Fara í efni

FUGLAR OG FÓLK.

Rjúpa ein hvílir í klóm frænda síns, fálka. Haldin Stokkhólmseinkenni, unir rjúpa sér vel eftir atvikum og bæði segja samband sitt samþykkt í nafni samstöðu. Yfir sveimar vígalegur konungur fugla, fálka og rjúpu, örn, sem kallast Sammi á stundum og veit vel af yfirvaldi sínu yfir þeim frændsyskinum í samstöðubandinu.

Með sunnavindi bárust nýlega öllu fuglageri Íslands vondu tíðindin af harmi kúgaðs fólks í Palestínu, fjöldadrápi á fólki í fangabúðum, fjölþættum ofsóknum um langan tíma á svæði þar sem hatrið ríkir. Hugaður krummi nefndi við fálka og rjúpu, hvort það sæmdi fuglum landsins að horfa þegjandi á hatur blómstra, kúgun, aðfarir í líkingu við þjóðarmorð. Fálkinn minnti rjúpuna á kló sína léttilega og benti krumma á konungsvaldið, örnin svífandi í hásölum yfir þeim.

Verum raunsæ í samstöðu okkar, muldraði rjúpan í fálkakló. Við erum smá, landið lítið, kvak okkar gæti bara komið okkur í koll. Vísaði rjúpan á fálkann, óþekktan af ljúflyndi. Sá tók undir og benti á Samma konung, örninn vígalega, ráðríkan og víðförlan um heiminn. Þeim konungi þjónum við í nafni samstöðu sagði fálki og allir þekkja hug kóngsins.

Þau fálki og rjúpa skipuðu krumma að flytja fuglageri landsins konungsboðskap, hafa sig hægt, styggja ekki yfirvald. Urgur er í fuglageri Íslands, sem efast um réttsýni rjúpu og fálka og það yfirvald sem þau segjast lúta. Sjófuglar kallast á, svanir syngja, spörfuglar á greinum, krummar krúnkast á.
Grimmilegt hatrið í mannheimum gætum við fellt úr gildi er sannfæring fuglagersins. “Samstaða um ranglæti” er hvorki fuglum né mönnum bjóðandi er tónn fuglagersins, né undirgefni við flögrandi illfygli af hvaða tagi sem er. Svanirnir hlusta eftir tísti músarrindla, vita að hugur skiptir meira máli en stærðin.