Fara í efni

VINSTRI MENN OG SKATTHEIMTAN

Lærið þið aldrei neitt, þið vinstri menn? Ekki einu sinni af reynslunni? Og svo er mótsögnin í umræðum ykkar og rökum brosleg. Í einu orði kvartið þið yfir skattahækkunum og í öðru yfir skattalækkunum! Þið virðist ekki skilja enn að því minna sem hið opinbera hrifsar til sín af fjármagni sem í umferð er því betur vinnur fjármagnið í þjóðfélaginu. Skilar arði og þarafleiðandi auknum sköttum þó prósenturnar séu lægri. Á meðan forsjárhyggju og ríkisframlaga aðferðinni var beitt þá skiluðu mörg fyrirtæki, ekki síst í sjávarútvegi litlum sem engum hagnaði og borguðu þess vegna litla sem enga skatta. Enda hvatinn til hagræðingar og ráðdeildarsemi takmarkaður. Stóri bróðir kom bara með pennastrikið ef illa gekk. Og er það ekki merki um árangur til handa þeim verst settu að sumir hverjir eru farnir að borga skatta sem ekki gerðu það áður? Svo er allt í lagi að fólk skilji orðið "kaupmátt" Ef hann eykst þá eykst máttur kaupsins, jafnvel þó fólk borgi skatt sem það gerði ekki áður. Skattleysismörk er önnur Ella, og finnst mér sjálfsagt að skoða hækkun á þeim.
Gunnar Th. Gunnarsson

Þakka þér fyrir bréfið Gunnar. Við reynum nú að vera sjálfum okkur samkvæm í umræðunni um skatta. Hitt er rétt hjá þér að það liggur ekki í augum uppi hvar hinn gullni meðalvegar liggur í því efni. Hvenær skattar eru of lágir til að fjarmagna allt það sem við gerum sameiginlega og hvenær of langt er gengið í skattheimtu þannig að hún verði vexti hamlandi. Spurningin er náttúrlega einnig hvernig skattabyrðinni er dreift. Sjálfum finnst mér hinum almenna launamanni ætlaðar of miklar byrðar þegar þær eru bornar saman við það sem sett er á herðar fjármagnseigandans.
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson