum  er and styggðin, sem markið setur á kjör Íslendinga nú.
Frjálshyggjuöflin ruddu á brott samfélagseftirliti með efnahagsmálum en sóttu á sama tíma stíft í ríkisstuðning við brambolt sitt. Löggjöf og skattlagningu var snúið til þjónustu við peningabraskara uns ráðrúm þeirra varð óheft og stórkostlegt. Aðgengi braskara að almannaeignum og - sjóðum var opnað, almenningi var búinn skuldaklafi í þeirra þágu.
,,Ábyrgðarlaust" efnahagskerfi þjóðríkis er auðvitað fjarstæðukennd þverstæða, sem við blasir Íslendingum. Íslensku auðfélögin nærðust auðvitað á þeim samfélagsverðmætum sem þau soguðu til sín og bættu um betur með óhóflegri lántöku erlendis frá.  Á örfáum árum komust þau á glæpabrautir hérlendis og í nágrannalöndunum. Að baki þeirra stóð íslenskt ríkisvald í hers höndum frjálshyggjunnar, sem öflugur bakhjarl og stuðningsaðili, þátttakandi í svikamyllunni.
Á bólutíma síðustu ára eru vissulega mýmörg dæmi um virkan stuðning ríkisins við einkagróðaöflin og virka ríkisábyrgð á rekstri þeirra. Virkur ríkisstuðningurinn og virk ríkisábyrgðin við einkafjármálafyrirtækin stóð fram að algeru hruni þeirra og nú liggur þessi ríkisábyrgð eins og mara á gjaldþrota þjóðríki okkar. Engu  þjóðríki er unnt að lýsa yfir ábyrgðar leysi gagnvart eigin efnahagskerfi  og þar með gagnvart þegnunum. Það er einfaldur kjarni máls. Þjóðríkinu ber stýrivald í þágu almannahagsmuna, því ábyrgðin er og verður þess !
IceSave glæpamálið hefur auðvitað leitt fram vangaveltur um mögulega þjóðarábyrgð á þjófnaðarmáli íslensks einkafyrirtækis erlendis. Skuldahlekkir berast að, mest fyrir þá sök að íslensk stjórnvöld hvöttu til afbrotanna á sínum tíma og vörðu þau til hinsta dags ! Hlekkirnir eiga rætur í pólitískri kröfu frekar er lagalegri. Að baki kröfunni liggur hótun handrukkara um viðskiptahindarnir og einangrun og slík hótun er ekki léttvæg. Bikarinn er og verður beiskur.
Gjaldþrot Seðlabanka Íslands haustið 2008 átti sér rætur í ábyrgðarlausum styrktarlánum bankans til gæfrafyrirtækja. Haustið 2007 hökti svikamylla íslensku bankanna alvarlega og í ársbyrjun 2008 blasti feigðin við. Eignastaðan var öll neikvæð, lausafé hverfandi, lánstraust erlendis  horfið. Innlánasvindl erlendis var þeim hland í skó um sinn og miklu skipti þá útmokstur Seðlabankans á milljarðahundruðum styrktarlána til einkabankanna, án veða, án skilyrða. Lánastyrkir SÍ voru langt umfram fjárráð bankans sem virðist hafa fengið opna yfirdráttarheimild hjá ríkissjóði til verkanna. Því meiri rausn sýndi SÍ einkabönkunum sem ljósari varð óreiða þeirra og fjárglæfrar, þegar fyrirsjánlegt fallið nálgaðist. Seðlabankinn var rændur í þágu ræningjaklúbba sem féllu þegar sú auðsuppsprettan var þurrausin.
Seðlabankatjónið 2008 bitnar beint á ríkissjóði og er á stærð við Icesavetjónið ef að líkum lætur. Fyrrnefnda tjónið nýtur þó hvergi sannmælis né umræðu á Íslandi á borð við það síðarnefnda. Seðlabankatjónið er leynimálefni. Þar týndist almannafé sem í senn magnaði ábyrgðarleysi og óstjórn einkabankanna, jók þannig umfang efnahagshrunsins og er nú gríðarskuldaböggull á íslensku samfélagi. Alþingi hefur enn ekki nennt að kryfja málið !
Ríkisábyrgð á óreiðuskuldum  einkabraskara er umræðuvert málefni eins og Icesave málið sannar. Seðlabankastyrkirnir 2008  voru alltaf hugsaðir sem óendurkræft framlag almennings til glæfrastarfsemi og undan því tjóninu hleypur enginn ! Þar var ríkisábyrgð sýnd í verki.
Erlendar skuldakröfur á hendur íslenska ríkinu og efnhagaskerfinu hrúgast upp. Undanbragð aflanna sem sköpuðu skuldahlekkina er það lýðskrum að engri skuld fylgi ábyrgð . Veruleikinn útilokar þann kost nema ef Íslendingar kjósi einangrun í skuldafangelsi heimsins.Hérlendis er tilveru rótgróinna fyrirtækja ógnað, þau eru innanétin, skuldahrúgunum framvísað á almannaherðar.  Peningakerfið er í upplausn, lífskjör á niðurleið, heimili í skuldaþröng. Félagsöryggi fólks er ógnað. Hræfuglar girnast náttúrauðlindir og samfélagsverðmæti sem óseld eru enn.
Að baki öllu tjóni almennings liggur  græðgiskerfi frjáls hyggjunar. Pólitísk framvarðasveit hennar tórir þó sæmilega og efnir til ringlureiðar í hugum fólks. Þegar rústabjörgun er reynd kveða skaðvaldarnir rímur með því lýðskrumi  að enga ábyrgð beri að axla. Tjónið, sköpunarverk þeirra, er þó farg sem er að kæfa lífsanda samfélagsins. Handrukkarar heimsins standa sameinaðir með skuldakröfur sínar. Skaðvaldarnir kannast ekkert við eigin gjörðir, hallmæla  tilraunum til tjónavarna, hindra þær eftir mætti. Trúarskáld frjálshyggjunar yrkja áfram í skjóli ringlureiðar. Þau halda púðrinu þurru , geyma eldspítur í vasa, tilbúin til nýrra skemmdarverka. Eftir ártuga heilaþvottarstörf þykjast þau enn eiga innangegnt í hugmyndaheim landsmanna.
Efnahagskerfi hvers samfélags er undirstaða þess.  Íslenska þjóðríkið er umgjörð samfélagsins og axlar lokaábyrgðina, jafnvel þótt frjálshyggjuvilla hafi húsum riðið.  Af þessari ástæðu eru undirstöður efnahagsins aldrei einkamálefni. Þær eru samfélagsmál sem verða að lúta samfélagsstjórnun.
Íslendingar hafa nú reynt stjórnlaust form kapítalisma um árabil sem leiddi af sér ábyrgðarlaust glæpakerfi peningaafla og efnahagshrun. Tjónið skekur nú undirstöður samfélagsins. Við því verður samfélagið að bregðast. Sársauki  verður varla umflúinn en þjáningu almennings má vonandi lina. Nú mun ekki síst reyna á félagslega samkennd.
Íslendingar eru á krossgötum. Leiðsögn  Æru-Tobba stóð undanfarin ár og óvegirnir hafa leitt til bölvunar. Nú skal nýr slóði valinn af skynsemi og framsýni af fólkinu sem landið byggir, sem landið virðir, fólki sem býr yfir gnótt dugnaðar og heiðarleika. Fólki, sem skerpa mun framtíðarsýnina og forðast mun því leiðsögn brennuvarga.

Baldur Andrésson