Fara í efni

Baldur Andrésson: ÍSLENSKA KREPPAN & KEYNES

Valinkunnugt er það viðbragð ríkisins við kreppu í kapítalísku hagkerfi að þá verði efnt til opinberra framkvæmda sem aldrei fyrr. Aðaltilgangurinn er að auka samfélagsveltuna, hækka neyslustigið, koma hjólum kapítalismans í gang. Aukaafurðin er að atvinnuleysi minnkar og að tiltekin mannvirki gætu orðið til þjóðþrifa síðar. Slikt  ríkisviðbragð er gjarnan kennt við hagfræðinginn Keynes sem hvorki var vinstri róttækur né krati. 
Keynes mælti gegn Versalasamningnum á sínum tíma, vissi að ef þýskt ríkisvald yrði mergsogið og vanað, yrði það banabiti kapítalisma, vísir að ægilegri kreppu í Þýskalandi.
Keynes skyldi þýðingu pilsfalda ríkisins fyrir auðstéttina. Hann varð hugmyndasmiður Rosevelts um fræg ríkisviðbrögð í BNA við stórkreppunni milli stríða. Sama pilsfaldakenning Keynes var grundvöllur Marshallaðstoðarinnar við enduruppbyggingu Evrópu eftir stríð á kapítalískum nótum. Hérlendis var byggð áburðarverksmiðja, síldarverksmiðjur ríkisins, bæjarútgerðir, virkjanir o.fl.
Svo vill til að pilsföld ríkisins nýttust líka til velferðarmála og Norðurlöndin notuðu það í ríkum mæli. Samneyslan óx, samhliða því að hagkerfin döfnuðu. Úr varð svonefnt blandað hagkerfi. Stéttabaráttan fæddi af sér velferðarkerfi.
Við íslenska samfélaginu blasir nú djúpstæð kreppa. Þá mætti ætla að margreynt þjóðráðið kæmi til sögunnar: Stórfellt ríkisátak  til framkvæmda.
Svo vill til að ekki fella allir kapítalistar sig við pilsfaldakenningar Keynes.  Frjálshyggjutrúmenn hatast við ríkisafskipti og eftirlit, biðja sér undan samfélagsstjórnun og ríkisrekstri yfirleitt, velferðin er einstaklingamálefni hvers og eins. Stórfelldar ríkisframkvæmdir eru sannarlega ekki á frjálshyggjublöðum. AGS starfar í anda  kennisteninga frjálshyggjunnar, sem frægt er. Kokkabækur AGS heimila þó skilyrðislausar ríkisgjafir til auðfélaga að sjálfsögðu. Íslendingar búa nú við háyfirstjórn AGS. Fyrsta boðorðið til ríkisins er algert bann við lántöku til framkvæmda. Annað boðorðið er niðurskurður velferðar, lækkun raunlauna. Þriðja boðorðið er sala samfélagseigna. (Endureinkavæðing bankanna er nú í góðum gír, einkavæðin virkjana og náttúrauðlinda er hafin,  fleira bíður. )
Auðvitað sinnir AGS einnig alþjóðlegri hagsmunavörslu. Smá og stór óleyst samfélagsverkefni bíða í hrönnum á Íslandi. Lífeyrissjóðir og fleiri aðilar liggja á gnægð fjármagns sem nú gæti aukið samfélagsveltuna. Þúsundir búa við atvinnuskort. Einkaframtakið er lamað, stór og smá fyrirtæki mörg í molum. Við þessar aðstæður ættu kenningar Keynes að sanna sig, um rétt og skyldu ríkisvaldsins til forystu um kreppulausnir. Raunin er samt öfug: Ríkisvaldið lýtur valdboði AGS, fer í kuðung, boðar tóman niðurskurð og moðsuðu, eflir kreppuna.
Örlítið klór í bakka er nú kynnt sem ,, framkvæmdir utan ríkisreiknings". Sá lygilegi leikur felst í því að stofna til einkaframkvæmdar á brýnum samfélagsverkefnum. Ríkinu er t.d. ætlað að verða skuldbundinn leigjandi að opinberum þjónustumannvirkjum en því er bönnuð eigandastaða. Vegspottar og jarðgöt þurfa að vera gjaldskyld einkeign. Ríkið skal  ekki ætla sér framtak eða eignarstöðu. Að baki liggja fremur óljósir einkavæðingardraumur AGS. Form ríkiskuldbindinga er AGS mikilvægt og því þurfa þær að standa ,,utan ríkisreiknings". Tvöfeldnin er skrýtin.
Nákvæmlega nú gjalda margir varhug við módelinu um einkaframkvæmd. Gjaldþrot Álftaness er lærdómsríkt. TR-húsið er ljótt mál. Eignarhaldfélög bíða gjaldþrotauppgjörs í hrönnum. Skuldbundnir leigjendur í vanda, oft opinberar stofnanir. Hagsmunastríð og óleystar flækjur hafa hlaðist upp svo ekki sér fyrir endan á. Módelið er tengt hugsun blöðrutímans, hrunið hefur svert það mjög.
Keynes gamli hefði sennilega boðað þá einföldu lausn að ríkið gerðist nú aðsópsmikið í  smáum og stórum framkvæmdum og hikaði ekki við lántöku gegn ríkiskuldabréfum. Slíkt hefði smitandi áhrif á önnur hjól. Skerðing velferðarþjónustu og þá  stórfelldur samdráttur í störfum er brjáluð kreppuaðgerð. Brjáluð. Illt er, ef vinstristjórn á Íslandi stendur til hægri við hægrimanninn Keynes.
Ef AGS hefur í raun ægivald á Íslandi verða ráðin okkur dýr.
Baldur Andrésson, 20.12.09