Kennaraverkfallið og sveitarstjórnarmenn
Mikil umræða hefur skapast um kennaraverkfallið og höfum við sveitarstjórnarmenn legið undir nokkru ámæli fyrir athafnaleysi, jafnvel sinnuleysi um velferð þeirra 45 þúsund grunnskólabarna sem enga kennslu fá – og hafa ekki fengið á fimmtu viku. Á spjallsíðu okkar vinstri grænna hefur heyrst hljóð úr horni, m.a. í minn garð og annarra sveitarstjórnarmanna úr röðum VG. Þetta er eðlilegt því fimm vikna verkfall allra grunnskólakennara í landinu er grafalvarlegt mál og því von að spurt sé hvað við sveitarstjórnarmenn séum að hugsa. Af hverju við semjum ekki orðalaust við kennara.
Nú er rétt að halda því til haga að málið hefur að sjálfsögðu verið heilmikið rætt, í borgarráði og borgarstjórn og á mörgum fundum kjörinna fulltrúa, formlegum og óformlegum. Hið sama er að segja úr öðrum sveitarfélögum og vissulega hafa sveitarstjórnarmenn miklar áhyggjur af stöðu málsins. En um hvað á þá að semja? Sannleikurinn er sá að það eru margar hliðar á þessum teningi, ein snýr vitaskuld að launum kennara, önnur að vinnutíma og vinnufyrirkomulagi, þriðja að skipulagi og þróun í skólastarfi o.s.frv. Sveitarfélögin horfa einnig á heildarsamhengi við aðra kjarasamninga sem þau eru að gera og munu gera á næstunni. Og þótt samningsaðilar geti verið sammála um sumt, þá eru ólíkar skoðanir á öðrum þáttum og það er einmitt það sem gerir þessa kjaradeilu sérlega flókna og erfiða. Þannig háttar til að ég hef sjálfur setið við samningaborð í kjaraviðræðum, á sínum tíma starfaði ég fyrir Kennarasambandið en ég hef líka átt sæti í Launanefnd sveitarfélaga. Af þeim sökum þekki ég vel til kjaramála kennara og veit að staðan í viðræðunum nú er bæði erfið og óvenju flókin. Sveitarfélögin hafa nú þegar komið til móts við mikilvægustu kröfur kennara, en vissulega ekki að öllu leyti. Það sem helst hefur staðið í okkur sveitarstjórnarmönnum eru kröfur um breytingar á innra skipulagi skólastarfsins, sem sveitarfélögin hafa verið að þróa undanfarin ár og telja að mikið hafi áunnist í. Við höfum áhyggjur af því ef stigin verða skref aftur á bak í þróun innra starfs. Um þetta eru aðilar ekki sammála og á því þarf að finna viðhlítandi lausn.
Frá því grunnskólinn fluttist til sveitarfélaga hefur miklu viðbótarfé verið varið til grunnskólamála. Á sama tíma og nemendum í grunnskólum hefur fjölgað um 6% hefur stöðugildum kennara fjölgað um tæp 30% og öðrum störfum fjölgað um rúm 50%. Þetta eru dæmi um metnaðarfulla viðbót inn í skólastarfið eftir að sveitarfélögin tóku við grunnskólanum. Í síðustu kjarasamningum var samið um meiri launahækkanir til grunnskólakennara og leikskólakennara en annarra stétta. Það er því ekki hægt að halda því fram með neinni sanngirni að sveitarfélögin séu áhugalaus um málefni grunnskólans.
Það hefur verið beðið um aðkomu ríkisins. Ég tel að það sé að vissu leyti tvíeggjað sverð. Í öllu falli hafna ég algerlega aðkomu ríkisvaldsins í formi lagasetningar og þarf ekki að fjölyrða um það mál. Ég tel heldur ekki rétt að tengja aðkomu ríkisins við einn tiltekinn kjarasamning. Á hitt er hins vegar að líta að það þarf að bæta fjárhagslega afkomu sveitarfélaganna almennt, ekki síst til að þau geti af myndugleik sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem þau hafa með höndum, einkum á sviði samfélagslegrar grunnþjónustu. Þannig tengjast kjaramálin, ekki bara kennara, heldur einnig annarra stétta, umræðunni um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
Þingflokkur VG hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að flytja eitt prósentustig úr tekjuskatti ríkisins yfir í útsvar til sveitarfélaga. Þessi eina aðgerð myndi, ásamt með viðeigandi jöfnunaraðgerðum, koma fjárhag sveitarfélaganna á viðunandi kjöl. Ég tel því mikilvægt að frumvarpið fái brautargengi á Alþingi. Og borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á síðasta fundi sínum, ályktun þar sem skorað er á ríkisvaldið að styrkja og efla tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau geti sinnt sínum lögbundnu og venjubundnu verkefnum. Þetta var breytingartillaga við framkomna tillögu F-listans, sem ég mælti fyrir og var að lokum samþykkt með 15 atkvæðum í borgarstjórn. Með henni er borgarstjórn að senda skýr skilaboð til ríkisvaldsins og það er ágætur samhljómur milli þeirrar samþykktar og þess málflutnings sem m.a. okkar þingmenn hafa haldið á lofti.
Við vitum öll að kjarasamningar verða ekki gerðir og kjaradeila ekki leyst í fjölmiðlum eða á borgarstjórnarfundum. En auðvitað hljótum við öll, sveitarstjórnarmenn um allt land og raunar allir þeir sem koma að þessari deilu, að leita leiða til að hægt verði að ná samningum sem allra allra fyrst. Þessi kjaradeila er þegar orðin of löng – allt of löng. Því er brýnt að ljúka henni sem allra fyrst og við kjörnir sveitarstjórnarmenn munum að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum til að svo geti orðið.
Árni Þór Sigurðsson